Br. okkar Erling Adólf Ágústsson las grein í blaði og fékk í framhaldi hugmynd sem hann hrinti í framkvæmd. Enda var hún frábær.
Ég las grein í Morgunblaðinu þann 2.nóvember s.l. þar sem sagt var frá framtaki fjölskyldu í Grafarvogi. Pálína Þorsteinsdóttir, kennari í Grafarvogi og dóttir hennar Sandra, ákváðu að hringja í bekkjarbróðir Söndru sem hafði verið mikið heima vegna ástandsins.
Þetta vakti það mikla lukku að ákveðið var að hrinda af stað umhyggjuverkefni þar sem krakkarnir í bekknum myndu hringja í hvort annað og taka púlsinn á bekkjarsystkinum sínum sem hafa þurft að vera heima vegna ástandsins.
Þetta minnti mig á, að á þessum tímum stöndum við frammi fyrir alls konar áskorunum. En slíkar áskoranir geta orðið til þess að innra með okkur fæðast nýjar hugmyndir um hvernig hægt er að bregðast við til þess að hlúa að bræðrum okkar.
Í framhaldi af lestri þessarar greinar hringdi ég síðan í nokkra bræður okkar í Fjölni til að heyra hvernig þeir hefðu það. Það sem veitti mér innblástur var að heyra hvað bræður höfðu verið að gera og gaf mér fullt af góðum hugmyndum. Og það er ánægjulegt að segja frá því að bræður okkar voru almennt glaðir og kátir.
Einn bróðir okkar tók upp á því að fara í póstnúmeragöngur með konu sinni. Þau höfðu gengið göngur í öllum póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu.
Sumir bræður höfðu varið góðum tíma með barnabörnum sínum, spilað á spil, lesið með þeim bækur, horft á bíómyndir, tekið barnabörnin með sér upp í bústað og almennt varið miklum tíma með fólkinu sínu.
Allir töluðu um hvað þeir sakna starfsins í Reglunni og hversu mikil tilhlökkun það verði að mæta á fundi á nýjan leik. Ég vil því hvetja ykkur bræður mínir að taka upp félagatalið og starfsskrána og hringja í nokkra bræður. Það veitti mér innblástur að heyra í þeim sem ég talaði við. Og það mun örugglega einnig gleðja viðmælandann sem þið hringið í.
Erling Adólf Ágústsson