Mímir fundar á I° – heimsókn frá Gimli

Góða gesti ber að garði

Mánudags­kvöldið 24.febrúar fundaði St.Jóh.St.Mímir á I°. Það var tilhlökkun í bræðrunum þar sem St.Jóh.St.Gimli hafði boðað komu sína í heimsókn en fundar­dagar stúknanna beggja eru mánudagar og nefna Mímis- og Gimli­bræður hvora aðra jafnan „hálf-bræður“ í góðu gamni.

Tæplega 100 bræður sátu fundinn og þar af voru á fjórða tug gesta sem komu víða að. Einn R&K – „Jarlinn af Sandgerði“ heiðraði okkur með nærveru sinni, sem er alltaf ánægjulegt.  Fór fundurinn vel fram í alla staði og allar embætt­is­færslur til fyrir­myndar og stóðu embætt­ismenn sig með sóma, sérstaklega þá br.V sem var að þreyta frumraun sína og gerði það með miklum myndugleik. Vararæðu­meistari flutti áhugavert erindi og Söngstjóri lék ljúfa tóna.

Að fundi loknum settust bræður saman að bróður­máltíð og nutu nærveru hvers annars. Það er bæði ánægja og heiður að fá svo góða gesti í heimsókn sem Gimli­bræður og aðrir eru. Yfir borðhaldi hélt Stm.St.Jóh.St.Gimli br.Hallmundur Hafberg tölu og kom m.a inn á það hve mikilvægt er fyrir bræður á fyrstu stigum – og raunar öllum stigum – að heimsækja aðrar stúkur. Bæði til þess að nýta þann mikilvæga tíma sem við gefum okkur til stúku­starfsins og festa hann í sessi svo og að virða fyrir okkur blæbrigðamun stúknanna. Að lokinni máltíð og söng settust bræður saman og drukku kaffisopa áður en haldið var heim á leið. Góð og gefandi kvöld­stund rann sitt skeið, gleði, vinátta og bróðurþel jókst með samfélagi bræðranna og fyrir það erum við þakklátir.

Næsti fundur í stúkunni Mími verður mánudaginn 2.mars og er hann á III°. Eru allir bræður sem stig hafa til hvattir til þess að mæta.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?