Til hamingju með afmælið — 100 ár

Frímúr­arastarf á Íslandi frá 6. janúar 1919

Stórhýsi verslunar­fyrir­tæk­isins Nathan & Olsen við Austur­stræti 16.

Í dag, 6. janúar, eru liðin 100 ár frá stofnun St. Jóh. Eddu, sem markar upphaf frímúr­ara­starfs á Íslandi. Til hamingju með daginn.

Á komandi vikum verður gefin út bókin Undir Stjörnu­himni, veglegt safn greina um sögu Reglunnar og margvís­legar hliðar frímúr­ara­starfs. Þar má finna sögu Frímúr­ara­starfs á Íslandi og í einni greininni má lesa eftir­farandi:

Sjötti janúar gekk í garð og veður var hæglátt í Reykjavík. Bræður tóku að flykkjast að húsi Nathans & Olsen um morguninn og hafi þeim verið litið út Pósthús­strætið hafa þeir séð menn í óða önn við að ferma Gullfoss, hið glæsta skip Eimskipa­fé­lagsins, sem lagði upp í ferð til New York síðar um daginn.

Dagskráin var þétt og hófst fundurinn með setningu fræðslu­stúkunnar. Las Ludvig Kaaber þar upp fyrrnefnt skipun­arbréf og stofn­skrá hinnar nýju stúku. Þá fékk hann skipuðum og staðfestum embættis­mönnum stúkunnar embætti sín. Þrír bræður, sem gengið höfðu í stúkur erlendis og hlotið höfðu III. stig hennar, fengu inngöngu í Eddu af þessu sama tilefni. Í kjölfar þess fór innsetning nýs Stólmeistara fram.

Að innsetningu lokinni flutti Ludvig ræðu þar sem hann rakti þróun frímúr­ara­starfsins á Íslandi. Að því búnu var fræðslu­stúkunni slitið í hinsta sinn og eftir drjúgt hlé tóku bræðurnir til við vígslu stúkunnar og fundar­salarins. Var það gert eftir þeim siðvenjum sem tíðkuðust á vett­vangi dönsku Reglunnar. Hafa þær litlum breyt­ingum tekið allt til dagsins í dag. Fór fundurinn raunar allur fram á dönsku, enda St. Jóh.stúkan Edda dönsk þótt starfrækt væri hér á landi.

Það er ljóst að framundan er spennandi og skemmtilegt ár, sem við vonum að sem flestir sjái sér fært á að njóta.

Dagskrá afmælis­ársins

Það hefur vonandi farið fram hjá fáum að í tilefni af afmælis­árinu er blásið til ýmissa viðburða. Við hvetjum alla til að fylgjast með þessari síðu, hér á vefnum, sem var sérstaklega sett saman til að halda utan um þessa dagskrá.

Smellið hér til að opna afmæl­is­s­íðuna.

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?