
Undirritun á sölu byggingarétts á bílastæðalóð. Kristján S. Sigmundsson FHR, Valur Valsson SMR og Jens Sandholt og Einar Ágústsson fyrir hönd Eignalausna ehf.
Við stefnumótunarvinnu Reglunnar árið 2014 var nýting bílastæðalóðar eitt þeirra mála sem skoðað var ítarlega. Skýrsla um mögulega valkosti varðandi nýtingu og framtíðarskipan lóðarinnar var unnin og síðan send Fjárhagsráði til umfjöllunar.
Eftir ítarlega skoðun í bæði Fjárhagsráði og Æðsta Ráði Reglunnar, þar sem bræður með sérfræðiþekkingu á sviði lögfræði, eignaumsýslu og lána- og byggingarmála voru kallaðir til, var ákveðið að halda áfram með málið. Við það tækifæri var málið kynnt á heimasíðu Reglunnar.
Gengið var til samstarfs við Eignalausnir ehf. og með aðstoð THG arkitekta hófust viðræður við skipulagsyfirvöld um breytt deiliskipulag lóðarinnar sem lauk með því að samkomulag náðist í desember 2018. Leyfilegt byggingarmagn var aukið og heimilað að á lóðinni yrði reist skrifstofuhúsnæði eða hótel með tilheyrandi þjónusturými eins og fram kom í tilkynningu á heimasíðu Reglunnar um síðastliðin áramót og fjallað var um í tímaritinu Frímúraranum.
Við afgreiðslu á hinu nýja deiliskipulagi var gerður fyrirvari um rannsóknir um mögulegar fornminjar á lóðinni. Þær fóru fram í sumar og var niðurstaðan sú að ekkert markvert hefði fundist og ekkert væri því til fyrirstöðu að halda áfram þróun byggingarreitsins.
Í framhaldi af þessum niðurstöðum var undirritaður samningur um sölu Frímúrarareglunnar á Íslandi á byggingarrétti á bílastæðalóðinni til Eignalausna ehf. þann 4. september síðastliðinn. Samningsverðið er trúnaðarmál, en í samningnum felst m.a. að Frímúrarareglan eignast 55% í því bílastæðahúsi sem byggt verður á lóðinni og verður að auki með forgang að bílastæðum eftir klukkan 17:00 á daginn. Þá er vert að geta þess að Frímúrarareglan hefur forkaupsrétt að öllum mannvirkjum sem reist verða á lóðinni.

Undirritun á sölu byggingarétts á bílastæðalóð. Kristján S. Sigmundsson FHR, Valur Valsson SMR og Jens Sandholt og Einar Ágústsson fyrir hönd Eignalausna ehf.
Það voru þeir Valur Valsson, SMR, og Kristján S. Sigmundsson, FHR, sem undirrituðu samninginn af hálfu Frímúrarareglunnar og Jens Sandholt og Einar Ágústsson fyrir hönd Eignalausna ehf.
Ekki er reiknað með að framkvæmdir á lóðinni hefjist á starfsárinu 2019-2020, en við næstu skref mun Reglan eiga kost á því að taka þátt í hönnunarferlinu sem nú fer í gang.