Heilbrigð­is­ráðu­neytið gefur út nýja reglugerð sem tók gildi 10. maí 2021 Sjá nánar.

Kveðjan

Erindi br. Bjarna Rafnar Össur­ar­sonar

Í dag ætla ég að ræða heilsu og vellíðan karlmanna eins og okkar sem hér sitja í kvöld. Eða nánar tiltekið langar mig að ræða hvaða þættir í lífi okkar stuðla sterkast að vellíðan og heilsu­hreysti. Þetta er æði flókið efni og yfirgrips­mikið. En örvæntið ekki bræður mínir – niður­staðan er furðu skýr.

Fyrst skal nefna að það hafa verið gerðar mjög margar rannsóknir á mannfólkinu, þar sem bornir eru saman hópar með mismunandi eigin­leika eða hegðun. Þannig vitum við um alls konar þætti sem hafa tengingu við líðan og heilsu. Þeir sem hreyfa sig reglulega eru líkamlega og andlega betur settir en kyrrsetufólk. Við eigum ekki að reykja og drekka of mikið. Passa upp á blóðþrýst­inginn. Og svo famvegis – listinn er langur.

Vandinn við þessar rannsóknir er í fyrsta lagi að þær geta illa sagt okkur hvað er orsök og hvað er afleyðing. Segjum að giftir menn séu glaðari en ógiftir. Eru þeir glaðari af því að þeir eru giftir eða eru meiri líkur á að glaðir menn gifti sig?

Í öðru lagi eru margskonar þættir sem tengjast saman og geta ruglað niðustöð­urnar. Segjum að hjónaband geri okkur glaðari. Er kannski eitthvað annað sem tengist hjóna­bandinu sem veldur þessu? Giftir menn eiga t.d. tengda­mæður…… Þið skiljið hvað ég er að fara.

Að lokum er vandasamt að meta hvað skiptir mestu máli, hvað á maður að leggja mesta áherslu á.

Til að komast í kringum þessa vankanta þarf því að gera öðruvísi rannsókn, það er fylgja eftir hópi manna í langan tíma, hreinlega í gegnum allt lífið. Skilj­anlega er þetta ekki auðvelt en mig langar að segja ykkur frá niður­stöðu merki­legrar vísinda­rann­sóknar þar sem þetta var einmitt gert.

Rannsóknin hófst árið 1938 við Harvard Háskólann í Boston í Banda­ríkjunum og stendur enn. Í byrjun var rannsókn­ar­hóp­urinn 724 menn, 19 ára gamlir. Helming­urinn var nemendur úr háskólanum og hinn helming­urinn úr fátæku hverfi í Boston. Allt frá 1938 hefur rannsókn­art­eymið safnað víðtækum upplýs­ingum um líf og heilsu þessara manna á tveggja ára fresti. Rætt er við mennina sjálfa, fjölskyldur þeirra og fylgst með sjúkra­skrám.

Og niður­staðan? Jú að meðaltali er klárlega betra að reykja ekki og drekka lítið. Og svo framvegis. En það reyndist einn þáttur miklu mikil­vægari en allir hinir. Niður­staðan er þessi: Góð tilfinn­inga­sambönd við annað fólk leiðir sterkast af öllu til heilbrigðis og hamingju.
Góð tilfinn­inga­sambönd við annað fólk leiðir sterkast af öllu til heilbrigðis og hamingju.

Við nánari athugun kom í ljós að það var ekki endilega fjöldi tilfinn­inga­sam­banda sem skipti máli heldur gæði þeirra. Vinátta, væntumþykja og traust til annarar manneskju eykur ekki bara vellíðan heldur verndar hreinlega líkamann, þar með talið heilann. Vert er að geta að það þarf ekki alltaf að vera logn og blíða í slíku sambandi – margir í rannsókninni rifust og tuðuðu t.d. við maka sinn af miklum krafti. En slíkt skiptir ekki máli ef tilfinn­ingalega tengingin er djúp í grunninn og fólkið getur treyst hvort á annað þegar virkilega reynir á. Í beinu framhaldi kom í ljós að einmana­leiki er gífur­legur heilsu­spillir. Einmana menn missa líkamlega og andlega heilsu miklu fyrr en hinir.

Þessi uppgötvun hefur leitt til frekari rannsókna síðustu 20 ár, ekki síst þar sem einmana­leiki er talinn vaxandi vandi í hinum vestræna heimi. Samgangur og samvera milli kynslóða hefur minnkað með breyttum búsetu­venjum. Félagslíf hefur breyst og samvera minnkað m.a. með tilkomu afþrey­ingar í heima­húsum og samskiptum um skjái. Þannig hefur sýnt sig að fólk getur verið einmana þó það eigi í samskiptum við marga, ef tengingin nær ekki á dýptina. Ótal neikvæðir heilsu­far­legir þættir hafa nú verið tengdi einmana­leika t.d. hjarta og æðasjúk­dómar, þunglyndi og heila­bilun.

En hvernig gerist þetta? Hvernig má það vera að tilfinning, einmana­leiki, tengist svona sterkt við líkamlega heilsu? Svarið er, allavega að hluta til, tengt því að manneskjan er hópvera. Það þýðir að þróun­arlega reiðum við okkur á hópinn til að auka líkur á að við sjálf og afkom­endur okkar lifi af. Tilfinn­ingaleg tenging bindur saman hópinn. Tilfinn­ingaleg tenging leiðir til samkenndar og óeigingjarnrar hegðunar gagnvart öðrum í hópnum, hjálpar þannig hópnum og um leið manni sjálfum. Eins og þeir segja í Afríku: „Það þarf heilt þorp til að ala upp barn“.

Utan hópsins er maður hins vegar berskjaldaður. Þá þarf maður að sjá um sig alveg sjálfur og verjast hættum einn. Við þetta eykst spennustig og margs konar lífeðl­is­fræði­legar breyt­ingar fara af stað. Svefn skerðist, maður þarf að vera á verði. Svo kallað stress­hormón hækkar og veldur langvarandi bólgu­svörun og hækkuðum blóðþrýstingi. Og svo framvegis. Einmana­leiki hefur sem sagt víðtækar líffræði­legar afleyð­ingar sem til langs tíma valda okkur heilsutjóni.

En hver eru þá ráðin frá vísinda­mönnum Harvard? Mikil­vægast af öllu er að leggja rækt við vini okkar og fjölskyldur. Þar með talið tengda­mömmur. Gefa okkar nánustu tíma. Gefa þeim athygli okkar og þjónustu. Rétta út hönd til þeirra sem þarfnast. Og allir nærast.

Og hvernig passar þessi vitneskja við boðskap Reglunnar okkar? Hingað erum við komnir til að bæta okkur, reyna að verða betri menn. En reglan áréttar skýrt skyldur okkar við fjölskyldur, vini og aðra bræður. Betri menn verðum við aðeins í samhengi og samstíga við okkar nánustu.

Það má segja að í reglu­starfinu sé efnivið­urinn hin aldagömlu fræði Reglunnar sem við kynnumst smám saman. En tækin eru trúin og vináttan. Innan þessa veggja mætum við bræðrum okkar á jafnrétt­is­grund­velli og með opin hjörtu. Við hnýtum traust og sterk vinabönd sem við svo framlengjum og byggjum á í hinum ytri heimi.

Reglan og hin ytri vísindi – ég heyri samhljóm.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?