Starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 24. febrúar 2021 Sjá nánar.

Af ferða­lögum

Frá fæðingu til dauða má segja að líf okkar sé ferðalag, frá einum stað til annars, frá einu þroska­stigi til annars. Þetta þekkjum við öll, ekki síst við frímúrarar. Það er alkunna að ferðalög víkka gjarnan sjóndeild­ar­hring okkar.

Íslend­ingar hafa löngum ferðast mikið. Sigldir menn námu hér land og nú á tímum förum við fljúgandi til allra heimsins horna. Vegna kófsins ferðuðumst við íslend­ingar mest innan­lands í fyrra­sumar og þessa dagana er okkur uppálagt að ferðast sem mest innanhúss. Og um leið og heimurinn opnast á ný förum við vísast mörg á flug.

Það er komið ár síðan heims­hornaflakk­arinn ég, sem hef heimsótt tugi landa um ævina og  iðulega nokkur á ári, fór í langferð út í heim. Ferðin var vikulöng heimsókn til Indlands, að heimsækja staði hvar alþjóðlegu hjálp­ar­sam­tökin SOS Barna­þorpin starfa þar í landi, meðal annarra með dýrmætum og drjúgum stuðningi gjafmildra íslendinga. Ferða­lagið víkkaði svo sannarlega sjóndeild­ar­hring minn, því upplifunin var einstök og mögnuð, mikið brosað og hlegið, þrátt fyrir ótrúlegar aðstæður, sem fæstir núlifandi íslend­ingar hafa nokkru sinni búið við. Sem betur fer.

Ári síðar ferðumst við hjónin eins og aðrir mest innanhúss og njótum við það afraksturs íslenska jólabóka­flóðsins þessa dagana. Í gegnum bækurnar ferðumst við reyndar út um allan heim, m.a. til Vestfjarða í boði Jóns Kalmans, til Finnlands í boði Tove Jansson og til Rússlands og víðar í boði Leos Tolstoys. Og sjóndeild­ar­hringur okkar víkkar í hverri ferð.

Ein sagna Tolstoys gerist í Indlandi, á kaffihúsi í borginni Surat. Í henni segir frá víðförlum spekingum af ýmsum þjóðernum sem deildu um hvað sólin væri og sýndist sitt hverjum, allt eftir sínum sjónarhóli. Síðastur tók til máls Kínverji sem sagði að eins væri um þetta álitamál og trúmál.  Hroka­fullir teldu allir sig handhafa sannleikans og þeirra sýn væri hin eina rétta. “En hvaða musteri er skírn­ar­fontur á borð við hafið, turnar og þök á borð við himnana, ljós á borð við sól, tungl og stjörnur? Er hægt að bera myndirnar í musterunum saman við fólk sem lifir, elskar og er gott hvert við annað?”

“Því betur sem hann (maðurinn) þekkir Guð því nær stendur hann honum og verður endurskin af góðleika hans, miskunnsemi og ást. Þess vegna á sá sem skilur að sólin skín um allan heim að hætta að ásaka og fyrirlíta hinn hjátrú­ar­fulla mann sem dýrkar skurð­goðið sitt, fyrir að sjá einn geisla þess sama ljóss.”

Kristján Davíðsson

Eldra efni

Að fella grímuna
LÍFSSAGA
Vel heppnuð vefsamvera

Innskráning

Hver er mín R.kt.?