Heilbrigðisráðuneytið hefur tilkynnt að frá og með föstudeginum 25. febrúar verði öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum vegna heimsfaraldurs COVID-19 aflétt. Þar með falla brott allar reglur um takmarkanir á samkomum og skólahaldi og einnig krafa um einangrun þeirra sem sýkjast af COVID-19. Heilbrigðisráðherra kynnti ákvörðun sína og sagði m.a:
„Við getum sannarlega glaðst á þessum tímamótum en ég hvet fólk engu að síður til að fara varlega, gæta að persónubundnum sóttvörnum og halda sig til hlés finni það fyrir einkennum.“
Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að daglega hafa greinst á milli 2.100 og 2.800 smit en alvarleg veikindi hafa aftur á móti ekki aukist að sama skapi. Útbreidd smit valdi þó miklu álagi á stofnunum. Inniliggjandi sjúklingum sem greinast með COVID-19 hefur fjölgað, sama máli gegnir um íbúa á hjúkrunarheimilum og veikindi og fjarvistir starfsfólks vegna COVID-19 hafa falið í sér miklar áskoranir við að halda úti óskertri starfsemi.
Að mati sóttvarnalæknis er víðtækt samfélagslegt ónæmi gegn COVID-19 helsta leiðin út úr faraldrinum, eða allt að 80%. Til að ná því þurfi sem flestir að smitast af veirunni þar sem bóluefnin dugi ekki til, þótt þau veiti góða vernd gegn alvarlegum veikindum.
Afléttingar
Í ljósi þessara varnaðarorða er það niðurstaða SMR og Viðbragðsteymis R. að okkur beri að fara áfram varlega í öllum samskiptum okkar, fundarhöldum og samverustundum. Niðurstaða teymisins er því að gefa út eftirfarandi tilkynningu:
- Forskráninga á fundi er ekki lengur krafist, enda krafa um fjöldatakmarkanir ekki lengur til staðar.
- Ekki er lengur krafa um eins metra fjarlægðarmörk og grímunotkun verður valkvæð.
- Eindregin tilmæli eru til bræðra um að gæta áfram vel að eigin sóttvörnum og taka tillit til óska annarra bræðra sem vilja gæta varúðar og sóttvarna. Meðal annars með því að forðast snertingar og hópamyndun.
- Nánari fyrirmæli til Stmm. og Smm. verða send í rafpósti á morgun, þar sem útfærslur fundarsiða verða tíundaðar nánar. Ástæðan er sú að við teljum mjög mikilvægt að takmarka smithættu áfram, þó með umtalsverðum afléttingum.
Kæru bræður, auðvitað fögnum við því að fá meira frelsi í samskiptum okkar við annað fólk. Höfum það samt hugfast að öllu frelsi fylgir ábyrgð. Mjög margir í okkar hópi eru komnir á efri ár og með undirliggjandi sjúkdóma. Það er ekki skemmtileg tilhugsun að hópsmit komi upp okkar á meðal og því rík ástæða til að ganga hægt um gleðinnar dyr.
Kristján Þórðarson SMR
og Viðbragðsteymi R.