
Laugardaginn 26. febrúar efndu Eddubræður til fundar á I stigi. Á fundinum var flutt erindið „Frá ókunnum leitanda til kærs bróður“ sem er í raun n.k. leikþáttur sem fluttur er á settum fundi.
Þar er sviðsett inntaka nýs félaga og einstök atriði hennar rædd ítarlega og útskýrð af „leikurum“.
Hlutverkin í þessu leiklesna erindi eru 14 talsins og voru þau í höndum Eddubræðra af ýmsum stigum.
Erindið er tekið saman af Fræðaráði Frímúrareglunnar og byggt á dönsku fræðsluefni. Það er aðgengilegt á bókasöfnum Reglunnar og bræður geta kynnt sér efni þess þar.
Fundurinn tókst afar vel. Hann sóttu tæplega 100 bræður og þar af voru 48 gestir frá 11 St.Jóh.st., víðs vegar af landinu. Kunnugir segja að það hafi ekki verið haldnir margir fjölmennari fundir í Reglunni núna síðustu misserin.
Það liggur í hlutarins eðli, að efnið höfðar ekki síst til bræðra sem nýlega hafa hafið göngu sína innan Frímúrareglunnar og því var það sérlega gleðilegt að um fjórðungur bræðra á fundinum eru á St.Jóh. stigunum. Haft var á orði að hin sjónræna framsetning erindisins væri á við margar heimsóknir á bókasöfn Reglunnar þegar kemur að lærdómi!
Undirbúningur erindaflutnings af þessu tagi er talsverður. Það þarf að vera valinn maður í hverju rúmi. Eddubræður hófu samlestur erindisins á síðasta starfsári enda stóð til að flytja erindið þá, en það tókst ekki fyrr en nú.
Bræður fengu við flutninginn að njóta þess að túlka hinn stórbrotna texta og þá djúpu hugsun og speki sem víða liggur í siðabálkum og fræðsluefni Reglunnar. Til að það gengi sem best fengu þeir til liðs við sig þrautreyndan leikstjóra, br. Sigmund Örn Arngrímsson, fyrrum Stm. St.Jóh.st. Lilju. Hann tók að sér að leiðbeina bræðrum og miðla af reynslu sinni en Lilja setti þetta sama erindi „á svið“ fyrir fáum árum.
Á fundinum ríkti góður bræðrahugur og mikil gleði yfir að fá að hittast undir breyttum aðstæðum í sóttvörnum, en tekið skal fram að bræður voru vel meðvitaðir um að gæta að persónuhelgi bræðra í þeim efnum.
Eftir fundinn sóttu flestir bræðurnir Bróðurmáltíðina þar sem glatt var á hjalla og „Bróðirinn í eldhúsinu“ bauð upp á kjarngóða kótilettumáltíð sem bræður nutu af heilum huga.