Það sem snertir okkur

Sýnt hefur verið fram á að það er okkur eiginlegt að snerta aðra og vera snert af öðrum. Sumir vísindamenn vilja meira að segja meina að tilvera okkar byggist upp á snertingu. Kannski er það ein ástæða þess að þessi veirufar­aldur fer illa í okkur – að fá ekki að snerta þá sem okkur eru kærir eða að vera snert af þeim sömu. Gott faðmlag er dýrmætt.

Snert­ingin byrjar nefnilega snemma. Á meðan við erum enn í móðurkviði, og legvatnið umlykur okkur, má segja að tauga­kerfi fóstursins greini sig frá móðurinni með „snert­ingunni“ sem þar verður. Þegar við eldumst og þroskumst gerum við okkur e.t.v. ekki grein fyrir mikilvægi snert­ing­ar­innar. Þegar hana vantar áttum við okkur kannski á að eitthvað er ekki eins og það á að vera en ekki að það sé snert­ingin, eða vöntun á henni, sem sé orsökin. Verst getur þetta komið við þá sem eru einmana. Þeirra staða verður ennþá verri því þeir eru eðli máls ekki í mikilli snertingu við annað fólk. Það er mikilvægt að hafa í huga.

Veirufar­ald­urinn hefur valdið því að við förum á mis við þessa huggandi, vermandi og kærleiksríku tilfinningu sem snert­ingin oftast er. Að sjálf­sögðu hefur þetta mis mikil áhrif á okkur. Sum okkar vilja sífellt vera að knúsast á meðan öðrum dugar þétt handtak eða kankvíst bros. En að vera að mestu leiti án snert­ingar hefur sýnt að ýtir undir andlega vanlíðan. Í daglegu lífi hjálpar snerting okkur að minnka áhrif streitu­hormóna sem líkaminn framleiðir og jafnvel þó við séum ekki vön að fá mikla snertingu getur þörfin samt sem áður orðið áþreif­anleg og oft lýst þannig að húðina hungri í snertingu. Hver kannast ekki við áhrifin af þéttu faðmlagi hvort sem við hittum góðan vin eða þegar við erum sorgmædd eða líður illa?

Snerting er samt ekki bara ein tilfinning. Húðin á okkur er u.þ.b. tveir fermetrar og hlaðin tauga­endum sem skynja hita, áferð, kláða o.s.frv. Ein tegund taugaenda þjónar því eina hlutverki að nema þýða/blíða snertingu. Tauga­endar af þessu tagi finnast í húð margra spendýra og senda hæg rafboð til stöðva heilans sem vinna úr tilfinn­ingum. Hæsta hlutfall taugaenda af þessu tagi í húðinni er á stöðum sem við sjálf eigum erfitt með að komast að t.d. á herðunum og á bakinu. Ef þér finnst gott að láta klóra þér á bakinu er það vegna þess að þar eru fleiri svona tauga­endar. Örvun þeirra losar t.d. um dópamín, sem er tauga­boðefni í heilanum, og hefur áhrif á hvernig okkur líður.

Í okkar félagsskap er gott að vita að komið hefur í ljós að þar sem nýir meðlimir koma inn í hóp getur létt snerting frá einhverjum úr hópnum hjálpað okkur að finnast við vera hluti af heildinni. Að sjálf­sögðu göngum við ekki um allt og snertum fólk í tíma og ótíma. En af og til þurfum við á þessu að halda.

Það þarf því e.t.v. ekki að koma á óvart að í stórri rannsókn sem framkvæmd var á síðasta ári kom í ljós að þau þrjú orð sem oftast voru notuð til að lýsa snertingu voru að hún væri huggandi, vermandi og kærleiksrík.

Komandi tímar færa okkur vonandi þessa kærleiksríku tilfinningu.

Kristinn Garðarsson

Eldra efni

Golfmót Fjölnis 2022
Því er lokið
Líður að lokum
Vorferð Fjölnis

Innskráning

Hver er mín R.kt.?