Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 19. október Sjá nánar.

Í tilefni lokafundar í kvöld sem ekki var haldinn

Bræður mínir. 

Svona týnist tíminn. Þessi sérkennilegi vetur er liðinn ótrúlega hratt og komið sumar samkvæmt dagatali á fimmtu­daginn. Lokafundur okkar þetta einkennilega starfsár átti að vera í kvöld. Fyrir mig var þetta sérstakur, spennandi og ánægju­legur vetur. Starfið hefur verið frábært og gefandi. 

Sjö nýir öflugir bræður bættust í okkar sterku bræðra­keðju. Bræður Jóhann­es­arstiganna eru eins og áður óvenju góður og glæsi­legur hópur og væntum við mikils af þeim í framtíðinni sem og öllum öðrum bræðrum. Bræður sem gengdu aðal- og varaembættum í vetur stóðu sig með einstakri samviskusemi og prýði. Ég er sérlega ánægður með störf nefndar ungbræðra sem einstaklega vel hefur sinnt bræðrum Jóhann­es­arstiganna og haldið utan um þá. Nefndin hefur stuðlað að fræðslu í hinni Konunglegu íþrótt og um starfið í stúkunni og Reglunni, séð um að tekið sé vel á móti nýjum bræðrum og kynnt þá inn í bræðra­hópinn. Þá hefur hún skipulagt heimsóknir í aðrar stúkur og á viðburði Reglunnar og annað sem að gagni kemur við hópmyndun þessara bræðra. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá hve ungbræður hafa náð vel saman undan­farin ár og myndað góð bræðra- og vinatengsl. 

Fundarsókn í vetur var mjög góð og sjaldan hafa fleiri Hamars­bræður hlotið frömun á einum vetri. Jólafundur okkar var einstaklega hátíð­legur og góður með met aðsókn. Systra­kvöldið seldist upp og var þannig einstaklega vel sótt og sjaldan verið fleiri á þeirri hátíð. Heppn­aðist það sérstaklega vel á allan hátt og dansað var fram á nótt. 

Starf næsta árs lýtur glæsilega út og stefnt er að því að bæta í bræðra­hópinn 7 nýjum bræðrum. Fjórar umsóknir eru komnar og 12 umsóknir eru í farvegi og fleiri hafa áhuga þannig að ef þær umsóknir skila sér þá höfum við fyllt næstu tvö starfsár. 

Í vetur minntumst við okkar skoska bróður Róbert Burns með Burns­kvöldi þar sem lög hans voru leikin og bróðir Bjarni Atlason söng þau frábærlaga vel á skosku. Erindi um bróður Burns var flutt og við fengum ekta haggis frá Edinborg í matinn ásamt smá vískísopa. Var þetta einkar vel sóttur fundur og ánægju­legur að allra mati. 

Við fengum einnig heimsókn frá góðum enskum bróður, Tony Harvey, sem flutti okkur erindi um Lord Robert-Baden Powell stofnanda skáta­hreyf­ing­ar­innar. Erindið var hluti af Prest­onian fyrir­lestri hans sem nefnist: Scouting and Freema­sonry: two parallel organ­isations? Í tilefni þessa voru sungin skátalög á fundinum sem 2/3 þeirra sem sóttu fundinn voru eða höfðu verið skátar nutu sérstaklega vel. Fyrrum skáta­höfðingi bróðir Ágúst Þorsteinsson gladdi okkur með komu sinni sem og skátinn síkáti og biskupinn sr. Kristján Björnsson SÆK. 

Við byrjuðum starfið að vanda í janúar á vinafundinum sem var einkar vel sóttur þrátt fyrir ófærð og læti í veðri. Kótelettufund­urinn vinsæli laut í lægra haldi fyrir COVID en við fáum ef til vill tvöfaldan kótelettu­skammt á næsta starfsári í sárabót. 

Daginn eftir síðasta upptökufund okkar 10. mars var öllu starfi Reglunnar frestað þannig að við náðum ekki að halda okkar II°-fund, páskafund, tónlistarfund né lokafund og er í dag óvíst hvert framhaldið verður. Í stað páska­fundar var páska­hug­vekju streymt úr Víðistaða­kirkju þar sem bróðir Bjartmar söng við undirleik bróður Hákons Leifs­sonar. Við tendruðum páska­ljósið á venju­bundinn hátt ásamt því að lesin var píslar­sagan og sr. Kristján Björnsson SÆK ávarpaði okkur frá Skálholti. Viðbrögð bræðra voru frábærlega jákvæð og þakkir fyrir þennan einstaka viðburð gleðileg og einlæg. 

Undir­bún­ingur að viðbyggingu Ljósatraðar gengur vel undir ötulli stjórn bróður Guðmundar Rúnars Óskars­sonar og bygging­ar­nefndar. Vonandi hefjast framkvæmdir fljótt og verður lokið að mestu í haust. 

Ég vil hér í lok vetrar þakka ykkur fyrir að hafa fengið að sitja hér sem Stm stúkunnar enn eitt árið. Ég þakka öllum þeim bræðrum sem með einum eða öðrum hætti komu við að starfinu fyrir frábært starf og ástundun á starfs­árinu. Ég þakka einnig fyrir alla þá fórnfúsu vinnu sem liggur að baki starfinu en sú vinna er óhemju­mikil og ómetanleg. Þegar ég var tekinn inn í Hamar var mér ráðlagt að segja alltaf JÁ ef ég væri beðinn um að gera eitthvað fyrir stúkuna eða Regluna. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að heyra alltaf JÁ frá ykkur bræðrum þegar ég hef beðið ykkur um að gera stúkunni gagn. Ég þakka ykkur bróðurlega og innilega fyrir slík viðbrögð sem gera stúkuna okkar eins frábæra eins og hún er og hefur ávallt verið. 

Til okkar Hamars­bræðra á ég ekki betri óskir nú fram að færa heldur en að St. Jóh. st. Hamar megi halda áfram að dafna og eflast og veita okkur leiðsögn og gleði, stúkunni, Reglunni og ekki síst okkur sjálfum og fjölskyldum til heilla. 

Bræður mínir. 

Ég þakka ykkur fyrir starfið í vetur. Við kveðjumst nú um stund­ar­sakir, kveðjum stúku­starfið og heilsum sumri. Þó að við höfum slökkt ljósin í musteri okkar að Ljósatröð þá skulum við varðveita og huga að því ljósi sem hinn Almáttugi hefur tendrað í brjóstum vorum svo það aldrei megi slökkna. 

Við hittumst vonandi allir bræður mínir þegar starf getur hafist tvíefldir, hressir og tilbúnir að njóta vináttu og bræðralags. 

Ég óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar blessunar Hins Hæsta Höfuðsmiðs og gleðilegs sumars.

Ólafur Magnússon

Stm. Hamar 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?