Allt starf fellt niður næstu þrjár vikur, frá 25. mars Sjá nánar.

Hvað skal til verka vinna?

Kæru bræður

Við upphaf COVID-19 farald­ursins í febrúar, vonuðumst við flestir til þess að unnt yrði að komast hratt yfir versta hjallann. Með samstilltu átaki í samfélagi okkar um sóttvarnir, yrði unnt að halda faraldrinum niðri. Sú von rættist ekki. Nánast allt starf innan Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi var stöðvað þann 11. mars 2020 til loka síðasta starfsárs, 30. júní 2020.

Strax í byrjun sumars var farið að skipu­leggja fundar­starf okkar og það skyldi hefjast 6. ágúst 2020. Fór það eftir, en aðeins tveir fundir voru haldnir í Lands­stúkunni. GÞ fundi var frestað til 3. september og þá hófst hið eiginlega starfsár 2020-2021. Nokkrir fundir voru haldnir í Lands­stúkunni og starfs­stúkunum.  Enn á ný blés COVID-19 út og allt starf var stöðvað að nýju með tilkynningu þann 3. október og nú er fyrirséð að engir fundir verða haldnir til 10. nóvember ef miðað er við útgefna reglugerð Heilbrigð­is­ráðu­neyt­isins. Um framhaldið getum við ekkert sagt á þessar stundu, annað en að núverandi „þriðja bylgja farald­ursins“ virðist í rénun.

Strax og séð varð að reglu­bundið stúku­starf og námskeið myndu stöðvast, bókasöfn lokast og svo framvegis, hvatti SMR til þess að reynt yrði að halda sambandinu milli bræðra með öllum tiltækum og heimilum leiðum, svo sem með því að hringja, senda tölvu­pósta og nýta ýmsar samskipta­leiðir á netinu án þess þó að ræða þar siðbundna þætti starfsins. Einnig brugðust stjórn­endur stúknanna vel við áskorun SMR um að halda stúkufundi með eins litlum breyt­ingum á framkvæmd siðbundinna stúkufunda og unnt var að gera miðað við kröfur sóttvarna. En núna er ekkert stúku­starf mögulegt, að minnsta kosti til 10. nóvember. Hvað skal þá til verka vinna?

Nokkrar stúkur hafa brugðist hratt og vel við, gagnvart nýrri stöðu og áskorunum. Af ýmsu er að taka. Þannig hafa t.d. Fjöln­is­bræður birt efni á upphafssíðu sinnar stúku, Hamars­bræður streymdu athöfn, Mælifells­bræður haldið netsam­komur með aðstoð Teams forritsins, Eddubræður hafa birt hlaðvarps­þætti (hljóð og mynd), Glitnis- og Sindra­bræður eru með verkefni í vinnslu og þannig má áfram telja. Aðrir bræður hafa tekið upp símann og heyrt í sjúkum bræðrum, ekkjum, einstæð­ingum, vinum og kunningjum. Allt starf sem fram fer á netinu hefur verið kynnt þar til bærum yfirmönnum R. og verið framkvæmt samkvæmt þeim ströngu reglum sem um slíkt gilda. Almenna krafan er sú að allt efni sé á innri vef Reglunnar og þá undir heimasíðu viðkomandi stúku ef það er tileinkað þeim, annars á almenna hluta innri síðunnar.

Með hugleiðingu þessari langar undir­ritaðan að skora á alla bræður, embætt­ismenn og óbreytta bræður, að nýta nú tímann vel, íhuga dyggðir Frímúrara og koma þeim í framkvæmd, nú er nefnilega lag. Þeir sem hafa áhuga á að búa til efni til birtingar á innri hluta heima­síð­unnar er bent á að setja sig í samband við Stjórn­stofu og/eða forsvarsmenn þeirra stúkna sem eru þegar komnar af stað.

Gefum starfinu aukinn kraft – við núverandi aðstæður á óhefð­bundinn hátt. Framkvæmum og breiðum út dyggð­irnar. Þannig styttum við þann erfiða tíma sem okkur er ekki mögulegt að stunda hefðbundið stúku­starf. Förum varlega, förum eftir tilmælum yfirvalda, enda eru fjölmargir möguleikar til samskipta fyrir okkur alla, innan þeirra. 

Eiríkur Finnur Greipsson

Erindreki Reglunnar

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?