Heilbrigð­is­ráðu­neytið gefur út nýja reglugerð sem tók gildi 10. maí 2021 Sjá nánar.

Hinar sjö klassísku höfuð­dyggðir og sögulegur arfur þeirra

Erindi br Lárusar Ingólfs­sonar

Ég hef þetta litla fræðslu­erindi á tilvitnun í skáldið frá Fagra­skógi

Lík er vor þekking
um leynd­ar­dóminn
kynnum vindsins
við kjarrið og blómin.
Ilminn ber hann
án þess að vita
um allan dalinn.
Í vitund vorri
er viskan – falin.

. … í vitund vorri er viskan – falin.

Sókrates sagði: „- Viska – það er að leita hins fagra sanna og góða.“

Leiðin til hinnar guðlegu visku er “leið göfgun­ar­innar” sem við þekkjum svo vel sem markmið frímúrara, en reglan hefur m.a. það hlutverk að beina sjónum manna upp á við til viskunnar helga fjalls. Vegurinn liggur upp og það kalla hún að leita ljóss og sannleika.

Við breytum af göfgi með því að vera dyggðugir. Að vera farsæll maður er meðal annars fólgið í því að vera dyggðugur. En dyggð eða ágæti er ekki bara verknaður, heldur eigin­leiki sem er dýrmætur í sjálfum sér. Þessar dygðir sem og það starf og skyldur sem ég er hér að nefna snúa að siðfræði. En hún fæst við mannlega breytni og rannsakar lögmál um hana, – lögmál sem lýtur að því að verða betri manneskja í sambúðinni við aðrar manneskjur hér á takmarkaðri jörð.

Dyggðasið­fræði er einn þriggja helstu strauma í siðfræði. Í grófum dráttum má segja að dyggðasið­fræðin leggi áherslu á siðferðilegt hlutverk dyggða og skapgerðar, andstætt skyld­usið­fræði (I. Kant 1724-1804) en hún leggur áherslur á skyldur, svo er í þriðja lagi reglu­sið­fræði (John Stuart Mill 1806-1873) (leiks­lokasið­fræði,) þar sem áherslan er á afleiðingu athafna.

Dyggðasið­fræðin er jafnan tengd hugmyndum um manneðli og mannlega heill eða farsæld. Þannig spyrja dyggða-siðfræð­ingar þeirrar grund­vallar spurn­ingar: Hvernig ber mér að lifa lífinu? Með þessari spurningu er lagður grunnur að því sem á eftir kemur. En spurn­ingin snýr að þroska einstak­lingsins þannig að hann beiti hugsun sinni og hagi breytni sinni á þann veg, að leiði til farsældar. Það er hið eiginlega viðfangsefni þó menn hafi í gegnum aldirnar greint á um tengslin milli dygðugs lífernis og farsældar.

Dyggðasið­fræðin sækir beint í smiðju forngrískar heimspeki­hefðar sem rakin er til heimspekiskólanna í Aþenu og þá einkum Akademí­unnar á fjórðu öld fyrir Krist. En hún var mótuð af Platoni. En síðar komu svo áhrif Aristotelesar og Stóu-spekinnar. (Saga dyggðasið­fræð­innar í kínverskri heimspeki er óháð vestrænni heimspekihefð ).

Upphaf­legar hugmyndir um dyggðina voru afar einfaldar: – allt á sitt hlutverk eða eiginverk, en dyggð er að sinna þessu hlutverki vel. Síðan komu svo þær hugmyndir að dyggðin væri ekki bara verknaður heldur eigin­leiki sem væri dýrmætur í sjálfum sér – sjálfs síns vegna. Þessi forna hefð Grikkja mótaði heimspeki og guðfræðilega heimspeki á miðöldum og hefur verið virk allt fram á okkar dag. Höfuð verk forn- grískrar sem og vestrænnar heimspeki eða siðfræði eru Ríkið eftir Platon og Siðfræði Nikomak­kosar eftir Arist­óteles.

Platon sem fæddur var árið 427 f.Kr. taldi dyggð vera eigin­leika sem stuðlaði að farsæld, þó honum gengi ekki allskostar að sýna fram á það. Með riti sínu Ríkið gerir hann meðal annars tilraun til þess að gefa svar við spurn­ingunni; hvort réttlæti borgi sig. Ríkið hefst á samræðu Sókra­tesar og fræðarans Þrasýma­kosar. Kenning Þrasýma­kosar byggist á þeirri skoðun að öll hegðun manna mótist af sjálfs­elsku. Menn ota sínum tota í einu og öllu og reyna eftir mætti að tryggja eigin velferð. Boðskapur Þrasýma­kosar er að ranglæti og algjört siðleysi sé æðsta takmark mannlífsins og miklu mun æskilegra hverjum manni en réttlátt og siðlegt líferni. Það er svo til þess að kveða Þrasýmakos í kútinn sem Platón dregur upp mynd sína af fyrir­mynd­arríki (Fögruborg) þar sem heimspek­ingar ráða ríkjum, en þá taldi Platón vitrari og skynsamari en aðra menn. Leiðin sem Platon fer, er í megin­dráttum sú að hann setur fram kenningu um þrískiptingu sálar­innar í skynsemi, skap og ástríðu (tilfinningu) en þessir þættir togast á um stjórnina í manninum. Og á grund­velli þessarar hugmyndar reisir Platon síðan kenningu um fjórar höfuð­dygðir sem á íslensku eru gjarnan nefndar: viska, hugrekki, hófsemi og réttlæti. (Hafa ber í huga að hugtök sem tekin eru og þýdd, tengjast gjarnan óvissunni um það hvaða orð skuli notuð til að lýsa sem best upphaf­legri merkingu þeirra.)

Arist­óteles frægasti nemandi Platóns fæddist árið 384 f.Kr. og er af mörgum kallaður “faðir rökfræð­innar”. Hann skrifaði Siðfræði Nikomak­kosar en hún hefst á þeim orðum að “Sérhver list og rannsókn, sérhver athöfn og val, virðist stefna að einhverju góðu.” og síðan heldur hann áfram og ályktar að hið góða sé markmið alls. Í þessu riti reynir Arist­óteles að gera grein fyrir siðferði mannsins og leitar skynsam­legra raka fyrir því að dygðugt líferni leiði til heill og hamingju. Umfjöllun hans um dyggðir á borð við siðvit og vináttu miðar að því að skýra forsendur réttrar breytni. Að rækta með sér dyggðir jafngildir ekki því að læra siðareglur sem nota má til að dæma athafnir. Dygð og siðvit snýst um að rækta hæfileika sína og tileinka sér innsæi og reynslu sem er skilyrði þess að velja rétt milli ólíkra valkosta.

Sjónarmið Arist­ótelesar réðu mestu á miðöldum og fylgir til að mynda Tómas af Akvínó (um 1225-1274) honum í skrifum sínum á þrettándu öld um sjö dygðir, en kristnir heimspek­ingar bættu þremur dygðum við þær fjórar sem þeir tóku upp frá Grikkjum. Það voru dyggð­irnar trú, von og kærleikur, sem eru undir­staða að siðfræði Nýja testa­ment­isins. Þannig urðu til þær sjö klassísku höfuð­dyggðir sem allar fengu á sig kristið svipmót.
Viska, hugrekki, hófstilling, réttlæti, trú, von og kærleikur.

Í ljósi forsögu þessara sjö klassísku dyggða, má skipta þeim í tvo flokka eftir uppruna: forngrískar (eða heiðnar) og kristnar. Upprunalegu höfuð­dyggð­irnar viska, hugrekki, hófstilling og réttlæti eru elstar og eiga rót sína að rekja til heimspekiskólanna í Aþenu á fjórðu öld f.Kr., sem ég vék hér að áðan. Hinar þrjár kristnu eða guðlegu dyggðir trú, von og kærleika má hins vegar eigna Páli postula í Nýja Testa­mentinu(1 Kor 13:13) en þær tengjast hebreskri og kristinni boð-orða-siðfræði. Þessar þrjár dyggðir hafa strangt til tekið enga merkingu utan sinnar bóklegu guðstrúar.
Grísku heimspeki­dyggð­irnar fjórar höfðu aftur á móti enga augljósa guðfræðilega skírskotun í sinni upphaflegu mynd. En eftir að kristnir kirkju­feður , ekki síst Tómas frá Akvínó höfðu lagað þessar fjórar dygðir að guðfræði Rómakirkju með því að fjölga höfuð­dyggðunum í sjö, voru þær eftir það einnig skildar kirkju­legum skilningi. Hin tvíþætti sögulegi arfur dygðanna í formlegri siðfræði, hinn gríski heimspekilegi og hinn rómverski trúarlegi, eru ólíkir að uppruna og gerð, en eiga það þó sameig­inlegt að vera aðeins einn þáttur í miklu veiga­meiri kenning­ar­kerfum, (eða dogmata).Við þennan arf hefur síðan bæst ýmiskonar nútíma­heim­speki og stjórn­mála­kenn­ingar sem allar setja fram einhvers konar dyggðir og lífsreglur í bland við kenningar um eðli og örlög mannsins.

Einnig hjá okkur Íslend­ingum er orðið dygð eða dyggð ekki alltaf notað yfir þá gömlu hugsun um að dyggð sé mannlegur eigin­leiki sem er dýrmætur í sjálfum sér. Í dag notar fólk líka hugtakið dyggð um ýmsar lífsreglur og framgöngu eða framkomu fólks við aðrar manneskjur á okkar takmörkuðu jörð.

Ilminn ber hann
án þess að vita
um allan dalinn.
Í vitund vorri
er viskan – falin.

 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?