Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 19. október Sjá nánar.

Vinna við viðbyggingu gengur samkvæmt áætlun

Brátt er þörf fyrir vinnu­fúsar hendur

Kæru bræður mínir,ég vona að þið hafið allir átt gott og ánægjulegt sumar.   Þegar ég kom við í Ljósatröð í vikunni þá var þar einn okkar mætasti bróðir Jóhannes Harry Einarsson að skafa upp mosa og gróður við húsið og sópa upp rusli.  Það skal engan okkar undra að bróðir Jóhannes Harry taki það upp hjá sjálfum sér að hreinsa til við húsið.  Það var í tíð bróður Jóhannesar Harrys sem Stólmeistara Hamars sem hann ýtti fjáröflun og öðrum undir­búningi að byggingu Ljósatraðar úr vör með slíkum bravör sem orðinn er.  Við bræðurnir þökkum bróður Harry fyrir hans starf og umhyggju við Ljósatröð og megi það vera okkur öllum fordæmi fyrir sjálf­boðaliðs störfum fyrir stúkuna okkar og við viðbygg­inguna þar sem brátt fer að verða þörf fyrir vinnu­fúsar hendur.

Verktakinn var að ganga frá einangrun undir plötuna og eftir að okkar góðu pípara bræður hafa lokið við gólfhitalögn þá verður platan steypt á næstu dögum.  Verkinu vindur því vel áfram.

Næsta helgi er versl­un­ar­manna­helgin og þá hefur jafnan verið haldin þjóðhátíð í Eyjum okkur öllum Eyjapeyjunum í Hamri til gleði og ánægju þrátt fyrir að við höldum ekki alltaf hátíðina inni í Dal.  Þjóðhá­tíðin er okkur í blóð borin og síðustu ár höfum við og aðrir landsmenn getað tekið þátt í Brekku­söngnum þar sem við erum staddir með aðstoð ljósvakamiðla. 

Við Eyjapeyjar og pæjur höfum löngum sungið: „Þá verður aftur þjóðhátíð þrátt fyrir böl og alheim­stríð, jú, þú ert mættur Jón í Hlíð, jafnan hýr og sætur.“  Þessi skemmtilegi og hughreystandi texti hefur verið mér ásamt öðrum í Eyjum einskonar mandra sem við förum með og syngjum þegar á móti blæs því það er allaf von um að „Þá verði aftur þjóðhátíð þrátt fyrir böl og alheims­stríð.“  Það mun alltaf birta að nýjum degi og öll él stytta upp.

Það er því ágætt að við syngjum nú allir:  „Það verður aftur þjóðhátíð þrátt fyrir böl og veiru­stríð.“

Til að þið bræður mínir getið nú tekið þátt í þjóðhátíð þá er hér slóð á eitt ástsælasta þjóðhá­tíð­arlag sem samið hefur verið og hefur oft verið leikið í Ljósatröð enda nokkuð frímúr­aralegt.  „Ég veit þú kemur í kvöld til mín þótt kveðjan væri stutt í gær…..“

Góða helgi bræður mínir.  Ég veit að þið komið allir á frímúr­ara­kvöld til mín og okkar bræðra næsta vetur.  Fyrsti fundur Hamars verður 1. september og þá tendrum við ljósin á ný í Ljósatröð þau ljós sem munu lýsa okkur veginn í vetur við iðkun hinnar konunglegu íþróttar.

Með bróður­legri kveðju,

Ólafur Magnússon

Stm.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?