Páska­hug­leiðing fyrir Fjölni 2019

Höfundur Sr. Magnús Björn Björnsson

Framundan eru páskar, er við minnumst upprisu meist­arans frá Nasaret. Hann þurfti að þola mikla háðung, niður­lægingu og þjáningu af böðlum sínum. Föstu­daginn langa var hann negldur sem níðingur á kross. Á páska­dags­morgni ætluðu nokkrar konur að smyrja jarðneskar leifar hans, en þær fundu aðeins tóma gröf. Páska­sólin reis í austri og lýsti inn í tómu gröfina, en um leið lýsti hún upp nýjan og breyttan heim.

Í austri rís upp ársól skær,
í austri sólin, Jesús kær,
úr steinþró djúpri stígur,
sú páska­sólin björt og blíð,
er birtist öllum kristnum lýð
og aldrei aftur hnígur.
Jesús, Jesús,
sigu’r er unninn, sól upp runnin
sannrar gleði
vina þinna grátnu geði.

(Valdimar Briem, Sálma­bókin 148)

Allt hafði breyst því Kristur hafði sigrað dauðann. Hinn hæsti höfuðsmiður himins og jarðar endur­lífgaði son sinn og gaf okkur sigur­hátið. Sigur yfir dauðanum, syndinni og öllu veldi hins illa.

Sigur­hátíð sæl og blíð
ljómar nú og gleði gefur,
Guðs son dauðann sigrað hefur,
nú er blessuð náðartíð.
Nú er fagur dýrðar­dagur,
Drottins hljómar sigurhrós,
nú vor blómgast náðar­hagur,
nú sér trúin eilíft ljós.

Þannig syngur kristin kirkja að morgni páskadags. Hún fagnar sigri Guðs sonar yfir dauðanum. Hún gleðst yfir því, að sá sem dæmdur var saklaus til dauða og kross­festur milli tveggja ræningja, hefur lifnað við. Upprisan, tóma gröfin og það að Jesús birtist fylgj­endum sínum, færði þeim sönnur á að það sem hann hafði sagt um sjálfan sig var satt og rétt.

„Nú sér trúin eilíft ljós”, yrkir séra Páll Jónsson, í páska­sálmi sínum. (Sálma­bókin 147)

Það er hverju orði sannara. Hið eilífa ljós kemur frá þeim sem sagði um sjálfan sig: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins. (Jóh. 8:12)

Megi Jesús Kristur, hin sanna páskasól, lýsa þér og þínum. Gleðilega páska!

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?