Upplýsingar og takmarkanir á starfsemi Reglunnar vegna COVID — 31. ágúst 2021 Sjá nánar.

Einangrun eða sóttkví?

Í fyrri pistli ræddi ég um sóttkví (E. quarantine) og minntist meðal annars á þrjár undir­teg­undir af sóttkví. Eftir það var ég beðinn um að gera nánari grein fyrir þessum tegundum, en ætla fyrst að ræða betur fyrirbæri sem hefur fengið heitið „einangrun“ (E. isolation). 

„Einangrun á sjúkrahúsi“ er vel þekkt ráðstöfun og á sér einkum stað við tvennar aðstæður, annars vegar þegar sjúklingur þar er með bráðsmitandi eða öðrum hættulega sýkingu og hins vegar þegar sjúklingur er með sjúkdóm eða fær meðferð sem dregur svo mikið úr hans eigin sýking­ar­vörnum að hann má ekki eiga á hættu að smitast af neinum varasömum sýklum. Við slíka einangrun er notað sérstakt rými (sjúkra­stofa) þar sem beitt er ítrustu sóttvarn­ar­ráð­stöfunum. Enginn má koma inn í þetta rými nema vera klæddur tryggum sóttvarn­ar­búningi og nota andlits­grímu og oft einnig hanska, húfu og varnargleraugu. Heimsóknir eru verulega takmarkaðar eða alveg bannaðar. Meðan smithættan varir má sjúkling­urinn sjálfur ekki yfirgefa rýmið nema sambæri­legar varnir séu notaðar utan þess. Þetta er mjög ströng og fyrir­hafn­arsöm ráðstöfun, sem í þessum aðstæðum skiptir augljóslega miklu máli.

„Einangrun í heimahúsi“ má lýsa þannig í tengslum við kórónu­veiru­sjúk­dóminn að hún sé fyrir þá sem hafa einkenni um sjúkdóminn eða séu þegar orðnir veikir, en þurfi ekki að vera á sjúkrahúsi. Settar hafa verið strangar og ítarlegar reglur um það sem má og það sem ekki má og er þær að finna á vef Landlæknis. Lykil­atriði er að viðkomandi umgangist ekki neitt annað fólk, dveljist ekki í rými sem aðrir nota þó hann eigi leið þar um, sjái um hreinsun snerti­flata sinna í sameig­in­legum rýmum og noti persónu­legar sýkinga­varnir til hins ítrasta. 

Reglur um „sóttkví í heimahúsi“ má einnig finna á vef Landlæknis. Þær eru í mörgum liðum og mjög ítarlegar, en almennt mildari en ef um einangrun er að ræða. Persónu­legar sýkinga­varnir eru einnig lykil­atriði og mikil varúð í umgengni við annað fólk og snertifleti sem gætu smitað veiruna til annarra. Sambæri­legar reglur gilda um „úrvinnslu­sóttkví“, en hún felst í því að einstak­lingur sé í sóttkví meðan beðið er eftir niður­stöðum úr smitrakningu. 

Loks er það svo „vinnu­sóttkví“, sem sóttvarna­læknir getur aðeins heimilað fyrir­tækjum vegna tiltekinna nauðsyn­legra starfs­manna sem koma erlendis frá, og það aðeins eftir formlega umsókn og mat á umsókninni. Viðkomandi starfsmenn mega þá fara milli dvalar­staðar og vinnu­staðar, en fara verður eftir öllum almennum reglum sem settar hafa verið um heima­sóttkví. Þeir starfa á ábyrgð vinnu­veit­andans, en verða sjálfir að viðhafa allar áskildar, perónu­legar sýkinga­varnir hvað varðar umgengni við aðra og sameig­inlega snertifleti. Mikilvægt er einnig að aðrir starfsmenn á sama vinnustað þekki sóttvarn­a­regl­urnar og fylgi persónu­legum sýkinga­vörnum til hins ítrasta. (Myndin er fengin að láni af vefnum)

Innskráning

Hver er mín R.kt.?