Liprir pennar. Heilagar tölur, sóttkvíar og Jónshús í borginni við Sundið

Þóra Stein­gríms­dóttir sem nú dvelur við fræðistörf í Jónshúsi í Kaupmannahöfn, skrifar áhuga­verða grein í Lækna­blaðið um orðið sóttkví. Hvaðan orðið er komið og hvernig það er samansett. Vefnefnd Fjölnis tók sér það bessa­leyfi að birta hluta grein­ar­innar, bræðrum til ánægju og fræðslu.

Orðaforði og dagleg orðanotkun okkar tekur vitanlega breyt­ingum í takt við atburði líðandi stundar. Orðið sóttkví heyrist örugglega þúsundfalt oftar þessa dagana, á tímum stökk­breyttu kórónu­veirunnar og COVID-19, en áður.

En hvaðan er orðið komið? Nýyrði hefur það einhvern tíma verið, en höfundur þess er mér ókunnur. Víst er að orðið er samsett úr sótt og kví. Í bændamáli er kví lítil rétt þar sem fráfæruær voru hafðar og þær mjólkaðar, aðskildar frá lömbum sínum. Mjólkina skyldi þá nýta til manneldis en lömbin voru tekin undan og máttu bjarga sér sjálf. Oft voru þetta bráða­birgða­kvíar sem hægt var að minnka og stækka eftir þörfum; þaðan er orðatil­tækið „að færa út kvíarnar“ komið.

Íslenska orðið sóttkví er ekta nýyrði og alls ekki bein þýðing á erlendu orðunum sem notuð eru í granntungu­málunum. Fyrir­bærið nefnist karantæne á dönsku og á ensku quarantine, komið af ítölsku orðunum quaranta giorni = fjörutíu dagar. Quaranta er upprunalega komið af latneska töluorðinu quadraginta = fjörutíu og vísa þessi orð þannig til lengdar kvíar­tímans frekar en tilgangsins.

Eitthvað vissu sæfarar um sóttir og gildi einangrunar þegar á 14. öld þegar sagt er frá þeirri tilskipun í Feneyjum að áhöfn héldi sig um borð við bryggju í 40 daga í þeim skipum sem sigldu frá löndum þar sem sótt hafði geisað. Quarantine var einnig þekkt í annarri merkingu í ensku; quarantine voru þeir 40 dagar sem ekkju var heimilt að dvelja í húsi látins eigin­manns, óháð erfða-rétti.

En ef til vill var hin fyrsta kví sem komst á spjöld sögunnar sú er Jesús fastaði í 40 daga og 40 nætur í eyðimörkinni og stóðst allar freist­ingar Satans. Biblían býður upp á fleira í þessu sambandi: Móses dvaldi 40 daga á fjallinu og tók við boðorðunum 10. Í því sama riti er puerperium skilgreint í 40 daga, frá fæðingu þar til móðirin er orðin söm. Þar er reyndar talað um að hún verði hrein, en við skiljum það eftir okkar höfði. Þessi tímamörk eru lífseig; enn miðum við margt við 40 daga eða 6 vikur í lífeðl­is­fræðilega ferlinu eftir fæðingu.

Greinina í heild sinni má lesa með því að smella hér

 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?