Starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 13. janúar 2021 Sjá nánar.

VIÐ og ÞAU

Sjaldan hefur skipt meira máli en nú, að mannkynið standi saman og takist í sameiningu á við alls konar vandamál sem nú steðja að. Að við sýnum hvort öðru virðingu, kærleika og samhygð og aðstoðum hvert annað eftir megni. Því miður gleymum við oft að fylgja þessum mikilvægu atriðum, en byrjum ósjálfrátt að skipta okkur upp í hópa. – Við og þau. Bróðir Ingvar Hjálm­arsson var minntur á þá staðreynd þegar hann gluggaði í gömlum minningum.

=================

Fyrir all nokkrum árum var ég í suður Portúgal sem ferða­maður. Á þessum tíma var mikil bóla með þjóðinni og þá sérstaklega í suður­hlutanum. Hús og hótel spruttu upp úr jörðinni út um allar koppa­grundir og byggingakranar á hverju horni. Hljómar kunnuglega eða hvað?

Drjúgum tíma var eytt á ströndinni við lestur og að fylgjast með mannlífinu. M. a. sá ég þar lítinn dreng, blakkan á hörund. Ég veitti honum eftirtekt vegna þess að hann var alltaf einn á ferð og var í sundbuxum sem voru mjög ríflega við vöxt og ótrúlega slitnar að aftan.

Einn daginn vorum við á ströndinni og fylgdust með mannlífinu. Stutt frá okkur voru nokkrir ofaldir strákar að leik, hvítir á hörund. Aðeins lengra í burtu stóð svo litli snáðinn í stóru sundbuxunum, og fylgdist með leik bleik­nefjanna. Það var auðvelt að sjá að hann langaði mikið að fá að vera með í leiknum.

Stráka­gengið virtist átta sig á þessu, þeir stungu saman sínum bleik­nefjum og stuttu síðar var sá litli kominn í hópinn. En það kom fljótt í ljós að hann var ekki tekinn inn í hópinn sem jafningi, heldur fékk hann að kenna á hrekkjum þeirra og kvikind­isskap. Hann var algerlega meðvitaður um stöðu sína, en löngunin til að fá að vera með var öllu öðru yfirsterkara, svo hann lét sig hafa það.

Allt í einu birtist maður, reif í handlegg þess stutta og kippti honum út úr þvögunni. Hann hundskammaði drenginn og endaði með því að reka honum löðrung. Mig grunaði að þetta væri faðirinn sem hafði séð hvernig farið var með soninn.  En í stað þess að láta vel að honum bitnaði reiði hans á saklausu barninu. Sá stutti reyndi allt hvað hann gat til að halda andlitinu og koma í veg fyrir að tárin brytust fram. Gekk illa í báðum tilvikum. Strák­arnir fylgdust með glottandi, en misstu svo áhugann á þessari ógæfu sem þeir sjálfir áttu sök á. Það tók á að horfa á þetta.

Síðar um daginn vorum við að ræða þetta við fólk sem þekkti til staðhátta. Þau sögðu okkur að allstór hópur farand­verka­manna ynnu við bygging­ar­fram­kvæmdir á staðnum. Aðstaða þeirra var nú ekki betri en svo að þeir bjuggu í húsunum sem þeir voru að byggja, sem voru tæplega fokheld. Einhverjir þessara farand­verka­manna tóku syni sína með sér til að létta á heimil­is­haldinu heima­fyrir. Líklega væri þessi piltur í landinu á þeim forsendum.

Daginn eftir vorum við á leiðinni á ströndina. Sé ég þá einn lítinn dreng koma út úr hálfbyggðu húsi og renna sér á rassinum á spýtu til að komast niður á jafnsléttu. Ég þekkti hann um leið og áttaði mig jafnframt á hvers vegna sundbux­urnar hans voru svona slitnar. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann renndi sér þarna. Síðan lá leið hans niður að ströndinni.

Ekki veit ég hvernig þessi dagur leið hjá snáðanum. En hugsanlega hafði hann fengið sína fyrstu lexíu á fyrir­bærinu VIÐ og ÞAU frá föðurnum deginum áður. Þetta fyrirbæri sem elur á órétti og hatri milli fólks. Því eins og allir ættu að vita þá eru bara VIÐ á þessari jörð.

Ingvar Hjálm­arsson

 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?