Því er lokið

Lokafundur Fjölnis starfsárið 2021–2022

Föstu­daginn 6. maí var haldinn lokafundur St. Fjölnis fyrir starfsárið 2021–2022. Breyt­ingar á embætt­is­mönnum stúkunnar, tvírétta máltíð og erindi sem leiddi huga brr. langt út fyrir lands­steinanna voru góð uppskrift að frábærum lokahnykk á liðnum vetri.

Fundurinn átti skv. starfskrá að vera haldinn í lok apríl, en eins og svo margt annað í starfinu síðasta vetur, urðu þar breyt­ingar. Fundurinn var færður yfir á fyrsta föstudag maí mánaðar og það var því vissulega farið að glitta í sumarskap brr. þegar þeir mættu í hús.

Embætt­ismenn komandi starfsárs

Fundurinn var hefðbundinn lokafundur og var þar einna mest áberandi skipan embætt­is­manna fyrir komandi starfsár. Br. Gunnar Bragason Stm. stýrði kjöri á nýjum Vm. stúkunnar og eftir hana var ljóst að breyt­ingar urðu í tveimur aðalembættum stúkunnar.

Í embætti Vm. var br. Finnur Tómasson kjörinn með afgerandi niður­stöðu.
Í embætti Rm. var settur br. Reynir Arngrímsson, sem tók við af br. Magnúsi E. Kristjánssyni.

Aðrar breyt­ingar og nýjan embætt­islista má nú finna hér á vefsíðu Fjölnis.

Snitzel og landið heilaga

Eftir fundinn færðu brr. sig í matsalinn, þar sem beið brakandi og bragðgott snitzel. Það leyndi sér ekki ánægjan hjá brr. þegar maturinn var borinn fram … og það heyrðist hjá einum ónafn­greindum br. að þetta var fjórða máltíðin hans í röð síðustu daga sem hann fékk þennan dýrindis rétt, og hann var ennþá jafn glaður að snæða hann.

Eftir ís og söng frá nokkrum látúns­börkum Fjölnis færðu brr. sig yfir í næsta sal þar sem beið kaffi og konfekt til að njóta meðan þeir hlýddu á góðan gest segja frá einstakri ferð systra og brr. til Ísrael.

Br. Friðgeir Magni Baldursson, Stm. St. Hamars, mætti með hrífandi frásögn frá undir­búningi og ferðalagi tæplega 200 systra og brr. Farið var í rúmlega vikulanga ferð og augljóst á myndum að hver dagur var sneysa­fullur af menningu, sögu og einstökum upplifunum. Einn af hápunktum ferðar­innar var án efa stúkufundur þeirra inni í námum Salómons konungs, undir Jerúsalem borg.

Sumarið framundan

Menn voru eflaust vel mettir, í sál, huga og maga, eftir þennan frábæra lokahnykk á árinu okkar. Það er ljóst að þetta var ekki hefðbundnasta árið sem við höfum séð í R. — en allir eru sammála að við erum farnir að nálgast venjulegt starf og það er von að með nýju starfsári næsta haust að allt verði komið til baka í eðlilegt horf.

Það er þó ýmislegt framundan hjá Fjölni í sumar­fríinu. Þar má meðal annars nefna golfmót Fjölnis sem verður kynnt nánar þegar dagsetn­ingar liggja fyrir — og ekki má gleyma Fjöln­is­há­deginum góðu sem verða sannarlega til staðar í ár eins og undan­farin ár.

Brr. okkar Davíð Torfi Ólafsson og Hjörtur Valgeirsson hafa boðist til að taka á móti okkur á veitinga­staðnum Haust, sem er staðsettur steinsnar frá R.heimilinu. Fjöln­is­há­degin verða haldin fyrsta þriðjudag næstu fjóra mánuði; júní, júlí, ágúst og september, og hefjast kl. 12. Sendir verða út pósta til áminn­ingar fyrir hvert hádegið.

Starfið hefst síðan að nýju hjá okkur í Fjölni í byrjun október.

Gleðilegt sumar brr. mínir og njótið sólar­innar sem bíður okkar vonandi alla næstu mánuði.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?