Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 19. október Sjá nánar.

Veiru­tepptur

Bróðir okkar Kristján Davíðsson skrifar persónu­legan pistil um sóttkví sem hann og hans afastrákur eru nú staddir í, á Hofi í Hruna­manna­hreppi. Og tekist er á við veiru­skrattann í rituðu máli. Mjög áhugaverð reynslusaga sem kallar á lestur.

Það er komið litríkt haust, sem í dag er líka bæði milt og lognsælt. En líka dimmt og skuggalegt. Við afastrákur nafni minn 12 ára erum saman í sóttkví í bústaðnum, ásamt hundinum Lísu. Í myrkrinu utan við gluggann glottir illyrmislegt andlit Hrekkja­vökugraskers, eins og tákn fyrir veiru­skrattann sem rak okkur hingað. Afastrákur gisti í millunni hjá okkuur ömmu í vikunni og daginn eftir greindist einn sjúkling­urinn hennar ömmu sýktur af bannsettri covid-veirunni.

Amma og raunar öll deildin hennar á sjúkra­húsinu er í sóttkví næstu vikuna, ýmist á sóttvarn­ar­húsinu eða í vinnunni og hitta engan nema hvert annað og sjúklingana á deildinni. Sem betur fer var amma með grímu og daginn eftir kom í ljós að hún var neikvæð í fyrsta smitprófi. En við tveir tökum enga sénsa, afi með nýrna­skemmd og afastrákur á foreldra og bróður heima, auk þess sem hann á von á litlu systkini í febrúar lok. Við ókum rakleitt í bústaðinn, komum ekki einu sinni við í búð að kaupa mjólk. Eins og segir í ljóða­bókinni “Veðurtepptur” eftir Hjörleif Hjart­arson erum það “bara við tveir” þar til amma er komin með að minnsta kosti tvö neikvæð covid-próf.

Á leiðinni í bústaðinn  ræddum við málin: “Mér líður eins og þetta sé mér að kenna, af því ég bað um að fá að gista hjá ykkur” sagði afastrákur. Ég fullvissaði hann um að svo væri ekki, 12 ára strákur gæti ekki vitað að því að gista hjá ömmu og afa fylgdi smithætta. Fullorðnir gætu hugsanlega hafa velt fyrir sér áhættunni og svo sagt “Nei þú mátt ekki gista núna.”, en það væri engin leið fyrir ungan dreng að sjá svona nokkuð fyrir. Það væri því engin ástæða fyrir hann að upplifa smitskömm, nýyrði sem hann reyndar þekkti ekki – þótt hann sé annars ágætur íslensku­maður, sem betur fer finnst afa.

Þótt afi sé að öllu jöfnu ekki að mikla hlutina fyrir sér þá sækir nú samt fram í fylgsnum hugans ótti við veiruna, sem leggst víst þyngst á lungna-, hjarta- og nýrna­sjúka. Lýsingar þeirra sem hafa veikst eru sumar ekki geðsleg lesning og enginn þarf að velkjast í vafa um hvað afa finnst um álit sjálf­skipuðu inter­net­sér­fræð­inganna á samskiptamiðlunum.

Aldrei slíku vant er þessa dagana jákvætt að vera neikvæður og eftir að við fréttum af neikvæða covid-prófinu hennar ömmu þá höfum við það enn betra í bústaðnum nú en áður. Búnir að lesa hvorn annan í svefn, vinna hvorn annan í Mastermind og tölvu­leiknum “Among Us”, hjálpast að við tiltekt, matargerð, útskurð á framan­greindu Hrekkja­vökugraskeri og skrifa ritgerðir, afastrákur um Uggeðlur og afi þennan pistil. Afastrákur er búinn að búa til lagalista með uppáhalds­lögum afa, sem hljóma í eyrum við skrifin. Það er skondin tilviljun að einmitt nú syngur Vilhjálmur Vilhjálmsson “Lítill drengur” á meðan afastrákur raðar úr uppþvotta­vélinni í skápa og skúffur á meðan afi skrifar ritgerð.

Eins og sést á framan­greindu, sem er í raun bara ein lítil reynslusaga úr hvunn­deginum árið 2020, hefur veiru­skrattinn, sem nú hefur plagað mannkynið í bráðum meðgöngu­lengd, mikil og margvísleg áhrif víða. Hann hefur sett daglegt líf okkar bæði heima og heiman úr skorðum, valdið úlfúð og angri, líkam­legum og andlegum sársauka, misal­var­legum veikindum og yfir milljón dauðs­föllum.

Það má þó vona að hann hafi ekki bara gert ógagn, heldur líka skapað gæðastundir, rétt eins og hjá okkur afastrák, stuðlað að aukinni nánd í andlegum samskiptum okkar við hvert annað og kennt okkur að meta enn betur góð samskipti við ástvini okkar og aðra. Og þannig aukið við kærleikann í veröldinni, sem er hreint ekki svo slæm aukaverkun af illskæðri veiru.

Hofi í Hruna­manna­hreppi, 16.10. veiruárið 2020.

Heimild: Ljóða­bókin “Veðurtepptur” eftir Hjörleif Hjart­arson, útgefandi Barna­bóka­út­gáfan, 2016.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?