Örlítið um heimspeki, skynjun og vitund

Erindi br. Lárusar Ingólfs­sonar Rm

„Sumir sem uppgötva í bernsku óskilj­an­leika heimsins verða aldrei samir eftir.“
Páll Skúlason

Í æsku minni þá er ég var komin svo langt, að ég hugsaði með orðum, spurði ég sjálfan mig, af hverju það mundi vera: að ég var ég, en ekki einhver annar, að ég var núna, en ekki einhvern tíma áður, og að ég var hér, en ekki einhver staðar annar­staðar. Mér hvarflaði jafnvel sú spurning í hug: Skyldi ég vera ætlaður til einhvers sérstaks og því vera svona einkenni­legur? Slík spursmál ráku hvert annað hjá mér. Og þó vissi ég vel, að svar upp á þau var hvergi að fá.
Ekki bar ég þetta mál undir álit nokkurs manns, ekki einu sinni móður minnar; var ég þó annars vanur að segja henni hvað eina sem mér lá á hjarta. En bæði fann ég, að ég gat ekki gjört mig skilj­an­legan um þetta efni, og líka var mér ljóst, að enginn gat skýrt það fyrir mér.

Þetta sem hér er skrifað er tilvitnun í Brynjúlf Jónsson frá Minna–Núpi sem fæddur var árið 1838, en þannig kemst hann að orði í bók sinni: Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna.

Þetta rit Brynjúlfs er af mörgum talið eitt frumlegasta og markverðasta rit sem íslenskur heimspek­ingur hefur skrifað. Það er tilraun heimspekilega hugsandi alþýðu manns til að svara grund­vallar-spurn­ingum mannlegrar tilveru með rökhugsun og því að sannreyna. Og fyrstu spurn­ing­arnar sem hann glímdi við voru: hver er ég og til hvers er ég, og seinna spyr hann líka hvert stefnir eða hvað tekur við? Í bók sinni fetar Brynj­úlfur sig skref fyrir skref, frá sinni eigin vitund yfir í náttúruna, þaðan til hugmyndar um sköpun heimsins og síðan til þess sem skapar.

Þú ert allstaðar þú, samt hvergi sá sami.

Við bræðurnir hér í Reglunni hugsum um spurn­inguna fornu, „hver er ég“ og hugsanlega höfum við orðið fyrir svipaðri reynslu og þeirri sem Brynj­úlfur lýsir í upphafi sögu sinnar. Ef til vill spyrjum við: Hvaðan komum við og hvernig gerum við okkur ljóst að heimurinn er ekki hugar­burður okkar og að við séum raunveruleg til sem hugsandi verur
Með öðrum orðum: Hvað vitum við með fullri vissu um okkar eigin vitund og veruleik
Guð skapar, hugur mannsins skapar, sálin skapar.

Heimur okkar er það sem við skynjum hverju sinn, og ævinlega bundin við stað og tíma. Við erum vitund, en vitundin breytist og það breytir heiminum. Takmark mannsins er að rísa upp fyrir það sem hann er . . eða heldur að hann sé, vaxa út fyrir og upp yfir sjálfan sig ef svo mætti segja. Vitund er aldrei ein og sér, hún er ævinlega tengd öllum öðrum vitundum. Samt eru viðfangsefni hennar og skynjun ævinlega afmörkuð þangað til fyrirbæri sem nefnt hefur verið vitund­ar­víkkun á sér stað. Þá fær vitundin ný viðfangsefni og nýjan sjóndeild­ar­hring og nýja skynjun, nýjan himin og nýja jörð.

Þessar hugmyndir sem hér eru tíundaðar eru komnar úr smiðju Forn-Grikkja eða hellen­ískrar heimspeki og eru tengdar hugleið­ingum heimspek­ingsins Plótínusar sem fæddur var árið 205. Hugsun hans þróaði hinn „mystíska“ þráð í kenningum Platós. Sú stefna var síðar nefnd nýplatónismi og hafði djúpstæð áhrif á hugmyndir kirkj­unnar á miðöldum og allt fram á okkar dag. Enda spretta til að mynda kristnar dyggir úr orðræðu hellen­ískrar heimspeki; „kristnir menn eigi að feta hinn guðlega meðalveg Arist­ótelesar, gæta hófs í öllu og öðlast að lokum hlutekn­ing­ar­leysið, hina stóísku ró“. (Klemens frá Alexandríu)

Platonismi eða nýplatónismi er heimspeki forngríska heimspek­ingsins Platóns en þó einkum eins og hún var í meðförum eftir­manna hans. Platon sem fæddur var um 472 f.o.t, er einn áhrifa­mesti hugsuður sögunnar. Hann var nemandi Sókra­tesar og kennari Arist­ótelesar.

Plató er hvað frægastur fyrir kenninguna um frummynd­irnar, en sú kenning hefur haft meiri áhrif en flestar ef ekki allar vestrænar heimspeki kenningar. Enda liggja rætur hennar djúpt. Hún vex t.a.m. upp af dulspeki Pyþagórasar, leit Sókra­tesar að algildum hugtökum og snilli Platons, og nær mun lengra og dýpra en hægt er að fjalla um hér í stuttri ritgerð.
Kenningin um frummynd­irnar fyrir­finnst meðal annars í táknmáli frímúrara. Dæmi um það eru skrefin þrjú frá vestri til austurs yfir tákna­töfluna í stúku­salnum.
Þótt hugmyndir okkar mannanna um hin innstu rök tilver­unnar séu æfa fornar og finnist hvarvetna í einni eða annarri mynd, þá er af mörgum talið að samfelld heimspekileg hugsun í okkar vestræna samfélagi hefjist fyrst með Forn-Grikkjum u.þ.b. 600 árum f.o.t. En það má líka sjá að Grískir heimspek­ingar gengu í smiðju Babýlon­íu­manna og Egypta sem leiddi svo af sér að hugmyndir og spurn­ingar þessara fornu menninga þjóða hafa haldið áfram í fræði­legum röksemda­færslum grískrar sem og vestrænnar heimspeki. Enda spurn­ingar mannsins gegnum aldirnar tengdar „sannleikanum“ nokkuð líkar í grund­vallar atriðum .

Í Britis Museum er geymdur egypskur steinn frá 8. öld f.o.t. sem varðveitir mjög máð afrit af helgi­ritinu “Memfins sjónleik­urinn” en hann skrifuðu Egyptar um það bil 2500 árum f.o.t. Í þessu verki er viðfangs­efnið hver maðurinn er, eða leitin að hinum innstu rökum tilver­unnar, þess sem allt er komið frá og spurt er: HVAÐ VAR FYRST?. HVAÐ ER ÞAÐ SEM ALLT ER KOMIÐ FRÁ? (Hver er ég? Hvað er það sem allir hlutir eru komnir frá og er í öllum hlutum, þar sem tilveran er ein heild?)

Og nálægt 2000 árum seinna eða um 600 f.o.t. er þessi sama spurning höfuð­við­fangsefni Þalesar frá Miletos í Litlu-Asíu sem sagður er fyrsti gríski heimspek­ing­urinn. En með Þalesi tók maðurinn fyrsta skrefið frá mythos til logos . .- frá goðsögn til rökhugsunar. Og Þales leitaði á sama hátt og Brynjúlf frá Minna–Núpi gerði liðlega 24 öldum síðar, . . rökréttra skýringa á dýpsta eðli veruleikans.

. . . að heimurinn er ekki hugar­burður okkar?

Löngu fyrir okkar tímatal töldu hugsuðir Forn-Grikkja að heimur okkar væri það sem við skynjum hverju sinn og ævinlega bundnar stað og tíma. Vitundin breytist og það breytir heiminum. Takmark mannsins er að rísa upp fyrir það sem hann er eða heldur að hann sé, vaxa út fyrir og upp yfir sjálfan sig. Þetta er þróun­ar­ferli sem að lokum á að leiða til hins eina,

„. .að ég var ég, en ekki einhver annar; að ég var núna, en ekki einhvern tíma áður, og að ég var hér, en ekki einhver staðar annar­staðar.“

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?