Upplýsingar og takmarkanir á starfsemi Reglunnar vegna COVID — 31. ágúst 2021 Sjá nánar.

Smit og smitleiðir

Íslenskan á mörg skemmtileg orð og heiti sem gefa til kynna að sjúkdómar berist milli manna með svonefndri „smitun“, sem oftast merkir að „smitvera“ eða „örvera“ (baktería, veira, sveppur eða frumdýr) berst frá smituðum eða sýktum manni og nær fótfestu hjá fleiri einstak­lingum. Þannig getur smitvera borist koll af kolli til fjölda manna og leitt til útbreiðslu tiltekins sjúkdóms . Fjarri fer því að allir sjúkdómar smitist milli manna á þennan hátt, en þeir sem það gera eru nefndir „smitsjúk­dómar“. 

Smitsjúk­dóm­arnir eru margir og misjafnlega alvar­legir. Sumir teljast til heims­far­sótta og berast um lönd og álfur í stórum bylgjum, en aðrir skjóta upp kollinum öðru hvoru eða reglulega í samfé­laginu, svo sem hin árvissa inflúensa. Sumir virðast „nýir“ og eiga ekki langa sögu meðal þjóðanna, svo sem Ebóla, svínaflensa og kórónu­veiru­sjúk­dóm­urinn (COVID), en aðrir eru „gamlir“, hafa lengi verið þekktir og eiga langa áfallasögu, svo sem berklar, holds­veiki, lömun­ar­veiki, sárasótt og svarti dauði. Þá má nefna að sumir hafa látið undan síga með opinberum sóttvörnum og hrein­lætis­að­gerðum af ýmsu tagi eða sértækum smitvörnum, svo sem með bólusetn­ingum gegn tilteknum sjúkdómum. 

Smitsjúk­dóm­arnir „smitast“ milli manna vegna þess að þeir hafa „smitleiðir“, það er að segja þeir berast á ákveðinn og oft vel þekktan hátt frá smituðum eða sýktum einstak­lingum til annarra sem eru ósmitaðir eða ósýktir. Smitleiðir hinna „nýju“ smitsjúkdóma geta verið óljósar í upphafi ferils þeirra, en þá er oftast lögð á það mikil áhersla í opinberum smitvörnum að finna og upplýsa hverjar þær gætu verið og hvenær í ferli sjúkdómsins einstak­lingar eru mest smitandi.

Í flestum tilvikum eru það bein samskipti og nálægð við smitaða einstak­linga sem opna smitleið­irnar, en þær helstu eru almennt nokkuð vel þekktar, svo sem loftborin smitun (úðasmit eða dropasmit úr öndun­ar­færum), snert­ismitun (með húðsnertingu, kossum eða kynmökum), hlutborin smitun (smit frá yfirborði hluta sem smitaður eða sýktur einstak­lingur hefur notað eða snert) og umhverf­issmitun (smitun frá örverumenguðum úrgangi, drykkjar­vatni eða jarðvegi).

Mjög mikilvægt er, þegar alvarleg farsótt eins og kórónu­veiru­sjúk­dóm­urinn fer af stað, að hægt sé að veita leiðbein­ingar um hvernig hægt er að rjúfa smitleiðir viðkomandi örveru, þannig að einstak­lingar hvers samfélags (við öll) geti tekið þátt í því að draga úr eða stöðva útbreiðslu sjúkdómsins með þeim persónulegu smitvörnum sem við eiga hverju sinni. Hér má minna á að halda fjarlægð við ókunnuga og þá sem umgangast ókunnuga, að forðast snertingu við yfirborð sem ókunnugir snerta, að forðast kossa og knús gagnvart fólki sem ekki er á sama heimili, að sinna handþvotti og handsprittun vel og að nota andlits­grímur, hanska eða annan smitvarn­ar­búnað þegar til þess er mælst. (Myndin er fengin að láni af vefnum)

Innskráning

Hver er mín R.kt.?