Lausn 28 ára gamals leynd­armáls loks fundin

Svarið opinberað sunnu­daginn 3. febrúar nk.

Fundurinn á meðbræðra­stiginu sem haldinn var 29. janúar var einstaklega glæsi­legur. Þar ófust saman einstakur texti, söngur og tónlist í hæsta gæðaflokki. Og þeir voru 68 bræðurnir sem nutu þessa fundar.

Rm. hélt erindi og ræddi m. a. um leiðar­stjörnuna og hlutverk hennar á þessu stigi. Þar komu fram hugrenn­ingar sem glöddu og kölluðu fram gildi sem hverjum frímúrara er hollt að ryfja upp.

Í ávarpi til meðbræðra við bræðra­mál­tíðina voru bræður minntir á að þetta stig væri stig vináttu og bræðralags. Einnig minnst á að sönn vinátta hefði áhrif til hins betra varðandi lífslíkur og ævilengd. Líkt og að gæta vel að sér varðandi mat og drykk. Margir bræðranna urðu nú kindar­legir í framan þegar þetta var nefnt. Litu á sína diska, en þar var að finna mikið úrval af þorramat og smá aukahressingu í glasi þess utan. Því kokkurinn hafði töfrað fram þorramat af bestu gerð sem við gerðum góð skil.

Við bræðra­mál­tíðina tók Guðmundur Kr. Tómasson til máls og lét þess m. a. getið að hann hefði sl. 28 ár leitað að svari við spurningu sem tengist ákveðnum frímúr­ara­fræðum. En einmitt á þessum fundi hefði svarið skyndilega birst honum sem hugljómun. Hann lét þess jafnframt getið að hann myndi opinbera svarið nk. sunnudag, 3. febrúar, þegar hann flytur fræðslu­erindi sitt um þagmælskuna, sem er fyrsta af fjórum erindum um dyggðir frímúrara.

Þeim mun meiri ástæða til að koma á kynninguna á sunnu­daginn og vera í hópi þeirra fyrstu sem fá í hendur þetta svar. Látið ekki happ úr hendi sleppa.

Einar Kristinn Jónsson í fræðslu­nefnd Fjölnis lét þess einnig getið að sunnu­daginn 24. febrúar yrði fræðslufundur um II°. Í þetta sinn standa fjórar stúkur að þessum fræðslufundi. Þ. e. Gimli, Mímír, Fjölnir og Glitnir. Þetta er fundur sem enginn má missa af og síst þeir sem að undan­förnu hafa verið að ferðast á meðbræðra­stigið. Frekari upplýs­ingar um fræðslufundinn verða sendar út fljótlega.

Kvöldinu lauk með kaffi og konfekti sem Sm. töfraði fram, enda þekktur alkemisti. Og síðan héldu bræður heim með magafylli af mat og hugar­fylli af minningum sem fundurinn skildi eftir.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?