Allt stúkustarf frá 11. mars til loka starfsársins 30. júní 2020 fellur niður. Sjá nánar.

Hornrétt starf

Pistill stofnanda Fjölnis

Halldór Sigurður Magnússon — Fjölnir

Þegar ég gerðist félagi í Frímúr­ar­a­reglunni bjó ég í Stykk­is­hólmi. Þar kynntist ég mörgum ágætum bræðrum úr stúkunni Akri á Akranesi. Eftir viðræður við þessa bræður sannfærðist ég um að ég ætti erindi við Regluna en áttaði mig síðar á því að Reglan ætti líka erindi við mig.

Ég fór þess á leit við tvo gamla skáta­bræður að þeir gerðust meðmæl­endur mínir og var það auðsótt. Einn skáta- og frímúr­ara­bróðir sagði mér reyndar síðar að í hans huga væri Frímúr­ar­a­reglan eðlilegt framhald af skáta­starfinu. Upptaka mín fór fram 7. nóvember 1977 á 60 ára afmæli október­bylt­ing­ar­innar í Rússlandi. Þeim degi er ekki unnt að gleyma. Ég starfaði í Akri næstu fjögur ár en hvarf þá á braut til Banda­ríkjanna og dvaldi þar í tvo vetur. Eftir heimkomu tók ég upp þráðinn aftur, mætti á fundi í Akri en heimsótti líka stúkur í Reykjavík. Þar kom að ég var farinn að velta því fyrir mér að flytjast til stúku í Reykjavík. Þegar tækifæri gafst til þess að að verða einn af stofn­fé­lögum nýrrar stúku tók ég því með þökkum.

Undir­bún­ingur að stofnun Fjölnis tók tvö ár enda var vel vandað til allra hluta. Stofn­fé­lagar Fjölnis voru 39 bræður, 27 úr Mími móður­stúku Fjölnis, 5 úr Eddu, 5 úr Gimli, 1 úr Akri og 1 úr Rún. Starfið var tekið föstum tökum frá upphafi. Valur Valsson Stm. gerði bræðrunum grein fyrir því að í fámennri stúku væri nauðsynlegt að bræðurnir litu á það sem skyldu að mæta á fundi, aðeins ríkar ástæður gætu afsakað fjarveru. Bræðurnir tóku þessari áskorun af alvöru og í einlægni. Mæting var góð á fundi og margir gestir á hverjum fundi. Rík áhersla var lögð á vandað starf frá upphafi. Undir­bún­ingur embætt­is­manna fyrir fundi var góður og embætt­is­færsla nær undan­tekn­inga­laust hnökralaus.

Ég minnist þess frá fundi eitt fyrsta árið er ég var að syngja við upptöku að textinn skriplaði á skötunni. Ég leitaði eftir því að loknum fundi hvort bræðurnir hefðu tekið eftir þessum mistökum en enginn hafði tekið eftir þeim utan einn. Ég læt lesendum eftir að geta sér til um hver það hafi verið.

Fundarsiðir voru að sjálf­sögðu stranglega eftir ritúali á hverjum fundi og oft var minnt á einstök atriði á fundum til árétt­ingar á því hvað rétt væri. Allt miðaði að því að starfið væri hornrétt. Í einu tilviki var þó vikið frá því sem tíðkaðist hafði, nýliða­fræðslan var gerð markvissari. Bræður úr öðrum stúkum tóku eftir þessari breytingu og smám saman varð þessi siður tekinn upp í flestum stúkum.

Í Fjölni tíðkaðist gjarnan að óskað væri eftir því við meðmæl­endur að þeir gegndu ákveðnu hlutverki á upptökufundi og við brr. máltíðina. Oftar en ekki litu meðmæl­endur á þetta sem heiður sem þeir önnuðust af alúð. Kom þó stundum fyrir að menn færðust undan.

Við Fjöln­is­bræður urðum þess fljótlega varir að bræður úr öðrum stúkum tóku eftir því hversu örugg öll embætt­is­færsla var á fundum í Fjölni. Það hefur reyndar verið aðals­merki stúkunnar alla tíð að svo væri ætíð og er það vel.

Óhætt er að fullyrða að að það hefur ekki verið einfalt né auðvelt að taka við stjórn stúkunnar af fyrsta Stm. Fjölnis. En við höfum átt því láni að fagna Fjöln­is­bræður að Stm. stúkunnar hafa hver af öðrum gegnt því hlutverki með miklum sóma og virðingu fyrir embættinu, stúkunni
og bræðrunum. Fyrir það ber að þakka þeim og HHHHoJ.

Halldór Sigurður Magnússon   X — nr. 21

Innskráning

Hver er mín R.kt.?