Upplýsingar og takmarkanir á starfsemi Reglunnar vegna COVID — 31. ágúst 2021 Sjá nánar.

Hvað er veira?

Veirur eru strangt tekið ekki lifandi verur. Þær eru gerðar úr kjarnasýru (erfðaefni), hafa engin líffæri, enga orkufram­leiðslu og geta ekki viðhaldið sér sjálfar. Fjölgun þeirra og frekari dreifing byggist á því að þær komist inn í lifandi frumur, t.d. manna, dýra, plantna eða baktería, og að líffæri frumnanna sjái um fjölg­unina. Um leið valda þær skemmdum í viðkomandi frumum og oftast frumu­dauða sem sleppir veirunum lausum út í líkamann. Dreifing til annarra líffæra getur svo aukið á skemmd­irnar. Almennt leiðir þessi ferill til þess sjúkdóms sem verður fylgi­fiskur hverrar veiru­sýk­ingar, allt frá tímabundnu nefkvefi yfir í hættu­legan sjúkdóm eins og eyðni. Sumar veirur koma einnig af stað frumu­fjölgun, svo sem vörtu­myndun eða krabba­meins­myndun, og aðrar geta legið í dvala inni í líkams­frumum, jafnvel árum saman, og að lokum virkjast til sjúkdóms­myndunar. 

Veirurnar hafa oftast hjúp eða himnu sem getur verndað þær gegn melting­arsafa viðkomandi dýra, sem annars myndi brjóta þær niður eins og fæðuefnin. Hjúpurinn hefur einnig þann eigin­leika að geta tengst frumu­yf­ir­borði og opnað veirunum leið inn í frumur tiltekinna líffæra. Þegar þangað er komið yfirtaka veirurnar framleiðslu­ferli frumunnar sem sér um að fjölga þeim. Dreifing verður til annarra líffæra og víðar í líkamanum, þaðan sem veirurnar geta útskilist og borist með líkams­vessum til annarra einstak­linga og „smitað“ þá. Hver veiru­tegund á sér sína smitleið, til dæmis dreifingu með dropum eða úða úr munnvatni eða með innihaldi sem er útskilið úr meltingar-, þvag- eða kynfærum. 

Ónæmis­kerfi líkamans getur framleitt sértæk mótefni og mótfrumur sem gera ákveðna veiru óskaðlega (óvirka). Kerfið geymir yfirleitt mótefnin í langan tíma og hefur þar að auki „minni“ sem varðveitir hæfileikann til að setja framleiðsluna af stað til varnar af fullum krafti ef veiran smitast aftur til sama einstak­lings. Svonefnd bólusetning gegn tilteknum veirum verkar á sama hátt og leiðir þannig til mótefna- og mótfrumu­myndunar og „ónæmis“ fyrir þeim. (Myndin er fengin að láni af vefnum)

Innskráning

Hver er mín R.kt.?