St. Andrésarstúkan Helgafell í Reykjavík var stofnuð 14. júlí 1934. Áður hafði verið starfandi fræðslustúka frá 15. júlí 1923 á Andrésarstigum. Hlaut hún nafnið Helgafell 2. mars 1929.
Mjög var þrýst á dönsku Stórstúkuna að fullgilda Helgafell sem stúku svo hægt væri að veita bræðrum frama í reglunni hér á Íslandi, því mjög kostnaðarsamt var fyrir bræður að sigla til Danmerkur í þeim eina tilgangi að fá frömun í Reglunni, og stóð það öllu reglustarfi fyrir þrifum.
Stofnandi Helgafells, Ludvig Emil Kaaber, gekk mjög hart fram í því að fá Helgafell viðurkennda sem fullgilda stúku bæði með bréfasamskiptum og heimsóknum til Danmerkur á fundi með stjórn dönsku Stórstúkunnar sem Ísland tilheyrði á þessum tímum og Kristjáni X. Danakonungi sem var VSV (SMR) Dönsku Reglunnar. Loksins kom svo jákvætt svar frá Dönum sem sendu hingað sendinefnd vorið 1934 til undirbúnings, svo hægt væri að stofna hér fullgilda Andrésarstúku um sumarið.
Stofnendur Helgafells
Stm. — Ludvig Emil kaaber bankastjóri
Vm. — Carl B. H. Olsen stórkaupmaður
E.Stv. — Magnús Jónsson prófessor
Y.Stv. — Ágúst H. Bjarnason prófessor
Skm. — Carl Proppe fulltrúi
Km. — Ólafur Lárusson prófessor
Sm. — Thorsteinn Scheving Thorsteinsson lyfsali
R. — Ísleifur Jónsson gjaldkeri
L. — Martin Jessen skólastjóri
E.Stú. — Guðmundur Loptsson fulltrúi
Y.Stú — Pétur Haltested fulltrúi.
Fyrsti upptökufundurinn fór fram 5 dögum eftir vígslu Stúkunnar og voru þá tveir bræður vígðir til IV/V°. Á þessum árum voru allir fundir Reglunnar haldnir í einum og sama salnum uppi á lofti að Austurstræti 16 ( Natan & Olsen-húsið, síðar Reykjavíkurapótek ) oft voru tveir til þrír fundir á sama stigi í röð til að hagræðis vegna salaruppsetningar. 27. janúar 1951 voru núverandi húsakynni Helgafells vígð við Skúlagötu (Bríetartún) í Reykjavík. Þessi nýju húsakynni auðvelduðu mjög allt starf súkunnar og komst það í fastar skorður með fundi alla miðvikudaga. Þegar Jóhannesarstúkunum fjölgaði á sjötta og sjöunda áratugnum fjölgaði einnig nýjum bræðrum sem óskuðu frömunar í Andrésarstúku, þurfti Helgafell því að fjölga fundum sínum og var svo komið að Helgafell hélt fundi mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga og einnig um helgar, þegar mest var á 9. áratugnum, eða um 90 fundi á ári. Þetta breyttist svo með Stofnun Andrésarstúknanna Hlín, Heklu og nú síðast Hugins. Frá stofnun Helgafells 1934 til 2017 hafa verið haldnir yfir 4000 fundir í Helgafelli. Bræður í Helgafelli eru nú um 1280. Stólmeistararnir eru orðnir 14 talsins og bræður sem gegnt hafa embætti í stúkunni skipta mörgum hundruðum. Í dag eru starfandi um 55 embættismenn á hverju starfsári. Hin seinni ár hefur Helgafell beitt sér fyrir því að efla samskipti og kynni eiginkvenna Helgafellsbræðra með sértökum samkomum og ferðalögum bæði innanlands og erlendis sem konunum er boðið að taka þátt í, þetta hefur eflt mjög starfsandann og þjappað bræðrunum saman.