Útvarps­þáttur um Eyþór Stefánsson tónskáld

Á dagskrá Ríkis­út­varpsins, RÁS 1, kl. 14:00, þann 5. ágúst

Útvarps­þáttur um br. Eyþór Stefánsson, tónskáldið í Fögruhlíð á Sauðár­króki er á dagskrá Ríkis­út­varpsins, RÁS 1, kl. 14:00, þann 5. ágúst, á frídegi verzl­un­ar­manna.

Í þættinum er stikklað á stóru í lífshlaupi lista­mannsins Eyþórs, sem tónskálds, organista og stjórnanda, kennara, leikara og leikstjóra á Sauðár­króki. Eyþór samdi fjölda sönglaga sem ýmsir listamenn hafa flutt og eru þjóðinni hjart­fólgin.

Eyþór Stefánsson var heiðurs­borgari Sauðár­króks. Hann fæddist á Sauðár­króki 23. janúar 1901 og lést á Sjúkrahúsi Sauðár­króks 3. nóvember 1999, 98 ára að aldri. Eiginkona hans var Sigríður Anna Stefáns­dóttir frá Skógum í Þelamörk. Hún fæddist 29. september 1905 og lést 20. júní 1992.

Um Sigríði eiginkonu sína sagði Eyþór á áttræðisafmæli sínu að honum hefði hlotnast það happ að hafa eiginkonu við hlið sér öll þau ár sem mest á reið, “konan mín stóð mér aldrei að baki”, sagði hann, “hún stóð ætíð við hlið mér í öllum mínum störfum og studdi mig með ráðum og dáðum alla tíð”.

Eyþór var frímúrari og einn af stofn­endum Frímúrara-fræðslu­stúk­unnar Mælifells á Sauðár­króki. Hann starfaði innan vébanda St. Jóh. St. Rúnar á Akureyri og samdi árið 1969, samkvæmt beiðni, stúkulag Rúnar. Ljóðið er eftir Freystein Gunnarsson. Grímur Sigurðsson útsetti lagið fyrir Frímúr­arakórinn. Lagið er að finna á einum geisladiska Frímúr­arakórsins. Jón Kristinn Cortez stjórnar og Jónas Þórir leikur á píanó.

Þátturinn er í umsjón br. Steins Kárasonar frá Sauðár­króki en hann ræddi við Eyþór sumarið 1994 að heimili hans í Fögruhlíð og byggir þátturinn að nokkru á hljóðupptöku sem þá var gerð við ófull­komnar aðstæður en hefur verið hljóð­löguð. Einnig er stuðst við blaða- og minning­ar­greinar um Eyþór og hljóðlagaðar upptökur sem ekki hafa heyrst áður opinberlega.

Meðal annars er þar upptaka frá samkomu í Safna­húsinu á Sauðár­króki sem haldin var í tilefni af áttræðis afmæli Eyþórs 1981. Þar var slegið á létta strengi og söng br. Friðbjörn G. Jónsson lög Eyþórs við píanóund­irleik Jónasar Ingimundar.

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?