Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 19. október Sjá nánar.

Bréfi deilt með Hamars­bræðrum

Kæru bræður. 

Norskir bræður okkar úr St. Jóh. stúkunni Olaf Kyrre til den gyldne Kjæde stofnuð fyrir nokkrum árum norska stúku á Torrevieja á Spáni, St. Jóh.st. Dovre. Margir Olaf Kyrre-bræður sem komnir eru á eftirlaun eiga hús á Torrevieja og halda þar til meira og minna allt árið. Þarna hafa þeir byggt upp nokkuð öflugt stúku­starf sem byggir á pólar­stjörnu­kefinu sem notað er í Olaf kyrre í Noregi. Ég sótti fundi hjá Olaf kyrre vetrar­langt 2006-7 og kynntist þá mörgum góðum bræðrum. Einn af þeim var ritari stúkunnar Per Aubert sem haldið hefur sambandi við mig allar götur síðan. Hann er nú ritari í Dovre og sendir mér alltaf fundarboð og aðrar upplýs­ingar frá Dovre. Á föstu­daginn var sendi hann eftir­farandi bréf sem mig langar að deila með ykkur: 

Bræður mínir,

Í dag ætluðum við að halda I° fund. Það verður ekki. En látum það samt ekki alveg fram hjá okkur fara. Í kvöld erum við allir fjarstaddir bræður. Við getum samt sem áður lyft glasi í kvöld klukkan hálf tíu og drukkið venju­bundna heillaskál fyrir fjarstöddum bræðrum. Við þurfum ekki heldur að gleyma hinum bágstöddu. Bróðir féhirðir feri ekki hringinn með söfnun­ar­pokann en þú getur lagt sambærilega upphæð inn á 450 07 945. Bróðir ræðumeistari verður heldur ekki með neitt uppbyggilegt í dag en með fylgir lítil saga til umhugsunar.

Með bróður­legri kveðju

Per Aubert)

Og hér er svo sagan: 

Getgátur

Einu sinni var gamall maður sem bjó í litlum bæ úti á landi. Hann var mjög fátækur en meira að segja kóngurinn öfundaði hann af fallegum, hvítum hesti sem hann átti. Margir höfðu boðist til að kaupa hestinn en gamli maðurinn hafði alltaf neitað að selja. Einn morguninn uppgötvaði gamli maðurinn að hesturinn var ekki lengur á sínum stað í hesthúsinu. Fólkið í bænum kom til hans og harmaði hvarf hestsins: „Nú varstu heimskur! Þú hefðir betur selt hestinn því þá hefðir þú átt peninga til að lifa af það sem eftir er ævinnar. En nú þegar búið er að stela hestinum áttu hvorki peninga né hest. Þvílík óheppni.“  Gamli maðurinn svaraði: „Það vitum við ekkert um. Það eina sem við vitum er að hesturinn er ekki lengur í hesthúsinu. Það er það eina sem við vitum fyrir víst, annað eru getgátur. Við vitum ekki ennþá hvort það er óheppni eða blessun því það eina sem við sjáum er brot af lífinu. Hver veit hvað gerast mun? 

   Fólkið í bænum hló að gamla manninum. Hann hafði alltaf verið öðruvísi en aðrir, svolítið skrýtinn og nú hafði það sýnt sig. En fjórtán dögum síðar kom hesturinn óvænt til baka. Honum hafði ekki verið stolið, hann hafði strokið til fjalla en hafði nú snúið heim á ný ásamt tólf öðrum hvítum, villi­hestum – öllum jafnfal­legum.

   Fólkið í bænum safnaðist saman hjá gamla manninum og sagði furðu lostið: „Þú hafðir rétt fyrir þér, gamli maður. Það var svo sannarlega ekki óheppni að hesturinn hvarf. Þvílík blessun sem það greinlega er.“ Gamli maðurinn svaraði: „Það vitum við ekkert um. Það eina sem við vitum er að hesturinn er kominn heim. Við vitum ekki ennþá hvort það er óheppni eða blessun. Ef þú lest aðeins eitt orð í setningu – hvernig getur þú þá metið alla bókina.?“ Í þetta skipti hló enginn að gamla manninum. En fólkið stóð samt í þeirri trú að hann hefði ekki rétt fyrir sér. Það var augljóslega tilefni til að gleðjast yfir því að eiga þrettán fallega hesta. 

   Sonur gamla mannsins fór nú að temja villi­hestana en eftir aðeins eina viku datt hann af baki og fótbrotnaði. Fólkið í bænum safnaðist saman á ný: „Að hugsa sér – þú hafðir rétt fyrir þér! Það var skelfileg óheppni að þessir villi­hestar skyldu verða á vegi þínum. Nú er einka­sonur þinn, fyrir­vinna heimil­isins, fótbrotinn og þú verður enn fátækari.“ Gamli maðurinn svaraði: „Það vitum við ekkert um. Það eina sem við vitum er að sonur minn er fótbrotinn. Hvort það er óheppni eða blessun vitum við ekki ennþá. Eitt pensilfar er ekki nóg til að meta alla myndina.

   Mánuði seinna braust út stríð í landinu og allir ungir menn í bænum þurftu að fara í stríðið. En sonur gamla mannsins slapp við það vegna þess að hann var fótbrotinn.  

   Fólkið í bænum safnaðist enn á ný saman hjá gamla manninum: „Þú hafðir rétt fyrir þér – fótbrot sonar þíns var alls engin óheppni. Hann er vissulega slasaður en þú færð alla vega að hafa hann heima hjá þér. Þvílík blessun. Ef til vill sjáum við syni okkar aldrei aftur.“ Og gamli maðurinn svaraði: „Það vitum við ekkert um. Það eina sem við vitum er að synir ykkar fóru í stríð en sonur minn er heima. Hvort það er óheppni eða blessun vitum við ekki ennþá. Ekki standa í þeirri trú að þið vitið – þá storkið þið örlögunum. Það eina sem við vitum er að vegir lífsins eru óendan­legir. Þegar einn vegur endar er annar rétt að byrja. Dyr lokast en aðrar opnast. Þú nærð upp á tindinn en þá blasir við annar hærri. Lífið er ferðalag. Hvað bíður bak við næstu beygju veit enginn nema sá sem heldur áfram.

M.br.kv. Símon Jón 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?