Innsetningu nýskipaðs Stm. Fjölnis lokið

152 bræður mættu til að upplifa athöfnina

Það var eftir­vænting í lofti þegar brr. mættu á fund Fjölnis á fyrsta stigi 21. febrúar, enda stóð fyrir dyrum innsetning á nýjum Stm. stúkunnar. Fullt var út úr dyrum í orðsins fyllstu merkingu og mættu 152 bræður til að upplifa athöfnina, þar af 43 gestir. SMR og fylgd­arlið hans mætti ásamt Stm. annarra Jóhannesar- og Andrés­ar­stúkna. Í hópi brr. voru allir fyrrverandi Stm. Fjölnis nema Guðni Jónsson sem ekki átti heiman­gengt.

Leópold Sveinsson er sjöundi Stm. stúkunnar Fjölnis. Hann þakkaði fyrir öll þau hlýju orð sem til hans voru töluð og þá velvild sem bræður hafa sýnt honum undan­farna daga. Leó, eins og hann er kallaður dags daglega, sagði að það yrði ekki létt verk að feta í fótspor fyrrverandi Stm., bróður Stefáns Snæs Konráðs­sonar, en það auðveldaði áskor­unina að hann tæki við mjög góðu búi. Færði hann þakkir til Stefáns fyrir mikið og óeigingjarnt starf fyrir stúkuna og bræðurna s. l. fimm ár.

Leó lagði út frá því að orðið „embætti“ væri dregið af orðinu „ambátt“ sem þýðir þjónn. Hann myndi þjóna Fjölni í anda þeirra hornsteina sem lagðir hafa verið af sporgöngu­bræðum Fjölnis. Stm. greindi frá því að engar breyt­ingar yrðu hjá embætt­is­mönnum stúkunnar fram að lokafundi í vor.

Bræðurnir Ólafur William Finnsson og Sigurður Hafsteinsson spiluðu og fluttu m.a. eitt af uppáhalds­lögum Leós, „Það brennur“ eftir Egil Ólafsson.

Undir borðum voru flutt mörg ávörp og þar á meðal árnað­ar­óskir frá Fenris­fé­lögum en Leó var fyrsti formaður klúbbsins. Stm. bað fyrir „burrandi“ þakklæti til Fenris­bræðra.

Maturinn var þess eðlis að fyrir hann mátti einnig þakka. Lungnamjúkur þorskur á risottobeði og grænmeti í öllum regnbog­anslitum nema bláu og í eftirrétt fengu brr. heima­til­búinn ís með hindberjasósu ásamt franskri súkkulaðiköku með rjóma.

Nýr kafli hefur verið skráður í sögu Fjölnis.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?