Fyrstu frímúrarnir á Akranesi eru þeir mágarnir Sigurður Vigfússon og Kristófer Eggertsson, en þeir gengu í Eddu í lok ársins 1932 Jóhannes Reindal bakari var danskur frímúrari en lítið virkur. Kristófer fluttist burtu árið eftir að hann gekk í Regluna, svo að Sigurður var næstum tvo áratugi eini starfandi frímúrarinn á Akranesi.
Hinn 10.apríl 1951 gengur svo Ingólfur Jónsson í Eddu og ári síðar Sveinn Finnsson, er þá var bæjarstjóri hér. Í desember 1952 gengur Þorvaldur Þorvaldsson í Eddu, en stuttu síðar fluttist Sveinn Finnsson burtu.
Í maí 1956 ganga þrír Akurnesingar í Eddu á einum fundi, þeir Niels R Finnsen, Njáll Þórðarson og Jón Árnason. Voru þá frímúrarar orðnir 6 á Akranesi. En í maí 1958 gengu 6 bræður inn á tveim fundum, þeir Lárus B. Árnason, Óli Örn Ólafsson, Alfreð H.Einarsson, Guðmundur Sveinbjörnsson, Jón Ben Ásmundsson og Stefán Bjarnason.
Þegar bræðurnir voru orðnir 12 að tölu hittust þeir stöku sinnum og fóru stundum saman all margir á fundi suður. Var nú farið að ræða í alvöru um einhverja félagsstofnun hér á Akranesi. Enn bættust tveir bræður við í maí 1961, þeir Pálmi Sveinsson og Jóhannes Finnsson.
Um þetta leiti var haldinn fundur í húsakynnum Sementsverksmiðju ríkisins og voru þar mættir m.a. Vilhjálmur Þór, Víglundur Möller, Guðmundur Hlíðdal o.fl. Því miður er ekki til skráð fundargerð frá þessum fundi, en þar var rætt um að reyna að skapa Reglunni starfsgrundvöll á Akranesi.
Í janúar 1962 bætast í hópinn Knútur Ármann og Helgi Daníelsson og um vorið 1963 flyst Jón Eiríksson til Akraness. Snemma á árinu 1963 tilkynnti S.M.R. Ásgeir Ásgeirsson, að stofna skyldi Bræðrafélag á Akranesi 28. maí þá um vorið, og skyldi Magnús Guðmundsson prófastur í Ólafsvík veita því forstöðu, en hann gekk í Eddu í júlí 1948.
Bræðrafélagið Akur
Stofnfundur Bræðrafélagsins Akurs var svo haldinn í húsakynnum Sementsverksmiðju ríkisins hinn 28. maí 1963. Nafn Bræðrafélagsins var samkvæmt uppástungu Magnúsar Guðmundssonar. Stm. Eddu Sveinn Kaaber stofnaði Bræðrafélagið, en ásamt honum voru mættir frá Eddu þeir Helgi Briem, Jóhannes S.Jónsson, Erlingur Þorsteinsson, Sigurður Sigurgeirsson og Zophonías Pétursson.
Stofnendur Bræðrafélagsins Akur voru þessir bræður:
Magnús Guðmundsson VIII
Ásgeir Sigurðsson VIII
Sigurður Vigfússon VII
Guðmundur Sveinsson VI
Þorvaldur Þorvaldsson IV/V
Guðmundur Sveinbjörnsson IV/V
Lárus Árnason IV/V
Jón Árnason IV/V
Ingólfur Jónsson III
Niels R.Finsen III
Óli Örn Ólafsson III
Jón Eiríksson III
Friðrik Þórðarson III
Jón Ben Ásmundsson III
Alfeð H. Einarsson III
Jóhannes Finnsson III
Pálmi Sveinsson II
Stefán Bjarnason I
Helgi Daníelsson I
Knútur Ármann I
Fyrstu árin og húsnæðið
Fyrsta árið var starfað í húsakynnum Sementsverksmiðju ríkisins og kom séra Magnús jafnan úr Reykjavík, en hann var þá fluttur þangað. Flutti hann bræðrunum ýmsan fróðleik, enda var hann mjög fróður um táknmál Reglunnar. Fyrsta starfsárið voru haldnir sjö fundir.
Brátt kom í ljós, að að ekki var unnt að starfa í þessu húsnæði til frambúðar og fengu þá bræðurnir inni í Félagsheimili templara, og héldu þar fundi í eitt ár. Fyrsti fundurinn þar var fyrsti afmælisfundurinn 28.maí 1964. Sagði þá séra Magnús af sér formennsku, sökum anna og þess, að hann bjó í Reykjavík. Var nú kosinn formaður Þorvaldur Þorvaldsson og var hann formaður Bræðrafélagsins upp frá því.
Annað árið 1964-1965 voru haldnir 8 fundir og þriðja árið 1965-1966 8 fundir. Á þriðja ári félagsins fengu bræðurnir afnot af íbúðarhæð að Suðurgötu 106 b gegn því að þeir standsettu hana. Var nú gengið í að lagfæra íbúðina, voru rifnir niður tveir veggir, og fékkst þarna lítill stúkusalur 3,80×8,00 m.og borðsalur álíka stór, ásamt einu herbergi og W.C. einkennageymslu og skjalageymslu. Var salurinn vígður af Stm. Eddu Sveini Kaaber á afmælisfundi 28.maí 1965,og voru fundir haldnir þar samfellt þar til á jólafundi 1971,en þá voru ljósin borin út úr þeim sal í fundarlok og húsið rýmt um áramótin.
Á fundi í Bræðrafélaginu hinn 13.febrúar 1967 var að fundi loknum settur umræðufundur um húsnæðismál framtíðarinnar. Var sérstaklega tekið fram í fundarboði, að rætt yrði um þetta mál að loknum fundi. Fyrir fundinum lá tilboð um að kaupa rétt til að byggja hæð ofan á húsið að Stillholti 14, en það er 430 fermetra að gólffleti. Nokkrar umræður urðu um málið, en við atkvæðagreiðslu var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að ráðast í kaupin.
Br. Sigmundur Halldórsson teiknaði aðstöðu fyrir starfið inn í þetta litla hús. Var síðan kosin bygginganefnd til að annast samninga og láta hefja verkið. Í þessa nefnd voru kosnir þeir Hallgrímur Árnason, Ingólfur Jónsson og Sigurður G. Sigurðsson. Um haustið 1967 var húsið steypt upp af Gunnlaugi Jónssyni trésmíðameistara og reisugilli haldið þann 23. september að Suðurgötu 106 b.
Fræðslustúkan stofnuð
Hinn 10.febrúar 1968 var Fræðslustúkan Akur stofnuð og tók hún við af Bræðrafélaginu, stofnendur voru 36. Fyrir hönd stúkuráðs var mættur Bjarni R. Jónasson og las hann upp stofnskrána, en auk hans voru mættir eftirtaldir. St.m.Eddu Sveinn Kaaber, Stefán Thordarsen, Óli Pálsson, Sören Jónsson og Eggert Guðmundsson.
Sveinn Kaaber vígði Þorvald Þorvaldsson sem stjórnandi bróður Fræðslustúkunnar.
Embættismenn fræðslustúkunnar
Stj.br. – Þorvaldur Þorvaldsson
v.Stj.br. – Guðmundur Sveinbjörnsson.
E.v.br. – Ingólfur Jónsson.
Y.v.br. – Óli Örn Ólafsson.
Sv. – Lárus B. Árnason.
R. – Björn H. Björnsson.
Fh. – Niels R. Finsen.
Frá stofnfundi til áramóta 1971 voru haldnir 41 fundur í húsnæðinu að Suðurgötunni. Hafist var handa við að ljúka stúkusalnum að Stillholti 14 og var hann vígður 25 mars 1972. SMR Reglunnar Ásgeir Ásgeirsson lagði hornstein að byggunni og hélt móðurstúkan Edda fund í salnum, á þeim fundi var Kristján Fjeldsted frá Ferjukoti vígður inn í Regluna.
St. Jóh. Akur stofnuð
Nú var komin aðstaða fyrir fullkomna stúku, og var þegar farið að undirbúa stofnun hennar af kappi. Það dróst þó af ýmsum ástæðum að af því yrði, og var ákveðið að stofndagur stúkunnar yrði hinn sami og vígsludagur hússins, þ.e, 25. mars 1973, sem þá bar upp á sunnudag.
Til Stúkuvígslunnar voru mættir rúmlega eitt hundrað bræður.
S.T.M.Valdemar Stefánsson framkvæmdi vígsluna.
Fyrstu embættismenn voru þessir:
St.m. — Þorvaldur Þorvaldsson
V.Stm. — Sigurður Vigfússon
E.Stv. — Guðmundur Sveinsson
Y.Stv. Gunnar Bjarnason
K.M. — Jón Eiríksson
R. — Óli Örn Ólafsson
S.M. — Björn H. Björnsson
F.H. — Niels R.Finsen
L. — Hallgrímur V.Árnason
S. — Bjarni Aðalsteinsson
Stofnendur Stúkunnar voru 50. Merki Stúkunnar eru þrjú tákn á ferningslöguðum reit, þrjú kornöx, hornmát og hringfari og gotneska rúnin Jahr. Var hönnun þess að mestu verk bræðranna Gunnars Bjarnasonar og Jóns Eiríkssonar en Garðar Óskarsson teiknaði það og útfærði. Kjörorð stúkunnar er Akur skal erja sem er valið samkvæmt tillögu Br. Magnúsar Guðmundssonar. Auk þeirra merkisatburða í sögu Akurs, sem getið er um hér að framan er að sjálfsögðu stofnun Bræðrafélagsins Borgar í Stykkishólmi þann 9.jan 1988 og Fræðslustúkunnar Borgar þann 21. október 1979. Einnig var það merkur áfangi, þegar Akursbræður festu kaup á íbúð á annari hæð hússins að Stillholti 14 árið 1995 og strax að afloknum lokafundi var hafist handa við að breyta húsnæðinu úr íbúðarhúsnæði í það horf sem það er í dag bræðrastofa, bókasafn og salernisaðstaða fyrir bæði kyn og tók það verk um tvö ár. Aðalinngangur hússins var einnig færður frá norðurhlið hússins á vestur gafl þess, við þessa aðgerð losnaði um það pláss sem myndaðist við að brjóta niður stigan í gamla inngangnum og seldi stúkan það og fékk svolítið fé fyrir það, sem nýttist vel í endurbótunum. Og bræðrunum tókst að ljúka nauðsynlegum breytingum á því fyrir 25 ára afmælisfund Akurs þann 25. mars 1998. Þann 5. október árið 2001 var nýr og glæsilegur stúkusalur vígður af S.M.R. Sigurði Erni Einarsyni.
Og þann 7.oktober var hornsteinn lagður að húsinu af SMR Sigurði Erni Einarssyni ásamt mörgum af æðstu embættismönnum reglunnar. Athöfnin var sérstök af því leiti að eiginkonum bræðranna var boðið að vera viðstaddar við hornsteinslögnina og held ég að það sé einsdæmi í sögu Frímúrarareglunnar á Íslandi. Akursbræður mega vera stoltir af öllum þeim framkvæmdum sem þeir hafa innt af hendi fyrir stúkuna sína.
Stólmeistarar frá upphafi
Frá stofnun St.Jóh.St.Akurs hafa eftirtaldir bræður verið Stólmeistarar:
Þorvaldur Þorvaldsson 1973 — 1978
Jón Eiríksson 1978 — 1981
Gunnar Bjarnason 1981 — 1984
Baldur Eiríksson 1984 — 1988
Svanur Geirdal 1988 — 1996
Skúli Lýðsson 1996 — 2002
Gunnar Ólafsson 2002 — 03.03.2008
Karl Alfreðsson 03.03.2008 – 15.04.2013
Núverandi Stm Akurs er Ólafur Rúnar Guðjónsson 15.04.2013 –