Kæru bræður.
Við göngum nú í gegnum erfiða tíma og fordæmalausa í alþjóðasamfélaginu. COVID-19 faraldurinn setur okkur í þá stöðu að allt okkar Reglustarf er í uppnámi eins og önnur samskipti fólks. Íslensk yfirvöld hafa borið gæfu til að halda áhrifum farsóttarinnar í lágmarki, með takmörkunum á samskiptum okkar í samfélaginu. Frímúrarareglan á Íslandi fer að sjálfsögðu sem ætíð fyrr í einu og öllu að íslenskum lögum og reglum og félagsstarf okkar tekur mið af þeim lögum og reglum sem hér gilda hverju sinni.
Öllu Reglustarfi var aflýst þann 11. mars síðastliðinn og hófst ekki að nýju fyrr en þann 6. ágúst með Stórhátíð eins og kunnugt er. Kröfur um sóttvarnir eru í stöðugri endurnýjun og leiða því til þess að við þurfum í sífellu að endurskoða okkar möguleika á hefðbundnu stúkustarfi. Ekki sér enn fyrir endan á kröfum um strangar sóttvarnir.
Eins og staðan er í dag, þá er reiknað með að GÞ fundurinn verði fimmtudaginn 3. september, en eins og bræðurnir vita, þá markar sá fundur ætíð upphaf almenns stúkustarfs að hausti hverju sinni. Vegna þeirra takmarkana sem í gildi eru vegna sóttvarna, þá vinna Stólmeistarar Jóhannesar- og Andrésarstúknanna að tillögum að því með hvaða hætti við getum hafið okkar starf að nýju í kjölfar GÞ fundarins, allt innan þeirra reglna sem í gildi eru og verða. Tilkynningar um framhald starfa sem og allar breytingar verða kynntar á heimasíðu R. svo fljótt sem verða má hverju sinni.
Von mín er að innan fárra daga liggi fyrir tillögur um með hvaða hætti við getum hafið störf, einnig að við finnum og virkjum leiðir til að nálgast þá bræður sem ekki eiga möguleika á að vera í nánum samskiptum við aðra. Það er ákaflega mikilvægt að sú mannrækt sem við stundum hér verði áfram iðkuð af bræðrunum með eða án hefðbundinna stúkustarfa. Þar vil ég sérstaklega nefna heimsóknir í bókasöfnin í Regluheimilinu og stúkuhúsunum tólf á landinu öllu.
Bræður mínir. Saman munum við sigrast á þessum erfiðleikum og við eigum að nýta reynsluna af þeirri baráttu til vaxtar og eflingar okkar einstaka félagsskapar, sem hefur það fallega markmið að göfga og bæta mannlífið. Að efla góðvild og drengskap með öllum mönnum og auka bróðurþel þeirra á meðal. Þegar við höfum sigrast á óværunni komum við til starfa af eldmóði og bróðurhug.
Reykjavík 28. ágúst 2020
Kristján Þórðarson SMR