Heilbrigð­is­ráðu­neytið gefur út nýja reglugerð sem tók gildi 10. maí 2021 Sjá nánar.

Vinátta

Erindi br. Ægis K. Franz­sonar vRm

Þurr skyldi Þorri
þeysöm Góa
votur einmánuður
og þá mun vel vora

Svo var kveðið forðum, svo hefur veður verið, allavega sunnan og suðvest­an­lands það sem af er þorra, ef trúað er á gömul hindur­vitni. Þetta fer því bara nokkuð vel á stað. Og vonum að ekki þurfum við að þreyja Þorra næstu tólf mánuði eins og við höfum gert síðast liðna tólf mánuði. 

Það er með ólíkindum allar þær samsæris­kenn­ingar sem eru á netheimum um tilkomu veirunnar og ekki síður um þau bóluefni sem komin eru á markað. Enn þetta er áróður sem fólk almennt leiðir hjá sér. Ef við horfum til baka, þá hafa liðnar aldir allar haft sín einkenni, plágur, styrj­aldir, og náttúru­ham­farir. Nýliðin öld fékk sinn skammt af þessu, plágur og heims­styrj­aldir, en við skulum leiða hugann að því að allar þessar raunir mannanna hafa leitt til „góðs“ fyrir mannkynið. Síðasta öld leiddi af sér gífur­legar framfarir, bæði á sviði lækna­vísinda og á sviði vísinda og þekkingar almennt. 

Maður finnur núna á þessum tímum hversu ómetanlegt það er fyrir okkur bræður að eiga okkar athvarf í stúkunum okkar. Koma þar samann og gleyma amstri dagsins. Mikið sem ég sakna þessa að geta ekki mætt á fund og aftengt mig frá hinum utanað komandi áhrifum um stund. 

Enn Reglan hefur kennt okkur margt og að mínu mati eru það tengslin og vináttan og líka sýnin á lífið og trúna, já þessi vinátta sem er jafn sterk, hvort sem það eru fundir eða ekki.

Sönn vinátta segir Arist­óteles að sé „vinátta góðra manna sem eru gæddir sömu dyggðum, því þeir óska hver öðrum heilla af því þeir eru góðir”. Arist­óteles segir að vinátta af þessu tagi endist svo lengi sem góðleiki þeirra og dyggð endast. 

Sönn vinátta er einnig ánægjuleg, því góðir menn eru ánægju­legir ekki síst hvor í augum annars. Enn fremur er sönn vinátta nytsamleg því góðir menn eru nytsam­legir hvorir öðrum. Samt sem áður byggir sönn vinátta ekki á nytsemi eða ánægju, heldur á því að góðir menn unni hvor öðrum af því að þeir eru góðir menn. Vinur er sá sem vill vini sínum það sem er gott er, sjálfs hans vegna. Þetta einkennir einnig samband góðs manns við sjálfan sig. Þess vegna telur Arist­óteles að öll vinátta byggi á ást sem maður ber til sjálfs sín, enda tengist hann vini sínum eins og sjálfum sér því vinurinn er annað sjálf.

Enn bræður góðir, hvað segir í fræðum Reglunnar um vináttu. 

Strax við inngöngu í Regluna kemur  hugtakið vinátta í ljós á ungbræðra­stiginu. Bæði orð og athafnir sem minna á vináttu.

Hjálmar Freysteinsson  orti svo  og eru þetta orð að sönnu 

Gulli og perlum að safna sér
sumir endalaust reyna.
Vita ekki að vináttan er
verðmætust eðalsteina…

Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina.
En viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.

Við vitum að keðja sú sem við hnýtum verður aldrei rofin, hverjar sem ytri aðstæður eru.

 

 

 

 

 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?