Upplýsingar og takmarkanir á starfsemi Reglunnar vegna COVID — 31. ágúst 2021 Sjá nánar.

Hvenær eru menn smitandi?

Það er ef til vill gagnlegt að velta því fyrir sér hvenær í ferli sýking­ar­sjúkdóms smitaðir einstak­lingar geta smitað aðra. Vitneskja um þetta liggur að baki ýmsum ákvörðunum um sóttvarnir og tímalengd sóttkvíar og einangrunar. 

Almennt má segja að aðeins sá sem er smitaður geti smitað aðra, en misjafnt er hversu fljótt það getur gerst eftir að örveran (sýkilinn) nær bólfestu hjá viðkomandi. Slíkt fer fyrst og fremst eftir því hvaða sýkill er á ferðinni og hver smitleiðin er, en hugsanlega einnig eftir því hversu mikið magn af örverunni einstak­ling­urinn fær í sig við smitið og hversu mikið viðkomandi sýkill þarf að fjölga sér á bólfest­ustaðnum til að dreifa sér frá hinum smitaða.

Tímabilið sem smitaður einstak­lingur er smitandi má nefna „smitskeið“ (smithættu­tímabil). Það hefst oft örfáum dögum eftir smitið, jafnvel áður en einstak­ling­urinn er kominn með sjúkdóms­ein­kenni og varir gjarnan meðan einstak­ling­urinn er veikur (sjá mynd). Upphaf, lengd og endir smitskeiðsins eru nokkuð vel þekkt fyrir algenga sýking­ar­sjúkdóma. Þegar um „nýja“ sýking­ar­sjúkdóma, eins og kórónu­veiru­sjúk­dóminn, er að ræða, þarf hins vegar að safna upplýs­ingum um smithættu­tíma­bilið með því að fylgjast með nægum fjölda sjúklinga og tímasetningu smitunar frá þeim, til að hægt sé að staðfesta, eins og hægt er, hvenær smithættan er fyrir hendi og hversu lengi smitskeiðið varir. 

Margar rannsóknir hafa nú verið gerðar á kórónu­veiru­sjúk­dómnum og er ljóst að smitun til annarra hefst meðan smitaður einstak­lingur er enn einkennalaus. Þetta gerir sóttvarn­irnar að mörgu leyti mjög erfiðar, sérstaklega þar sem talið er að tíminn frá smiti og til þess tíma er einkenni sjúkdómsins koma í ljós geti verið allt að 14 dögum. Þetta gefur svo auðvitað til kynna að allir, sem hafa komist í beina snertingu við einstak­linga sem eru hugsanlega smitaðir, verða að sýna mikla aðgát og vera í sóttkví 14 daga eða þar til sýnis­tökur hafa útilokað smitun. Smithætta er örugglega fyrir hendi allan tímann sem viðkomandi hefur sjúkdóms­ein­kenni og er veikur, en óvíst er hversu lengi eftir það. Gert hefur verið ráð fyrir að þeir sem hafa fengið kórónu­veiru­sjúk­dóminn geti verið smitandi þar til þeir hafa verið án sjúkdóms­ein­kenna í sjö daga. (Myndin er fengin að láni af vefnum)

Innskráning

Hver er mín R.kt.?