Eins og við þekkjum þá er tímatal aðferð mannsins til þess að skrásetja atburði í tíma. Til þess setjum við atburði upp í t.d. tímaás og skoðum atburði þannig í samhengi og skiptum atburðum upp í hópa og köllum tímabil og/eða ár.
Sum ár hafa átt erfiða tíð. Á síðustu öld má nefna þau ár sem afmörkuðu heimsstyrjaldirnar tvær. Þau voru sannarlega þungbær og harmþrungin. Siðmenning og manngæska áttu undir högg að sækja og það tók dágóðan tíma að rétta úr kútnum á ný.
Þegar litið er til þessarar aldar stendur eitt ár upp úr enn sem komið er. Árið 2020. Það ár hefur örugglega ætlað að marka sín spor í mannkynssöguna til góðs, enda bæði þægilegt í sjón og heyrn. Reyndin varð önnur. Það reyndist heimsbyggðinni allri einstaklega þungbært og ýmis miður falleg orð voru látin falla þegar um það var rætt.
En gleymum ekki einu.
Þetta er árið sem margt fólk fann stóru ástina og hjá sumum mun hún halda ævina út. Þetta er árið þar sem 4.452 börn komu í heiminn og voru alveg jafn falleg og yndisleg og börn fyrri ára. Þetta var árið þar sem við Íslendingar, sem stundum getum verið sundurlyndir og þrasgjarnir, stóðum saman sem einn maður, og sýndum ótrúlegt hugrekki og samstöðu sem lengi verður minnst. Og þetta er árið þegar bóluefnið var fundið upp á undraskömmum tíma. Allir lögðust á eitt og sigur vannst. Og þetta var árið þegar við frímúrarar, þrátt fyrir alls konar fyrirstöður, nutum “samvista” með algjörlega nýjum hætti.
Við skulum ekki tala illa um þetta ár sem nú er liðið. Það kenndi okkur ótal margt sem við munum vonandi nota inn í framtíðina. Og þó að því væri vegið á ýmsa lund, reyndi það eftir bestu getu að standa sig í stykkinu og sýndi ótrúlegan dugnað og hugrekki. Og við öll vorum hluti af þessu ári og lögðum okkar lóð á vogarskálina. Það vorum við sem vorum hetjurnar sem árið 2020 skóp. Gleymum því aldrei.
Við bræður í vefnefnd Fjölnis ákváðum í upphafi starfsársins á síðasta ári, að skrifa vikulega pistla á upphafssíðunni hjá stúkunni okkar, óháð því hvort það yrðu fundir eða ekki. Þetta var okkar leið til að tengjast bræðrum og reyna eftir bestu getu að brúa bilið, þar sem ekki var hægt að njóta hefðbundins frímúrarstarfs.
Og nú í lok þessa starfsárs höfum við skrifað 26 pistla. Þeir urðu jafn mismunandi eins og þeir voru margir, en allir innihéldu þeir ákveðin skilaboð sem tengja má því einstaka starfi sem Reglan hefur látið okkur í té.
Það er von vefnefndarinnar að Fjölnis-bræður hafi haft jafn mikla ánægju af lestri þessara pistla eins og vefnefndarbræður höfðu af því að skrifa þá. Ef svo er, þá hefur takmarkinu verið náð.
Ingvar Sigurður Hjálmarsson