Fjárhags­stúkufundur haldinn í húsnæði St. Jóh. St. Vöku laugar­daginn 1. október nk. og hefst kl. 12:00

Kæru br. í St. Jóh. St. Iðunni,

Ég heilsa ykkur með fögnuði nú þegar sumar­leyfum er tekið að ljúka og styttist í að St. Jóh. St. Iðunn haldi fjárhags­stúkufund í stúku­heimili St. Jóh. St. Vöku á Egils­stöðum. Það verður ánægjulegt að hefja störf okkar á ný.

Það er ósk mín og von að allir komi endur­nærðir til fundar þrátt fyrir að sumir br. okkar hafi tekist á við ýmsa erfið­leika á líðandi sumri. Við skulum þá muna að í stúkunni okkar og frímúr­ara­starfinu eigum við okkur skjól og njótum vináttu bræðranna.

Við skulum því ganga til starfs vetrarins með bjartsýni og von í hjarta og rifja upp reglu­starfið og auka við okkur lærdómi fræðanna.

Fræðin ásamt samveru bræðranna auka okkur styrk í daglegu amstri lífsins og veita okkur innri gleði.

Fjárhags­stúkufund­urinn verður haldinn í húsnæði St. Jóh. St. Vöku laugar­daginn 1. október næstkomandi og hefst kl. 12:00.

Venju samkvæmt leggjum við upp í Iðunn­ar­rútunni. Nú munum við aka suður­leiðina og austur um í nýrri rútu undir farsælli stjórn br. Matth­íasar Daða Sigurðs­sonar. Nýja Iðunn­ar­rútan tekur 53 í sæti og og er mjög þægileg og gott að ferðast með henni.

Ferðin hefst kl. 12:00 við Reglu­heimilið í Reykjavík föstu­daginn 30. september n.k. Við munum gista á Gisti­húsinu Egils­stöðum, sem stendur við Lagar­fljót á fögrum stað og á sér meira en eitthundrað ára sögu.

Gisting í tveggja manna herbergi kostar 17.400 krónur nóttin á mann ásamt morgun­verði. Gisting í eins manns herbergi kostar 22.400 krónur.

Verið er að semja um kvöldverð og verða nánari upplýs­ingar veittar þegar niður­staða liggur fyrir. 

Að fundi loknum á laugar­deginum munum við fara í skoðun­arferð og síðan snæða kvöldverð á gististað okkar.

Daginn eftir höldum við ferð okkar áfram og förum norður um land og klárum svo hringinn síðdegis að sunnu­deginum.

Ég hvet ykkur br. mínir til þess að taka frá helgina og njóta þessa fyrsta fundar og þess að aka hring um Ísland. Kostnaður vegna rútuferðar stýrist af þátttöku.

Um miðjan september mánuð verður leitað eftir skráningu br. í ferðina og bræður þá beðnir að skrá sig.

Með brl. kveðjum 

Ólafur Helgi Kjart­ansson, Stólmeistari Iðunnar 

Hreinn Vídalín, Ritari Iðunnar

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?