Starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 24. febrúar 2021 Sjá nánar.

Við getum öll hist

Nú líður að lokum þessa viðburða­mikla árs og það er margt að hafa í huga, margt að muna og margt sem við getum tekið með okkur inn í komandi ár. Vefnefnd Fjölnis þakkar fyrir samveruna á liðnu ári og vonar að allir brr. og fjölskyldur eigi góð og örugg áramót. Við hlökkum til að deila með ykkur fleiri pistlum og brakandi fersku ári.

Þó að ég hafi ekki verið orðinn mjög gamall, þá man ég vel eftir áramótunum þegar við tókum á móti árinu 1991. Árið var í raun ekkert merki­legra en önnur fyrir mér, nema fyrir þær sakir að mér fannst bara svo flott ártalið, hvernig maður gat lesið það afturábak og áfram. Ég man líka þegar árið kláraðist og 1992 tók við að ég fór að velta fyrir mér hvenær næsta flotta ártal kæmi. Og jú, þó það væri ennþá svoldið langt í það … 2020. Það yrði nú flott ár!

Nú þegar við teljum út síðustu daga þess árs, þá er ljóst að þetta ár varð ekki eins spennandi og við héldum fyrir sléttu ári síðan … þegar við settum okkur áramótaheit í líkingu við að ferðast meira eða vera duglegri að hitta gamla vini. Nei, árið 2020 bauð upp á allt aðrar áskoranir en við áttum von á.

Það er ólíklegt að árið 2020 komist á topp lista yfir bestu árin sem við höfum upplifað, þó það verði mögulega með þeim eftir­minni­legustu. En á meðan það er nóg af slæmum hlutum sem gerðust til að rifja upp, þá skulum við ekki gleyma góðu hlutunum. Fyrri pistlar hér á síðu Fjölnis hafa verið góðir í að minna okkur á góð gildi, svo sem kærleikann og að bæta sjálfan sig. Þar að auki er gott að hugsa líka til alls þess góða sem 2020 hefur kennt okkur. Eitt af því merki­legasta finnst mér vera hvað við höfum náð að tileinka okkur tæknina til að ná betur saman. Flest okkar upplifðu mögulega okkar fyrstu fjarfundi á árinu … svo ég tali nú ekki um okkar fyrstu fjar-fjölskyldu­sam­komur eða fjar-jólaboð.

Tæknin kemur ekki í staðin fyrir að hittast í raunheimum, faðmast og tengjast. En tæknin býr til möguleika þar sem annars var enginn möguleiki á sambandi. Þessi sama tækni getur líka búið til algjörlega nýja hluti. Möguleika á að skapa eitthvað alveg nýtt.

Árið 2009 var fyrsti Sýndar-kórinn (Virtual Choir) stofnaður af tónskáldinu Eric Whitacre. Í fyrsta verkinu komu saman 185 söngvarar í 12 löndum og fluttu verk eftir hann. Í gegnum árin hefur kórinn stækkað og með Covid tímum, þar sem kórar voru meira og minna lagðir af vegna smithættu, var heldur betur þörf á verkefni sem þessu. Í nýjasta verki Erics komu saman 17.572 söngvarar frá 129 löndum og sungu saman.

Hér fékk fólk tækifæri á að koma saman og syngja á ný, í stærri og meiri upplifun en það hafði nokkurn­tíman getað upplifað. Sumir fengi jafnvel tækifæri á að vera hluti af kór, eitthvað sem þeir höfðu ekki getað árum saman vegna heilsu eða annarra aðstæðna.

Það er hægt að hlusta á dásamlega frásögn Erics um verkefnið í stórgóðu hlaðvarpi sem kallast Twenty Thousand Hertz.

Hörður Lárusson

Við getum öll hist. Kannski ekki á þann hátt sem við helst viljum, en notum það ekki sem afsökun á að bíða með að hafa samband við vini okkar og fjölskyldu. Nýtum tæknina, þó hún sé ekki galdra­lausn, þá er hún ótetanlegt tólk fyrir okkur til að halda sambandi við fólkið í lífinu okkar.

Nú þegar bóluefnið er byrjað að dreifast um heiminn og við sjáum vonandi fyrir endann á þessu ástandi, þá skulum við ekki bara bíða eftir því að hlutirnir verði eins og þeir voru fyrir Covid. Við skulum taka allt það góða sem við lærðum síðasta árið og gera heiminn og lífið að betri stað en hann var.

Eldra efni

Að fella grímuna
LÍFSSAGA
Vel heppnuð vefsamvera

Innskráning

Hver er mín R.kt.?