Laugardaginn 19. mars 2022 verður haldinn tímamótaviðburður, Akureyrardagur, veglegur fræðaþingsdagur, í samstarfi Fræðslunefndar Reglunnar við allar stúkurnar á Akureyri – Stúartstúkan, St.Andr. Huld, St.Jóh. Rún – og St.Jóh. Snorra.
Hér verður sannkölluð fræðaveisla í boði, fjögur fræðaþing yfir daginn og fræðafundur í St.Jóh. Snorra um kvöldið. Allir viðburðir Akureyrardagsins fara fram í Frímúrarahúsinu á Akureyri. SMR mun setja þingið og margir embættismenn víða að taka þátt í dagskránni. Nánari kynning og forskráning stendur yfir á heimasíðu Reglunnar til 21. febrúar nk.
Hér er einstakt tækifæri til að sækja sér aukinn fróðleik, dýpka skilning sinn á fræðum Reglunnar, hitta aðra bræður frá ýmsum landshlutum og blása á ný til sóknar í frímúrarastarfinu. Já einmitt á Akureyri, stutt að fara í helgarferð þangað til fundar við aðra bræður og njóta dagsins – ef til vill nýta tækifærið og lengja í ferðinni, fara á skíði, taka maka eða fjölskylduna með, o.s.frv.
Kíktu á nánari upplýsingar um dagskránna hér á vefnum. Skráðu þig sem fyrst. Það er einnig þjóðráð að panta gistingu í tæka tíð. Ef þú ferðast einn er spurning hvort þú getir boðið einhverjum far með þér – eða athuga hvort þú getur fengið far með öðrum. Við munum mögulega kanna leiðir til að miðla fari milli bræðra. En fyrst er að skrá sig á þingið!