„Mitt hlutverk er öðru fremur það að opna mönnum dyr“

Viðtal við Val Valsson

Valur Valsson er stórmeistari Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi. Á ári hverju bætast um 100 nýir félagar í Regluna og hún telur í dag um 3.600 bræður. Valur segir starfið gefa mönnum tækifæri til að horfast í augu við sjálfa sig.

Við Bríet­artún í Reykjavík stendur bygging sem fljótt á litið sker sig ekki frá öðrum í götumyndinni. Þegar betur er að gáð sést að hún er skreytt táknum sem alla jafna sjást ekki á byggingum hér á landi. Ofan við gríðar­miklar eikardyr ber rauðan Georgskross fyrir augu og ofar bregður fyrir hornmáti og sirkli sem fæstir hafa handleikið frá því að formlegri skóla­skyldu sleppti.

Margir velta vöngum yfir því hvað í raun fer fram að baki hinum luktu og voldugum dyrum en þangað flykkjast flest kvöld vikunnar yfir vetrar­tímann kjólfa­ta­klæddir karlmenn. Þarna eru höfuð­stöðvar Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi sem löngum hefur verið sveipuð dulúð og þögn, jafnvel þegar hart hefur verið sótt að henni á opinberum vettvangi.

Valur Valsson er stórmeistari Frímúrarareglunnar.

Innan þessara veggja hefur blaða­maður mælt sér mót við Val Valsson, fyrrverandi banka­stjóra. Hann hefur frá árinu 2007 verið æðsti stjórnandi Frímúr­ar­a­regl­unnar sem stórmeistari hennar. Þótt það hafi ekki verið neitt leynd­armál hefur lítið borið á því starfi hans á opinberum vettvangi og það helgast af eðli Reglunnar. Nú hefur hann fallist á að veita Morgun­blaðinu viðtal. Tilefnið er ærið, ekki aðeins það að í október næstkomandi mun nýr stórmeistari taka við stjórn Reglunnar heldur einnig sú staðreynd að á þessu ári fagna frímúrarar með ýmsum hætti þeim tímamótum að öld er liðin frá því að starf frímúrara tók á sig formfasta mynd á Íslandi.

Á þriðju hæð bygging­ar­innar hittumst við. Léttur í spori kemur Valur út um einar af fjölmörgum dyrum sem liggja að stórum sal sem þakinn er málverkum af fyrrverandi stórmeisturum Reglunnar. Hann býður mér inn á skrif­stofu og á miðju gólfinu er virðulegt skrifborð og á þremur hornum þess kerta­stjakar. Í einu horni skrif­stof­unnar stendur fallegur silki­ofinn fáni með skjald­ar­merki. En viðtalið fer fram í hliðar­her­bergi, þar sem stjórn­endur Reglunnar koma saman til funda með reglu­bundnum hætti.

Verið í Reglunni í 45 ár

Þegar við höfum komið okkur fyrir lægi eflaust beinast við að spyrja beint út í Frímúr­ar­a­regluna sem slíka. En mér leikur ekki síður forvitni á að vita hvað varð til þess að Valur gekk til liðs við hana. Hvað rekur mann til þess að knýja dyra á þessum vettvangi?

„Í ár eru 45 ár frá því ég gekk í Frímúr­ar­a­regluna þannig að ég hef verið hér mjög lengi. Faðir minn, Valur Gíslason leikari, var frímúrari og ég man enn eftir því þegar hann gekk inn, þá var ég átta eða níu ára gamall. Það var mikil hátíð­ar­stund á heimilinu. Svo fór ég með honum á jólaböllin sem Reglan stendur fyrir. Þannig hafði ég alltaf vissa tengingu við þetta starf þótt ég hafi ekki vitað hvað hér fór fram á fundum. Svo voru fleiri fjölskyldu­með­limir í Reglunni og þannig lá í raun alltaf í loftinu að ég myndi stíga þetta skref.“

Og þú hefur þá farið sömu leið og aðrir sem leitast eftir inngöngu, fengið tvo meðmæl­endur innan Reglunnar til þess að greiða götu þína?

„Ég hafði áhuga á því en faðir minn dró lengi vel úr mér með þetta og sagði: þér liggur ekkert á. Og ég var orðinn þrítugur þegar ég loksins gekk inn. Það þykir fremur ungt í dag því allt hefur elst en í þá daga var algengt að menn kæmu yngri inn. Þetta helst í hendur við aðra þróun í samfé­laginu, t.d. þá staðreynd að menn fara nú að heiman síðar og festa ráð sitt síðar, eignast börnin jafnvel síðar en áður tíðkaðist.“

Stóra daginn bar upp á 18. nóvember 1974 og meðmæl­endur Vals voru faðir hans og Ingimundur B. Sigfússon, mágur hans. Og þegar ég spyr hann út í það hvort hann hafi órað fyrir því á þessum tímapunkti að hann myndi rúmum þremur áratugum síðar taka við embætti stórmeistara Reglunnar stendur ekki á svari:

„Nei, það datt mér ekki í hug og örugglega engum.“

Þeir sem standa utan veggja Frímúr­ar­a­regl­unnar hljóta að spyrja sig í hverju hlutverk stórmeistara hennar felst. Er það eins og hvert annað stjórn­un­ar­starf?

„Mitt hlutverk er öðru fremur það að opna mönnum dyr. Formlega hefur stórmeistari Frímúr­ar­a­regl­unnar mikil völd á vettvangi hennar en hann hefur sér til ráðuneytis marga góða menn. Í því skyni starfa ýmis ráð innan hennar sem hvert hefur sitt tiltekna hlutverk. Öflugir og traustir menn veita þeim forystu og því lít ég á mig á svipaðan hátt og stjórn­ar­formann. Ég veit að flestir þættir starfsins eru í góðum höndum en svo eru það ákveðin verkefni sem ég einn sinni, það á við um stjórn ákveðinna funda og annað af þeim toga. Því geta fylgt miklar annir, ásamt skyldum við starfið úti um landið og á erlendum vettvangi.“

Þegar litið er yfir farinn veg og þessa löngu samfylgd hlýtur þú að hafa varið gríðar­legum tíma í þetta starf, bæði áður en ekki síður eftir að þú tókst við stjórn Reglunnar. Hefur honum verið vel varið?

„Ég held að honum hafi verið mjög vel varið fyrir mig persónulega. Hér hef ég átt góðar stundir. Lengst af hef ég verið í einhverjum embættum í stúkunum sem hér starfa. Það vill verða þannig að sömu mennirnir ganga milli embætta og gegna þeim lengi. Það er hentugt að mörgu leyti því menn kunna þá gjarnan vel til verka og eru vanir því sem myndi kannski reynast öðrum eitthvað flóknara. En það að verða hér einhver yfirmaður var víðs fjarri öllum mínum hugsunum þegar ég tók mín fyrstu skref á þessum vettvangi.“

Eins og að fara í ræktina

Nú eru tólf ár frá því að Valur tók við embætti stórmeistara Reglunnar af Sigurði Erni Einarssyni. Og þar fylgir hann sömuleiðis í fótspor forseta lýðveld­isins, Sveins Björns­sonar og Ásgeirs Ásgeirs­sonar, Ólafs Lárus­sonar prófessors, Indriða Pálssonar forstjóra og fleiri þekktra manna. Lengstan hluta ferils síns gegndi Valur ábyrgð­ar­miklum verkefnum á vettvangi íslensks fjármála­markaðar, m.a. sem banka­stjóri Iðnað­ar­bankans og síðar Íslands­banka. Hvað rekur mann, störfum hlaðinn til þess að sækja í tímafrekt starf innan veggja Frímúr­ar­a­regl­unnar?

„Menn tala stundum um það hér að þeir séu að koma í ræktina þegar í hús er komið. Og það má til sanns vegar færa. Starfið hér hefur mannrækt að markmiði og líkt og með líkams­ræktina þá þarf að iðka hana til þess að ná árangri. Reglan hefur gefið mér mjög mikið, félags­skap­urinn einnig. Hér hef ég eignast gríðarlega stóran hóp vina sem ég hefði ekki viljað missa af. Og hér hef ég kynnst mörgum frábærum mönnum. Þetta er þverskurður af íslensku samfélagi og því gefst hér tækifæri til þess að hitta á menn sem maður hefði ósennilega hitt á annars staðar á lífsleiðinni. Svo má líta á frímúr­ara­starfið eins og skóla­göngu. Það er ganga sem tekur mörg ár þar sem menn eru að læra á sjálfa sig og tilveruna. Hér er starfað á grund­velli mjög gamalla gilda sem hafa reynst mannfólkinu vel í gegnum aldirnar. Þetta finnst mér hafa gefið mér mjög mikið.“

Blaða­maður staldrar við hugtakið mannrækt og í opinberum upplýs­ingum um Frímúr­ar­a­regluna bregður þessu hugtaki gjarnan fyrir. En hvað er átt við með því?

„Markmiðið með mannræktinni er að menn bæti sjálfa sig til þess síðan að bæta samfé­lagið og mannlífið sem þeir lifa í. Þeir upplifi hér reynslu sem hvetur þá til góðra verka og til að horfa á hið góða í lífinu. Hvetji þá til þess að einbeita sér að umburð­ar­lyndi og umhyggju fyrir náunganum og breiða þær dyggðir svo út í samfé­lagið með eigin breytni. Hér er í raun ekki hægt að segja að mönnum sé kennt annað en að líta á sjálfa sig. Menn eru hvattir til að skoða sitt eigið sjálf og bæta úr því sem þeim þykir ástæða til að bæta úr. Það er enginn dæmdur hér, hér eru engin próf tekin. Hér gera menn upp sinn árangur sjálfir. En hér eru mönnum opnaðar dyr, eða sýn á mannlega eigin­leika en hver og einn verður að upplifa það fyrir sjálfan sig. Stundum gengur það vel og stundum gengur það illa. Stundum hrasa menn.“

Er það þá þannig að Reglan tekur ekki ábyrgð á þeim sem tilheyra henni?

„Hér bera menn ábyrgð á sjálfum sér, eins og þeir eiga að gera annars staðar. Hér er sköpuð umgjörð fyrir menn til þess en það er undir hverjum og einum komið hvaða árangri hann nær í mannræktinni.“

Hvaðan stafar þessi hugsjón um mannrækt á þessum grunni?

„Ef ég vissi það! Sannleik­urinn er sá að við tölum um að frímúr­arastarf í heiminum sé 300 ára gamalt. Það miðast við það þegar fjórar frímúr­ara­stúkur í London ákváðu að mynda sameig­inlega yfirstjórn. Þetta gerðist árið 1717. Fyrir þann tíma eru mjög litlar heimildir til, slitrur héðan og þaðan þannig að það er ljóst að eitthvert starf af þessu tagi var stundað í einhver hundruð ár þar á undan. En í hvaða formi og hversu lengi veit í raun enginn. Frá 1717 er sagan hins vegar skráð. Flestir sem rannsakað hafa þetta telja að rekja megi starfið til gömlu iðngildanna á miðöldum sem voru í raun iðnað­ar­manna­gildi, þar sem menn komu saman vegna stórfram­kvæmda á borð við kirkjur eða aðrar byggingar og bjuggu á staðnum og vinnu­stofan þar sem þeir bjuggu var nefnd stúka.“

Færist yfir á hið andlega svið

„Það miðaði þá ekki lengur að því að reisa musteri úr steini heldur úr bræðrunum sjálfum. Menn notuðust þá við verkfæri iðngildanna með táknrænum hætti. Hundruð bóka hafa verið skrifuð um þessa þróun en þær eru flestar í raun aðeins getgátur en eftir stendur að hið huglæga starf er byggt á vísdómi sem mannkynið hefur öðlast yfir þúsunda ára tímabil. Það er viska kynslóðanna.“

Þótt starf frímúrara reki sig aftur til miðalda á það sér ekki eins langa sögu hér á landi. Um þessar mundir er því fagnað að formlegt frímúr­arastarf hefur verið við lýði hér á landi í eina öld. Af þeim sökum hefur Frímúr­ar­a­reglan m.a. gefið út bók um starfið en þá stóð hún einnig fyrir fjölmennri samkomu í Hörpu á vordögum þar sem tímamótanna var minnst.

Hvernig skaut þetta starf rótum hér á landi?

„Fyrstu kynni Íslendinga af frímúrurum voru þau að í Skaft­áreldunum 1783 gáfu danskir frímúr­ara­bræður heilmikið fé til Íslands til að styrkja og styðja Íslendinga. Síðar fóru einstaka Íslend­ingar, einkum í Danmörku og Kaupmannahöfn að sækja um inngöngu í Regluna. Þar á meðal var Grímur Thomsen sem síðar bjó á Bessa­stöðum. Fleiri Íslend­ingar gengu inn í stúkur erlendis á 19. öld. Hér var svo kominn lítill hópur manna árið 1913 og þeir ákváðu að mynda bræðra­félag. Fyrir þessu starfi fór Ludvig Emil Kaaber, banka­stjóri Lands­bankans og forystu­maður í atvinnulífi Íslendinga á fyrstu áratugum 20. aldar. Þessir bræður héldu hópinn meðan fyrri heims­styrj­öldin stóð yfir. Við lok stríðsins fóru þeir þess á leit við dönsku frímúr­ar­a­regluna að stofnuð yrði sérstök stúka hér sem heyrði undir Regluna í Danmörku. Þetta var samþykkt og 6. janúar 1919 var stúkan Edda stofnuð af 14 bræðrum.“

Valur Valsson er stórmeistari Frímúrarareglunnar.

Og Valur segir að hið formlega starf hafi farið af stað af miklum krafti. Þannig hafi um 50 menn gengið til liðs við hana á fyrsta starfs­árinu og sífellt fleiri óskuðu inngöngu.

„Fljótlega var farið að tala um að stofna stúku á Ísafirði og Akureyri þannig að starfið breiddist fljótlega út um landið. En fyrstu árin voru allir siðabálkar Reglunnar á dönsku og danska var töluð á fundum. Svo var farið að þýða siðabálkana og smátt og smátt tók íslenskan yfir þótt starfið væri enn undir hatti dönsku frímúr­ar­a­regl­unnar. Það var svo árið 1951 sem stofnuð var sjálfstæð íslensk frímúr­ar­a­regla. Þá hljóp mikið líf í starfið að nýju. Stúkunum fjölgaði ört. Nú er svo komið að um 3.600 bræður eru í Frímúr­ar­a­reglunni hér á landi. Þeir starfa í 28 stúkum sem hafa funda­að­stöðu á þrettán stöðum um landið allt.“

Reglan starfar í kyrrþey

Þegar skyggnst er yfir það sem skrifað hefur verið um íslenska frímúrara í blöðum og bókum á undan­förnum áratugum virðist sem Frímúr­ar­a­reglan sigli sumpart lygnari sjó nú en oft áður. Minna er um samsæris­kenn­ingar sem gjarnan skutu upp kollinum áður fyrr. Hvað kann að valda því?

„Það hafa alltaf komið tímabil þar sem einhverjir hafa tekið sig til og skrifað eða talað um Regluna á neikvæðum nótum. Reglan hér og um heim allan vinnur í kyrrþey að sínum málum og hefur yfirleitt ekki svarað nokkurri gagnrýni. Þannig hafa menn komist upp með að segja allt mögulegt án þess að þeir hafi verið leiðréttir. Það var kannski ekki rétt stefna en þennan hátt hafa menn haft á þessu og vilja helst hafa það þannig að svara ekki því sem augljóslega stafar af vanþekkingu. Hins vegar hefur á síðustu áratugum opnast á miklu meiri upplýs­ingar og það er miklu auðveldara að afla réttra upplýsinga um Frímúr­ar­a­regluna, t.d. á netinu, en nokkru sinni áður. Þá tel ég að það hjálpi að nú eru menn einnig að mörgu leyti víðsýnni og horfa þarf af leiðandi á þessa hluti opnari huga.“

Í máli sínu vísar Valur einnig til þeirrar staðreyndar hversu margir íslenskir karlmenn tilheyra Frímúr­ar­a­reglunni. Segir hann að það dragi úr fordómum hér á landi því flestir þekki einhvern frímúrara.

„Það fólk veit að þeir eru ekkert hættu­legir,“ bætir Valur við og brosir. Hann segist raunar ekki þekkja nokkurt dæmi í heiminum þar sem frímúrarar eru jafn margir miðað við höfðatölu eða um 1% af heild­ar­mann­fjölda landsins. „Að vísu voru frímúrarar gríðarlega margir á ákveðnum tímabilum í sögu Banda­ríkjanna. Þeim fækkaði hins vegar mikið þar í kjölfar síðari heims­styrj­ald­ar­innar.“

Leynd yfir innra starfi

Fyrrnefnd tortryggni sem reglulega hefur blossað upp virðist fyrst og síðast skýrast af þeirri ástæðu að Reglan gefur ekki upp hvað fer fram á fundum hennar. Væri ekki mikið til þess vinnandi að aflétta þessum trúnaði til að taka af öll tvímæli um starfið sem þar fer fram?

„Frímúr­ara­starfið fer fram á svokölluðum stigum. Í okkar reglu eru ellefu stig. Allir geta, ef þeim endist líf og aldur til, tekið tíu stig. Síðasta stigið taka svo aðeins æðstu embætt­ismenn Reglunnar. Fyrir flesta getur það tekið um 15-20 ár að taka þessi tíu stig. Það skiptir höfuðmáli að menn viti ekki hvað gerist á næsta stigi. Það á að koma þeim á óvart í þeim skilningi að þeir séu frjálsir af því að upplifa það á eigin forsendum. Það má líkja þessu við það að maður lesi bók og einhver segi honum frá því hvað gerist í næsta kafla. Þá er búið að eyðileggja ánægjuna af lestri bókar­innar. Af þessum sökum viljum við að hver og einn fái að upplifa hvert og eitt stig sem tekið er á sínum forsendum og eigi sínar minningar og sína sýn á það og hvernig viðkomandi túlkar það. Þess vegna ríkir trúnaður um siðabálkana á hverju stigi. Það er í raun og veru það eina sem trúnaður ríkir um. Það er engin leynd yfir því hvert markmiðið með starfinu er, hverjir eru hérna, hvar við hittumst og hvenær. Og engin leynd hvílir yfir því að starfið í okkar Reglu byggist á kristnum gildum.“

Þessar segir Valur ástæður trúnað­arins eða leynd­ar­innar vera. Hann segir hins vegar að trúnað­urinn hafi á stundum verið túlkaður með of stífum hætti.

„Þá hafa bræður orðið dálítið óöruggir um hvað þeir megi segja og hvað ekki og þá hafa þeir oft tekið ákvörðun um að segja einfaldlega ekki neitt. Það er því í raun okkur sjálfum að nokkru leyti að kenna að tortryggnin hafi fengið að magnast upp á sumum tímum. Ef svörin væru skýrari, eins og þau geta sannarlega verið, þá kallar það ekki á tortryggni eða vantraust í garð Reglunnar.“

Og þarna hefur orðið breyting á að sögn Vals. Bræðurnir, eins og þeir eru kallaðir sín á milli, eru nú opnari í umræðu um starf Reglunnar.

„Jafnt og þétt höfum við opnað þessa umræðu. Það hefur verið gert með opnun heimasíðu, við gefum út tímarit sem aðgengilegt er á vefnum og liggur frammi víða á kaffi­stofum og nú opnum við Reglu­heimilið hér í Reykjavík á Menning­arnótt og slíkt hið sama hefur verið gert víða um land, ekki síst í tengslum við 100 ára hátíð­ar­höldin.“

Engin viðskipti stunduð innan Reglunnar

Líkt og áður var nefnt hafa margir áhrifamenn í íslensku samfélagi tilheyrt Frímúr­ar­a­reglunni. Það á m.a. við um forseta landsins, ráðherra, alþing­ismenn, hæsta­rétt­ar­dómara og áhrifamenn úr íslensku atvinnulífi. Einhverjir kunna að spyrja hvort Reglan beiti sér með einhverjum hætti í samfé­laginu. Er það hluti af markmiði hennar?

„Ég held að það sem m.a. hafi verið aðdrátt­arafl fyrir menn sem hafa gegnt mikil­vægum embættum eða störfum í samfé­laginu sé einmitt sú staðreynd að hér fá þeir frið. Hér er enginn að semja við þá eða þrasa við þá um eitt eða neitt. Hér er allt annað uppi á teningnum. Hér er formlega bannað að tala um stjórnmál eða trúar­deilur. Hér fara engin viðskipti fram. Það er mögulega ástæða þess að menn sem mikið hefur mætt á hafa gengið hingað inn og losnað undan argaþrasi hvers­dagsins. Hér hafa menn t.d. getað komið til þess einfaldlega að segja ekki neitt.“

Ólíkt mörgum öðrum félaga­sam­tökum ber lítið sem ekkert á því að Frímúr­ar­a­reglan sinni góðgerð­ar­starfi í íslensku samfélagi. Lætur hún sig þau mál í léttu rúmi liggja?

„Góðgerð­ar­starf er óaðskilj­an­legur hluti af því sem verið er að gera hér. Þó er það ekki megin­markmið Reglunnar. Það er partur af því sem verið er að gera hér. En það sem einkennir góðgerð­ar­starfið er tvennt. Annars vegar það að það fé sem við gefum til góðgerð­armála er eingöngu komið frá bræðrunum sjálfum. Hins vegar það að við gerum þetta í kyrrþey eins og allt annað. Við látum þess nánast aldrei getið þegar við látum stuðning af hendi rakna. Þeir sem þiggja hann hafa heimild til þess að greina frá honum en við höfum ekki frumkvæði að því.“

Valur segir að bræðra­hóp­urinn leggi fram fjármagn til góðgerð­armála eftir efnum og ástæðum hvers og eins.

„Frá aldamótum höfum við varið um 150 milljónum króna til góðgerð­ar­starfs. Það skiptist nokkuð jafnt, annars vegar inn á við til bræðra eða fjölskyldna þeirra þar sem ástæður kalla á stuðning. Hins vegar er það stuðn­ingur Reglunnar við ýmis önnur málefni, m.a. rannsóknir, lækna­vísindi og ýmis góðgerð­ar­samtök. Þannig leggjum við áherslu á að leggja þeim lið sem styðja aðra. En nú í tilefni 100 ára frímúr­ara­starfs hér á landi gerum við ráð fyrir að leggja um 30 til 40 milljónir króna til góðgerð­armála á þessu ári.“

Meðal þess sem stundum heyrist þegar gagnrýni á Frímúr­ar­a­regluna er annars vegar er sú staðreynd að konur eiga þess ekki kost að ganga þar inn. Er það ekki tímaskekkja af einhverju tagi á þeirri öld sem við lifum?

„Það er rétt að í okkar Reglu eru bara karlar. Hjá flestum Frímúr­ar­a­reglum heimsins er það með þessu móti. Þetta er arfur frá gamalli tíð og því hafa menn ekki viljað breyta. Hins vegar eru til frímúr­ar­a­reglur þar sem bæði karlar og konur starfa, m.a. hér á landi. Hér starfar Alþjóðleg frímúr­ar­a­regla karla og kvenna. Hún nefndist áður Samfrí­múr­ar­a­reglan og hún hefur starfað hér á landi í tæpa öld. Svo er hér starfrækt kvenna­regla sem ekki tengist Frímúr­ar­a­reglunni en vinnur að svipuðum markmiðum og hún hefur aðstöðu hér hjá okkur í húsinu. Þannig geta konur sótt í starf sem byggist á sama eða svipuðum grunni þótt haldið hafi verið í þessa hefð á vettvangi Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi.“

Lætur af embætti í lok október

Í lok október næstkomandi hyggst Valur láta af embætti stórmeistara eftir tólf ára starf. Segir hann að það komi til af því annars vegar að allt hafi sinn tíma og svo hins vegar að Frímúr­ar­a­reglan setji aldri æðstu embætt­is­manna skorður. Við 75 ára aldur láti menn af þeim og aðrir taki við keflinu. En hvernig er vali æðstu embætt­is­manna háttað? Koma allir félagsmenn að því að velja eftirmann hans eða er það ferli með öðrum hætti?

„Það væri ekki hægt að halda því fram að hér ríkti lýðræð­islegt kerfi. Og þetta eins og svo margt annað hjá okkur byggist á gamalli hefð. Æðstu embætt­ismenn Reglunnar, núverandi og fyrrverandi, koma saman, en þeir eru um fjörutíu talsins og ákveða hver skuli taka við. Það er gert í kosningum og þar hef ég (aðeins) eitt atkvæði eins og allir hinir.“

En hvað er Vali efst í huga þegar hann horfir yfir þennan rúma áratug sem hann hefur veitt hinu hundrað ára gamla starfi forystu?

„Efst í huga er þakklæti fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og stuðn­ing­urinn og hlýhug­urinn sem ég hef fundið. Þá vil ég nefna að síðustu fimm árin höfum við unnið mikla stefnu­mót­un­ar­vinnu sem lýtur að öllu starfinu hér innandyra að siðabálkunum undan­skildum. Vinnan við þetta og úrvinnsla gagna sem aflað hefur verið hefur tekið mörg ár og mun taka tíma enn. Ástæða þess að þessi vinna er sérstaklega minnisstæð er sú staðreynd að um 300 bræður hafa komið að henni með formlegum hætti. Þar kom í ljós að við erum með svo marga öfluga sérfræðinga í okkar röðum að við þurftum nær aldrei í þessari vinnu að leita út fyrir bræðra­hópinn til að leysa þessi verkefni af hendi. Þarna kom því skýrlega í ljós hvers­konar mannauði við búum yfir í bræðra­hópnum. Í því sambandi má nefna að enginn bróðir í Reglunni, hvorki embætt­ismenn eða aðrir þiggur laun fyrir sína vinnu, þetta er allt sjálf­boða­lið­astarf. Við erum reyndar með örfáa launaða starfsmenn sem sjá um skrif­stofu og bókhald, hinn daglega rekstur, en allir aðrir eru ólaunaðir. Það var mikil og skemmtileg upplifun að koma að vinnu þessa ótrúlega stóra hóps sem mun skila miklu fyrir Regluna á komandi árum.“

Alþjóðleg samskipti hafa færst í aukana

Fleiri breyt­ingar hafa orðið á starfinu frá þeim tíma þegar Valur tók við sem stórmeistari. Þannig segir hann að miklar breyt­ingar hafi orðið á samskiptum við frímúr­ar­a­reglur erlendis.

„Það er alþjóðleg þróun. Það er miklu meira samstarf milli reglna og stúkna en áður. Samgöngur hafa þar eflaust talsvert að segja. En það hefur líka aukist mikið að einstaka stúkur taka sig saman og fara í heimsóknir til stúkna erlendis. Það er ánægjuleg þróun sem mér sýnist gefa bræðrunum mikið. Í heiminum eru engin heims­samtök frímúrara. Öll samskipti eru tvíhliða ákvörðuð af reglunum sjálfum. En við störfum sérstaklega náið með reglunum á Norður­löndum, í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, því þær starfa eftir sama kerfinu. Við stórmeistarar reglnanna hittumst að minnsta kosti tvisvar á ári til að fara yfir málefni sem varða innra starfið og þar hefur m.a. verið lögð áhersla á samræmingu siðabálkanna milli landa.“

Þótt senn líði að því að Valur losni undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að leiða starfsemi Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi hyggst hann halda þátttöku sinni áfram eins og verið hefur síðustu ríflega fjóra áratugi. Hann bendir á að innganga í Regluna feli í sér ævilanga skuld­bindingu og að mannræktin taki aldrei enda. Allir menn hafi tækifæri til þess að líta inn á við, leggja mat á breytni sína og bæta það sem aflaga hefur farið.

„Þar veitir Frímúr­ar­a­reglan óviðjafn­anlega leiðsögn og án hennar vildi ég ekki vera,“ segir Valur að lokum.

Viðtalið er upprunalega birt í sunnu­dags­blaði Morgun­blaðsins, 
24. ágúst 2019.
Blaða­maður: Stefán E. Stefánsson

Innskráning

Hver er mín R.kt.?