St. Jóhannesarstúkan Edda er elsta starfandi stúkan á Íslandi. Hún var stofnuð 6. janúar 1918 sem fræðslustúka undir dönsku St. Jóhannesarstúkunni Zorobabel og Frederik T.D.K.H upp úr bræðrafélaginu Eddu sem hafði þá starfað í fimm ár. Hún varð síðan að fullgildri stúku 6. janúar 1919. Eins og aðrar stúkur á Íslandi sem stofnaðar voru í framhaldinu starfaði Edda innan dönsku reglunnar fram til 23. júlí 1951 þegar Frímúrarareglan á Íslandi var stofnuð. Fundir voru fyrstu árin haldnir á efstu hæð hússins við Austurstræti 16 sem þekktast er sem Reykjavíkurapótek. Fyrsti stólmeistari Eddu var Ludvig E Kaaber. St. Jóhannesarstúkan Edda hefur verið móðurstúka fjölmargra St. Jóhannesar fræðslustúkna en síðust þeirra til að verða að fullgildri stúku var St. Jóhannesarstúkan Hlér í Vestmannaeyjum.