Ágrip af sögu Draupnis

Upphafið

Saga Bræðra­fé­lagsins Draupnis á Húsavík og síðar St Jóhann­es­ar­stúk­unnar Draupnis hófst þegar Grímur Leifsson rafvirki á Húsavík og Mímis­bróðir kom að máli vð Helga Valdi­marsson Mímis­bróður haustið 1979 sem þá stóð fyrir bygginga­fram­kvæmdum á Húsavík.  Grímur vildi fá Helga til að vera í forsvari fyrir stofnun Frímúr­ara­stúku á staðnum.  Helgi var í upphafi tregur til verksins enda hafði hann komið til Húsavíkur atvinnu sinnar vegna.  Hann vildi þó vinna að verkefnum reglunnar eftir mætti.  Á Húsavík og nágrenni voru þá búsettir nokkrir Frímúr­ara­bræður, nokkrir Mímis­bræður og Rúnar­bræður.

Síðla sama haust voru Rúnar­bræður staddir hjá Grími Leifssyni að hans frumkvæði en hann var þá ungur og áhuga­samur í reglunni.  Hann boðaði Helga Valdi­marsson  á þennan fund og fleiri.  Þar voru staddir m.a. Ragnar Stein­bergsson Stm Rúnar og Þórður Gunnarsson Stm Stuart stúkunnar.  Á fundinum var lagt að Helga að standa fyrir stofnun Bræðra­félags Frímúrara á Húsavík.  Helgi tók verkefnið að sér eftir eindregna hvatningu heima­manna og Rúnar­bræðra.  En ljóst var að Rún yrði vernd­ar­stúkan.

Helgi hófst þegar handa og stefndi að stofnun Bræðra­félags strax á vordögum ef tilskilin leyfi fengjust.  Það tókst og stofn­fundur var ákveðinn 7 maí 1980.  Stofn­fundur Bræðra­fé­lagsins Draupnis á Húsavík og nágrennis var haldinn á Hótel Húsavík miðviku­daginn 7 maí 1980 kl. 17.00.  Stofn­fé­lagar voru þessir: Helgi Valdi­marsson, Sigurður Guðmundsson, Gústav Axel Guðmundsson, Einar Pálsson, Grímur Leifsson, Jóhann Kristinn Jónsson, Ólafur Valberg Skúlason, Richard Sigur­bald­ursson, Björn Guðmundsson og Völundur Hermóðsson.

Auk þeirra sátu 28 Rúnar­bræður fundinn.  Indriði Pálsson, dróttseti Reglunnar úr Reykjavík sat fundinn.  Stofn­fundinn setti Stm Rúnar, Ragnar Stein­bergsson og las upp stofnskrá og lögleiddi Bræðra­fé­lagið.  Formaður var kjörinn Helgi Valdi­marsson og tók við fundar­stjórn.  Á milli fundar og bróður­mál­tíðar var viðstöddum boðið að skoða hús það sem bræðurnir höfðu keypt að Árgötu 14 á Húsavík.

Nafnið

Um nafngiftina á félaginu sem sr Sigurður Guðmundsson á Grenj­að­arstað hafði stungið uppá segir í Snorra Eddu.  Þegar bálför Baldurs var gerð þá lagði Óðinn ,,á bálið gullhring þann er Draupnir heitir.  Honum fylgir sú náttúra að hina níundu hverja nótt drupu af honum átta gullhringar jafnhöfgir.“

Þeim 10 bræðrum sem stofnuðu Bræðra­fé­lagið bættist fljótlega liðsauki þegar fjórir ungbræður gengu til liðs við regluna og gerðust síðan stofn­fé­lagar St Jóh. Fræðslu­stúk­unnar sem nú var farið að ræða um í alvöru að koma á fót.  Þessir bræður voru: Einar Fr Jóhann­esson, Einar Njálsson, Jón Þorgrímsson og Ólafur Atlason.  Auk þeirra gerðist sr Friðrik A Friðrikssson stofnandi fræðslu­stúk­unnar sem þá var orðinn mjög aldraður en hann var gamall Rúnar­bróðir.  Hann hafði lengst af þjónað á Húsavík og síðast á Hálsi í Fnjóskadal.

Fræðslu­stúkan

Á fimmta fundi Bræðra­fé­lagsins var borin upp tillaga um að breyta Bræðra­fé­laginu í Fræðslu­stúku.  Málið var rætt á flestum fundum fram til vorsins 1981.  Stefnt var að því að stofna St Jóh. Fræðslu­stúkuna Draupni á ársafmæli Bræðra­fé­lagsins 7 maí 1981. Með samstilltu átaki og mikilii vinnu Draupn­is­bræðra þá tókst þetta.  Stofn­fundur St Jóh fræðslu­stúk­unnar Draupnis var haldinn í húsakynnunum að Árgötu 14 á Húsavík fimmtu­daginn 7 maí 1981 kl. 19.00.  Stm Rúnar Ragnar Stein­bergsson setti stofnfund Draupnis og mætli fyrir um að breyta Bræðra­fé­laginu í St Jóh. Fræðslu­stúku undir umsjá og vernd St Jóh. St Rúnar á Akureyri.  Sr. Sigurður Guðmundsson var kjörinn og skipaður Stj br á þessum stofn­fundi og tók því næst við embætti og stjórnaði stúku sinni.  Stofn­fé­lag­arnir voru Bræðra­fé­lags­bræð­urnir 15 og gestir á fundinum voru 21 Rúnar­bróðir, 1 Mímis­bróðir og 1 Mælifells­bróðir.

Mikill vöxtur var í starfinu öllu.  Haustið 1985 voru fest kaup á húsnæði að Garðars­braut 62 í kjallara  en þá höfðu 12 bræður bæst í hópinn.   Húsið var tilbúið undir tréverk og mikil vinna við stand­setningu.  Fyrsti fundur í húsinu var haldinn 6 apríl 1986 og voru 75 bræður af landinu öllu á þeim hátíð­ar­fundi.

Frá upphafsdegi Draupnis hafa 6 Stj br verið við störf og hvatt bræður til dáða.  Þeir eru:   sr Sigurður Guðmundsson  frá 1981-1987, Jóhann Kr Jónsson  frá 1987-1993, Sigurgeir Aðalgeirsson frá 1993-2002, Sigurður Brynj­úlfsson frá 2002-2008, Eiður Árnason frá 2008-2014 og  sr Sighvatur Karlsson frá 2014.

Það er vert að geta þess að starfsárið 2016-2017 gegna þrír kennimenn embættum hjá Draupni.  Sr. Sighvatur Karlsson, Húsavík gegnir embætti Stj br Draupnis. E  vb er sr. Þorgrímur Daníelsson, Grenj­að­arstað og Y vb er sr Jón Ármann Gíslason,  prófastur á Skinnastað.

Draupn­is­bræður horfa  vonar­ríkum augum til framtíðar og stefna  ótrauðir að því að á Húsavík verði stofnuð fullkomin stúka í náinni framtíð þegar draumar fólks um verulega atvinnu­upp­byggingu hafa ræst á svæðinu.

Á 10 ára afmæli Fræðslu­stúk­unnar Draupnis flutt br Einar Njálsson erindi. Lokalín­urnar voru þessar sem eiga enn vel við: ,,Hér sitjum við nú saman, nokkrir dropar úr mannhafi óendan­leikans.  Í okkur býr græðandi og lífgandi kraftur.  Sameinaður bróður­hugur okkar getur leyst úr læðingi mikið ljós.  Hinu liðna geta menn aldrei breytt, aðeins dregið af því lærdóm.  Nútíðina og framtíðina  höfum við á valdi okkar.  Ég óska að þar megi ríkja hin konunglega íþrótt.“

7 maí er Draupn­is­bræðrum kær.  Það er fallegur dagur til lokafundar með  bræðrum nær og fjær.  Allt líf að kvikna úti fyrir. Og innra fyrir brenna hjörtu bræðranna fyrir framtíðinni.  Góðar stundir.

Sighvatur Karlsson Stj br Draupnis

Innskráning

Hver er mín R.kt.?