Upplýsingar og takmarkanir á starfsemi Reglunnar vegna COVID — 31. ágúst 2021 Sjá nánar.

Hvað er smitberi og smitstuðull?

Hvað er smitberi?

Í stuttu máli má segja að „smitberi“ sé maður eða dýr sem ber smitandi örverur á eða í líkama sínum, t.d. bakteríur eða veirur, og sé þess vegna líklegur til að „smita“ aðra með þeim. Rækilega hefur verið greint frá því í tengslum við kórónu­veiru­sjúk­dóminn að slíkir smitberar séu ýmist án einkenna, með byrjandi einkenni eða beinlínis orðnir veikir. Í sumum tilvikum sýking­ar­sjúkdóma geta einnig þeir sem hafa læknast af sjúkdómnum haldið áfram að vera smitberar og nefnast þá oft „krónískir smitberar“.

Það, að „einkenna­lausir“ einstak­lingar geti smitað út frá sér, er mjög erfitt með tilliti til sóttvarna og er einmitt eitt af því sem gerir marga smitsjúkdóma svo varasama hvað varðar það að forðast, takmarka eða koma í veg fyrir útbreiðslu. Þegar er um vel þekkta sjúkdóma að ræða er oftast komin fram næg þekking á því á hvaða tíma smithætta er fyrir hendi, þ.e. hvenær í sjúkdóms­ferlinum smitun getur hafist og hvenær henni lýkur. Þegar hins vegar er um „nýja“ smitsjúkdóma að ræða, eins og kórónu­veiru­sjúk­dóminn, er ekki víst að nákvæmar upplýs­ingar um slíkt liggi fyrir í upphafi faraldurs. Venjan er þá að taka mið af því hvernig sambæri­legir smitsjúk­dómar hafa hegðað sér og að beita síðan sóttvarn­ar­ráð­stöfunum í samræmi við þá vitneskju. Mikilvægt er svo að sóttvarn­ar­að­il­arnir afli sér sem allra fyrst sértækra upplýsinga fyrir hvern sjúkdóm. Nauðsynlegt er líka að hafa fljótt tiltækar upplýs­ingar um „smitleið­irnar“, t.d. hvort um er að ræða úðasmit, dropasmit, snert­ismit eða aðrar leiðir og jafnvel fleiri en eina leið.

Hvað er þá smitstuðull?

Oft hefur verið minnst á svonefndan „smitstuðul“ í almennum frásögnum og fréttum af kórónu­veiru­sjúk­dómnum. Í stuttu máli má segja að þetta sé tala sem gefur til kynna hversu marga einstak­linga einn smitberi muni smita, ef hjarð­ónæmi og almennar sóttvarnir eru ekki fyrir hendi. Smiti hver einstak­lingur að meðaltali aðeins einn annan einstakling er smitstuð­ullinn 1, en smiti hver maður að meðaltali þrjá aðra er smitstuð­ullinn 3. Því hærri sem stuðullinn er þeim mun meir og hraðar breiðist sjúkdóm­urinn út í samfé­laginu.

Smitstuð­ullinn er útreiknuð tala sem byggir á ýmsum þáttum, t.d. hversu smitandi sýkillinn sjálfur er, hverjar samfé­lags­að­stæður og smitleiðir eru og hver hegðun smitaðra og ósmitaðra einstak­linga er innan samfé­lagsins, t.d. hversu marga aðra einstak­linga menn hitta og umgangast. Reiknilíkönin geta þar að auki tekið mismunandi tillit til umræddra þátta og þannig verið ólík milli landa og stofnana. Smitstuðull er engu að síður gagnleg vísbending um smithættuna þegar meta þarf hversu strangar sóttvarn­irnar ættu að vera á hverjum tíma. 

Innskráning

Hver er mín R.kt.?