Hjólað á Jónsmessu­skemmtun í Flatey

Sleipnir hjólar frá Akranesi í Stykk­ishólm

Það var spenntur hópur hjólara sem hittist á Akranesi að morgni 21. júní. Verkefni dagsins, að hjóla frá Skaganum í Stykk­ishólm á Jónsmessu­skemmtun Akurs og Borgar í Flatey daginn eftir.

Sex bræður og ein systir settust niður við dýrindis morgun­verð­arborð að heimili Reynis Georgs­sonar, Akurs­bróður og Dagnýar Óskar Halldórs­dóttur, eiginkonu hans. Aðrir sem ákváðu að taka þátt í þessu skemmtilega ævintýri voru Eyjólfur Rúnar Stefánsson (Akur), Bjarni Þorvarð­arson (Edda), Reynir Magnússon (Gimli), Heiðar Þór Jónsson (Mímir) og Sigurður Stefán Ólafsson (Akur), en sá síðast­nefndi er faðir Eyjólfs og ætlaði að trússa fyrir hópinn og keyra á eftir honum til að vernda frá umferðinni. Boðið var upp á egg og beikon til að hlaða mannskapinn fyrir komandi átök.

Á slaginu 9:00 var langt af stað frá húsakynnum Akurs á Akranesi. Framundan 135 km að reglu­heimili Borgar í Stykk­is­hólmi. Veðrið var gott, smá mótvindur, en ekkert sem hægt er að kvarta undan.

Ferðin gekk eins og í sögu. Stoppað var í Borgarnesi til að fá kaffi og spjalla aðeins en síðan var haldið áfram. Meðal­hraðinn var góður, í kringum 25 km á klst. og var stefnan að vera komnir í Stykk­ishólm milli 16 og 17. Haldið var áfram og næsta stopp var planað á kaffi­húsinu Rjúkanda við Vegamót, þá búið að hjóla um 100 km.  Þar bættist Sævar Jónsson (Akur) í hópinn með ferska fætur og hjólaði með hópnum yfir Vatnaleið og inn í Hólminn.

Hópurinn var kominn í Stykk­ishólm rétt fyrir kl 17. Allt samkvæmt áætlun. Þar var stokkið í sundlaugina og þreyttir hjólarar kældu lúna fætur niður í kalda pottinum. Síðan tók við dýrindis grill­veisla og spjall heima hjá Stefáni og Jóhönnu Jónu Guðbrands­dóttur. Reynir “kokkur” Magnússon kom með kjöt á grillið og Jóhanna útbjó meðlæti.

Það var þreyttur en sáttur hópur sem lagðist til hvílu um kvöldið og spenntur fyrir komandi degi í Flatey með stórum hópi frímúr­ara­bræðra og systra.

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?