Vera eða gera eða fara úr öðru í eitt

Rétt röð
Að vaða úr einu í annað
er eimmitt rétt, það er sannað
En úr öðru í eitt
færir engum neitt
og ætti að vera bannað
Þórarinn Eldjárn

Þetta veiru­ástand sem nú er að nálgast sitt ársafmæli á mörg hliðar­sjálf, sum hver áhugaverð eða kómísk en önnur sorgleg. Að mestu leyti hef ég unnið heima við undan­farna tólf mánuði en konan mín hefur átt þeirri gæfu að fagna að geta unnið á sínum vinnustað að mestu. Á heimili okkar hjóna búum við ein í stóru húsi og ungarnir flognir á braut sem hefur haft þær afleið­ingar, sérstaklega síðasta árið, að samskipti minnar elskulegu og mín hafa aukist mikið (sem er gott) því ekki hefur verið mikið um gestagang né atburði utanhúss. Sú „rétta“ röð sem var á hlutum hér á heimilinu og verklagið í kringum þá hefur þó tekið óvænta og ófyrirséða stefnu­breytingu og oft á tíðum upplifi ég hana eins og að fara úr öðru í eitt.

Áður en lengra er haldið þá er rétt að halda því til haga að hér að neðan vantar alfarið sjónarmið minnar konu og hennar sýn á þessa nánu samveru við mig undan­farið ár, og ef færð væri á blað, væri eflaust ekki mér í hag.

Þó má segja á jákvæðum nótum að ég hafi lært töluvert þennan tíma s.s. þrepa­skiptingu æðruleysis eða þolinmæði en ekki síður ýmis ný hugtök eða dýpri merkingu ýmissa málaflokka. Í dag þekki ég ný hugtök eins og prjón­festa, stroff, að auka út, að fitja upp, að fella af, úrtaka, sokka­prjónn eða hring­prjónn og get átt í vitrænum samræðum við konuna og veitt henni sálrænan stuðning þegar rekja þarf prjónið upp. Einnig hefur opnast alveg nýr heimur fyrir mér á sviði krema, ég vissi ekki einu sinni að til væru svona margar tegundir af kremum sem mannskepnan notar. Áður fyrr þekkti ég til þriggja krema, rakst­ur­skrem, sólvarn­arkrem sem var samnefnari yfir eina tegund af virkni og sárakrem enda maður með marga þumla. Nú þekki ég hinsvegar muninn á undirkremi og yfirkremi, morgunkremi, dagkremi, augnkremi, hrukkukremi og nætur­kremi svo fátt eitt sé nefnt en svakalega kosta þau mikið. En kannski er sú fjárfesting góð því það fer ekki á milli mála að konan mín er miklu, miklu fallegri en ég.

Á síðri nótum og alvar­legri hefur tiltekt á heimilinu aukist til muna. Ég á bágt með að skilja þá þróun þ.s. gesta­komum hefur fækkað mikið síðasta ár vegna ástandsins. Þetta hefur haft töluverð áhrif á getu mína og tíma til að horfa á enska boltann því það virðist vera lögmál að þegar bein útsending er á boltanum þá er akkúrat rétti tíminn að fara í að strjúka af, moppa, ryksuga og bóna. Ég sjálfur hef ekki tekið eftir því að ryk á heimilinu hafi aukist undan­farið ár en svo virðist sem hvert einasta rykkorn með titrandi tár tilbiðji mína elskulegu og deyi svo.

Þótt ég hafi passað vel upp á að hreyfa mig mikið og stunda mína líkamsrækt þá hefur það samt ekki komið í veg fyrir að sumum líkams­pörtum hafi hrörnað að sögn konunnar. Nú er svo komið að hún hefur fyrir mína hönd bæði pantað tíma fyrir mig hjá augnlækni og heyrn­ar­sér­fræðingi og vill meina að mér hafi farið mikið aftur á ekki lengri tíma en á ári. Ég mun virða hennar ósk og hitta mína lækna hvað það snertir. Hún heldur því fram að ég sjái ekki lengur smáhluti eins og mylsnu og að ég sé orðinn hálf heyrn­arlaus, heyri ekki lengur nema hálft orð af því sem hún segir. Hvað það síðara snertir þá er ég ekki á sama máli og hún og vill meina að það hljóti að eiga orsök í því hversu blíð og lágstemmd rödd hennar er því ég heyri allt sem sagt er í fréttum eða í bolta­lýs­ingum.

En bjartsýnn maður eins og ég venjulega er þá hef ég fulla trú á því að þegar búið er að mótefnasprauta alla þjóðina þá getum við farið í það að vaða úr einu í annað í stað þessa að fara úr öðru í eitt. Þá ætla ég bara að fara í mitt gamla ástand að vera og horfa á minn bolta og vonandi batnar sjónin og heyrnin við það.

Vera eða gera
Ég er þreyttur á að gera
og því vil ég hér fram bera
heitstrenging þá
að héðan í frá
ætla ég bara að vera
Þórarinn Eldjárn

Páll Kolka Ísberg

Eldra efni

Golfmót Fjölnis 2022
Því er lokið
Líður að lokum
Vorferð Fjölnis

Innskráning

Hver er mín R.kt.?