Heilbrigð­is­ráðu­neytið gefur út nýja reglugerð sem tók gildi 10. maí 2021 Sjá nánar.

Bréf til bræðra

Það hvessir, það rignir, en það styttir alltaf upp og lygnir

Kæru bræður!,

Þegar þessi orð eru fest á blað vitum við ekki enn hvenær við getum aftur komið saman í stúkunni. Vágest­urinn sem nefndur er Covid-19 hefur sett strik í reikn­inginn hjá okkur í Frímúr­ar­a­reglunni hérlendis, rétt eins og annars­staðar í samfé­laginu og raunar um heim allan.

Þróun mála undan­farnar vikur hefur staðfest réttmæti og nauðsyn þeirrar ákvörðunar yfirstjórnar Reglunnar að fresta öllum fundum og viðburðum á vegum hennar til og með 27. apríl. Eins og staðan er nú bendir flest til þess að frestunin muni verða framlengd og óvíst er hvenær og með hvaða hætti hefðbundið stúku­starf mun fara af stað að nýju.

Samfé­lagið allt er nú sameinað í baráttunni við vágestinn. Þar reynir á að allir geri sitt og ýmsum tilmælum hefur verið beint út til alls almennings. Meðal annars hefur fólk verið hvatt til þess að lágmarka samveru við aðra en nánustu fjölskyldu og eins að þeir sem geta unnið heima geri það. Það er mikilvægt að allir fari að fyrir­mælum yfirvalda og hlýti þeim tilmælum og takmörkunum sem settar hafa verið. Þannig er líklegast að við komumst í gegnum brimskaflinn án áfalla og getum sem fyrst hafið hefðbundið starf okkar.

En á meðan svo er ekki getum við bræðurnir fengið innblástur úr tilmælum sóttvarn­ar­yf­ir­valda og unnið heima. Það er gegnum­gangandi í öllu okkar starfi að það er til þess ætlast að því sé sinnt, ekki bara í stúku­húsinu og á stúkufundum heldur alltaf og allsstaðar. Markmiðin eru skýr, að hver og einn bróðir leitist við að bæta sig sem manneskju og beiti þeim lærdómi sem hann meðtekur í reglu­starfinu á eigin líf og samskipti sín og breytni við aðra.

Nú þegar við höfum ekki stúkufundina til að áminn­ingar, reynir á okkur fyrir alvöru. Þessa dagana þurfa allir nemendur í háskólum og framhalds­skólum landsins, auk fjölmargra nemenda á unglinga­stigi grunn­skólanna, að sinna námi sínu heima fyrir. Þó að kennarar reyni að fylgjast með, setja fyrir verkefni og veita stuðning, þá liggur ábyrgðin á náminu sem aldrei fyrr á herðum nemendanna sjálfra. Í samtölum við kennara undan­farna daga verður ekki annað heyrt en að unga fólkið okkar sé að standa undir þessari ábyrgð með sóma.

Við skulum bræður mínir, taka okkur unga fólkið til fyrir­myndar í þessu. Verum samvisku­samir og traustsins verðir að sinna störfum okkar heima. Við megum ekki gleyma því að við erum frímúrarar og við höfum verk að vinna. Við skulum ekki gleyma skyldum okkar, þeim dyggðum sem okkur ber skilyrð­is­laust að leggja stund á. Á tímum sem þessum er það sérstaklega mikilvægt að við leggjum okkur af mörkum til þeirrar samstöðu sem þörf er fyrir og sýnum þannig afrakstur þeirrar mannræktar sem er megin­til­gangur starfsins.

Söngv­arinn Ragnar Bjarnason féll frá nú fyrir skemmstu. Hann var sannkallaður ástmögur þjóðar­innar og hafði á langri ævi sent frá sér ógrynni hljóm­platna. Það var eftir­tekt­arvert að hann virtist alltaf njóta þess jafn vel að koma fram og syngja, flytja áheyr­endum í tónum og tali einhvern boðskap sem oftar en ekki var bæði jákvæður og upplífgandi. Árið 2013, þegar Ragnar var 79 ára að aldri, sendi hann frá sér hljóm­plötuna Falleg hugsun. Þar er meðal annars að finna lag eftir tónlist­ar­manninn Jón Jónsson og þessir tveir jákvæðu og glæsilegu fulltrúar tveggja kynslóða Íslendinga samein­uðust þar um að flytja okkur einfaldan sannleik sem hljóðar svona.


Það hvessir, það rignir,

en það styttir alltaf upp og lygnir.

Við skulum minnast þessara orða í hvaða þreng­ingum sem framundan kunna að vera og þegar styttir upp og lygnir skulum við sem fyrr koma saman til fundar. Þangað til vinnum við heima.

Að lokum bræður mínir, “Veldu þakklæti, þakklæti fyrir allt það sem þú hefur. Líka þakklæti fyrir alla litlu hlutina í lífi þínu. Hættu að einblína á það sem þú hefur ekki, einbeittu þér að því sem þú hefur og þá muntu fá meira, eigum gleðilegt líf.

Brl.kv. Stm. Vöku.
Jens Davíðsson

Brl.kv.  Rm. Vöku.
Stefán Bogi Sveinsson

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?