Er Frímúrarareglan leynifélag?
Frímúrarareglan á Íslandi er ekki leynifélag. Lög og reglur hennar getur að lesa á almennum bókasöfnum ásamt margháttuðum öðrum upplýsingum um starfsemi og sögu frímúrara hérlendis og erlendis.
Félagatal og yfirlit um trúnaðarstöður og um skipulag Frímúrarareglunnar eru einnig fyrir hendi á opnum almennum vettvangi. Dagblöð birta tilkynningar um samkomur frímúrara, Stjórnstofa er í símaskrá og Frímúrarareglan hefur þessa vefsíðu sem öllum er opin.
Frímúrarareglan er lifandi þáttur í þjóðlífinu og víkst ekki undan þeirri ábyrgð sem slíku fylgir í opnu og lýðræðislegu nútímasamfélagi.
Frímúrarareglan býr yfir mikilvægum trúnaðarmálum sem tengjast sérstæðum og gamalgrónum fundarsköpum. Þessum fundarsköpum er ætlað að hafa óvænt og þroskandi áhrif á hugsun og líf þátttakenda, og margítrekuð reynsla kynslóðanna staðfestir gildi þeirra.
Frímúrarar líta á trúnað og þagnarheit sem sjálfsagðan hlut, enda vita þeir að slíkar skyldur eru alls ekki einsdæmi í starfi eða félagslífi yfirleitt.
Næði, trúnaður og réttur undirbúningur eru einmitt forsenda þeirra mannræktaráhrifa sem Frímúrarareglan á Íslandi stefnir að. Hluti undirbúningsins felst í því að þátttakendur kynnast boðskap og venjum félagsins í áföngum stig af stigi. Þannig verka félagsstörfin áfram á frímúrarann ár eftir ár eins og lífsins skóli.
Hvert er markmið frímúrarastarfs?
Í lögum Frímúrarareglunnar er markmið hennar skilgreint þannig:
Markmið Reglunnar er að göfga og bæta mannlífið. Reglan vill efla góðvild og drengskap með öllum mönnum og auka bróðurþel þeirra á meðal.
Þannig leitast Reglan við að gera bræðurna að góðum þjóðfélagsþegnum, skilningsríkum og hjálpsömum samborgurum, réttsýnum og velviljuðum mönnum. Frímúrarareglan kemur fram út á við sem mannúðar- og mannræktarfélag. Inn á við leitast hún við að efla hjá bræðrunum sjálfsþekkingu, umburðarlyndi, góðvild og náungakærleika. Frímúrarareglan hefur hvorki opinber né dulin pólitísk markmið og tengist á engan hátt neinum stjórnmálastefnum. Hún hefur engin markmið um gagnkvæma aðstoð eða stuðning við einkahagsmuni bræðranna. Það hefur hvorki fjárhagslegan ávinning né önnur forréttindi í för með sér að vera þar bróðir.
Hvað er frímúrarastúka?
Frímúrarastúka er félag frímúrara. Sjálft orðið stúka merkir m.a. lokað rými, en merkir nú annarsvegar þau húsakynni, sem frímúrarar halda fundi sína í, og hins vegar þann hóp frímúrara, sem mynda félagseiningu innan Reglunnar.
Hér á landi eru fundir haldnir reglulega í hverri stúku (vikulega/hálfsmánaðar- eða mánaðarlega) frá lokum september til byrjunar maí ár hvert og yfirleitt á sama vikudegi. Fundirnir hefjast venjulega kl. 19 og enda um kl. 23. Þeir eru auglýstir í Morgunblaðinu. Ekki er skylda að mæta á stúkufundum, en án nokkuð reglubundinnar fundarsóknar hefur það lítinn tilgang að vera bróðir í Frímúrarareglunni.
Hvað er gert á stúkufundum?
Einungis frímúrarabræðrum er heimilt að sitja þar fundi. Fundir hefjast og þeim er slitið á hátíðlegan hátt, en það myndar eins konar ramma um starfið sem fram fer á fundunum. Fundarstörfin eru í samræmi við gamla og fagra siði. Þau byggjast að nokkru á táknmáli, sem hvetur bræðurna til umhugsunar og íhugunar. Með starfinu er ætlast til, að bræðrunum sé gert auðveldara að auka þekkingu á sjálfum sér og rækta manngildi sitt. Í Frímúrarareglunni á Íslandi er þetta starf unnið á kristnum grundvelli, en um trúarskoðanir eða trúfræðitúlkanir er ekki rætt á stúkufundum eða í Reglunni.
Á venjulegum stúkufundi fer að jafnaði m.a. fram upptaka nýs bróður. Eftir stúkufundinn safnast menn saman til kvöldverðar og samræðna á óþvingaðan og frjálslegan hátt, þar sem starfið á fundinum er gjarnan rætt. Kvöldstund í stúkunni er í senn hátíð, gleði og alvara, og er ánægjuleg tilbreyting frá daglegum störfum. Frímúrarareglan veitir mönnum dýpri skilning á sjálfum sér og afstöðu sinni til þess heims sem þeir lifa í. Hún hvetur til heiðarleika og drengskapar í hvívetna og getur verið grundvöllur dýrmætra vináttubanda.
Hvað er Frímúrarakerfi?
Í Frímúrarareglunni á Íslandi eru alls 11 stig en þannig er Reglunni skipt líkt og skóla er skipt í bekki og deildir.
Æðsti maður Frímúrarareglunnar er nefndur Stórmeistari Reglunnar.
Ekki starfa allar Frímúrarareglur samkvæmt sama kerfi. Í þeim Frímúrarareglum sem Frímúrarareglan á Íslandi viðurkennir eru grundvallaratriðin almennt þau sömu. Frímúrarareglan á Íslandi starfar eftir hinu svokallaða ,,sænska kerfi“, en eftir því starfa einnig Frímúrarareglur í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og að hluta í Finnlandi og Þýskalandi. Náið og vinsamlegt samband er á milli Frímúrarareglnanna á Norðurlöndum.
Í Frímúrarareglunni á Íslandi eru nú um 3500 bræður og í öllum heiminum eru yfir 6 milljónir frímúrara. Frímúrarar eru flestir í Bandaríkjunum. Í einræðisríkjum er starfsemi frímúrarastúkna bönnuð. En þrátt fyrir það að hugmyndafræði Frímúrarareglunnar sé í sjálfu sér alþjóðleg eru ekki til nein alþjóðasamtök frímúrara.
Frímúrararegla eða Stórstúka í hverju landi er sjálfstæð og öðrum óháð.
Þrátt fyrir að Frímúrarareglur í hverju landi séu sjálfstæðar er góð samvinna á milli Frímúrarareglna flestra landa og geta íslenskir frímúrarabræður heimsótt erlendar stúkur sem viðurkenndar hafa verið af Frímúrarareglunni á Íslandi og bræður þessara stúkna geta komið í heimsókn í frímúrarastúkur hér á landi.