Upplýsingar og takmarkanir á starfsemi Reglunnar vegna COVID — 31. ágúst 2021 Sjá nánar.

Hvað er baktería?

Í fyrsta pistli mínum ræddi ég um veirur og nú ætla ég að ræða um bakteríur, en eins og veirur geta margar þeirra valdið sýking­ar­sjúkdómi. Lítum fyrst á orðið „baktería“ sem nú er orðið viður­kennt sem íslenskt heiti þrátt fyrir að vera erlent tökuorð. Áður fyrr voru bakteríur oft nefndar „gerlar“, en það heiti er ekki lengur heppilegt í læknis­fræðilegu samhengi. Orðið „baktería“ er komið úr latínu, þar sem fyrir­bærið nefnist „bacterium“ í eintölu og „bacteria“ í fleirtölu. Rétt er að nefna strax orðið „sýklar“, sem oft er notað sem almennt heiti á bakteríum, en er í raun miklu víðtækara og ætti fremur að nota sem samheiti yfir allar þær örverur sem geta valdið sýkingu, s.s. bakteríur, veirur, sveppi og frumdýr. 

Bakteríur eru örsmáar lifandi verur (örverur), svo smáar að ekki er hægt að skoða þær hverja fyrir sig nema í smásjá með mikilli stækkun. Við smásjár­skoð­unina er hægt að greina mismunandi útlits­lögun baktería, svo sem hnatt­lögun, staflögun, gormlögun og kommu­lögun, en einnig að þær geta hangið margar saman í keðju eða ýmiskonar klösum. Með einfaldri smásjár­skoðun er því oft hægt að flokka bakteríur niður og fá nokkuð góða hugmynd um hvaða megin­tegund er til staðar hverju sinni. Bakteríu­teg­undir eru hins vegar mjög margvís­legar og við greiningu á bakteríu­sýkingu þarf að flokka þær og greina miklu nánar með ýmsum tækni­legum aðferðum sem ekki eru tök á að ræða nánar hér.

Hver baktería er aðeins ein fruma, andstætt við æðri lífverur sem eru gerðar úr millj­örðum frumna. Bakteríur hafa orkubúskap, þarfnast næringar úr umhverfinu, geta haft margvísleg innri efnaskipti og framleitt ýmiskonar efni, svo sem hættuleg eiturefni. Flestum bakteríum, sem eru manninum skaðlegar, farnast best við líkamshita, sumar þarfnast súrefnis og sumar kjósa helst súrefn­is­leysi. 

Mestu máli skiptir að margar bakteríur leiða til sýking­ar­sjúkdóms. Aðrar geta átt stöðuga búsetu á tilteknum líkams­svæðum, svo sem á húð eða í melting­arvegi, án þess að valda sýkingu. Þær bakteríur eru þá sagðar tilheyra „eðlilegri bakteríuflóru“ viðkomandi líkams­svæðis. Margar þeirra geta reyndar valdið sýkingu komist þær á einhvern hátt djúpt inn í undir­liggjandi vefi.

Góðu frétt­irnar eru þær að framleidd hafa verið margvísleg lyf og lyfjaefni sem vinna á bakteríum og lækna eða koma í veg fyrir framgang sýking­ar­sjúkdóms. Slæmu frétt­irnar eru hins vegar þær að bakteríur taka oft svonefndum „stökk­breyt­ingum“ sem gera þær ónæmar fyrir sýkla­lyfjunum, sérstaklega ef lyfin eru notuð í óhófi og af litlu tilefni. Í alþjóðlegu samhengi er þetta orðið talsvert vandmál þegar tilteknar bakteríur, sem sýkla­lyfin vinna ekki á, fara að dreifast um heiminn. (Myndin er fengin að láni af vefnum)

Innskráning

Hver er mín R.kt.?