Allt stúkustarf frá 11. mars til loka starfsársins 30. júní 2020 fellur niður. Sjá nánar.

Þegar akurinn var plægður

Pistill stofn­anda Fjölnis

Helgi Bragason — Fjölnir

Ég gekki í Mími í desember 1979. Eftir sex ára veru í Mími var ég fenginn til liðs við undir­búning að stofnun nýrrar stúku. Það eru mikil forréttindi að vera þátttakandi í stofnun nýrrar stúku, sérstaklega var undir­bún­ing­urinn skemmti­legur undir stjórn Vals Valssonar. Ég var svo heppinn að fá að verða fyrsti söngstjóri í stúkunni Fjölni og lít alltaf til undir­bún­ings­áranna og einnig fyrstu starfs­áranna með þakklæti og hlýhug.

Bróðir Sigfús Halldórsson var beðinn um að semja lag, Fjöln­islag, fyrir hina nýstofnuðu stúku. Sigfús skilaði mér laginu á kasettu þar sem hann spilaði það á píanó. Br. Herbert H. Ágústsson útsetti svo lagið fyrir orgel og einnig fyrir blásara­sveit og var það frumflutt þannig á vígsludegi Fjölnis 25. janúar 1987. Á vígslu­deginum var bróðir Sigfús á sjúkrahúsi. Ég heimsótti hann á leið á stofn­fundinn og færði honum blóm frá okkur bræðrunum. Sigfús var mjög hrærður og þakklátur fyrir þessa kveðju frá okkur. Sigfús kom oft á fundi í Fjölni eftir þetta og þakkaði alltaf fyrir að bræður myndu eftir karlinum á sjúkrahúsi.

Auk Fjöln­islagsins var á stofn­fundinum flutt tónlist eftir W.A. Mozart þar sem einsöngvarar voru Friðbjörn G. Jónsson, Sigurður Björnsson og Kristinn Hallsson. Nánast allir tiltækir hljóð­færaleikarar spiluðu með eins og Þorvaldur Stein­grímsson, Jónas Þórir Dagbjartsson, Björn R. Einarsson og Herbert H. Ágústsson.

Þáverandi stórmeistari reglunnar Gunnar J. Möller kom með þá hugmynd að Fjölnir ætti sér sálm sem sunginn yrði á stofn­fundi og á öllum afmæl­is­fundum. Ég lagði til sálminn Þú, Guð, sem stýrir stjarnaher og var hann samþykktur. Sálmurinn er eftir Valdimar Briem og lagið eftir W. A. Mozart.

Lagið Til Fjölnis sem sungið er eftir borðhald er svo samið af br. Heimi Sindrasyni við texta br. Jóns B. Stefáns­sonar. Var það fyrst flutt á 10 ára afmæli Fjölnis árið 1997.

Fyrstu árin mættu yfirleitt allir Fjöln­is­bræður á fund. Ef einhvern vantaði hlaut hann að vera lasinn. Gestir voru margir, stundum jafn margir og Fjöln­is­bræður.

Eitt er það þó sem skyggði á að mati söngstjóra, en það var að honum fannst heldur ófagur söngur við borðhaldið! Þurfti ég að „skammast“ eitthvað fyrstu árin, en eftir nokkur ár svo ég tali ekki um núna er hann orðinn í fínu lagi.

Embætt­is­manna­fund­irnir voru skemmti­legir og alltaf án einhverra vandræða. Stundum voru þeir haldnir utan Reykja­víkur eins og t.d. í sumar­húsum Árna Lár og David Pitt. Vonandi ekki allt fært til bókar.

Allt frá upphafi hefur starfið í Fjölni verið til fyrir­myndar og stjórnað í kærleika og vinskap. Að fá að vera með frá byrjun er eftir­minnilegt
og hefur gefið mér mikið. Stúkan stendur svo sannarlega undir kjörorði sínu Caritate.

Helgi Bragason   X — nr. 10

Innskráning

Hver er mín R.kt.?