Frímúrarareglan á Íslandi býður bræðrum og fjölskyldum þeirra til aðventukvölds fimmtudaginn 17. desember nk., en um er að ræða rafrænan viðburð. Á þessum óvenjulegum tímum skiptir samvera og samhugur meira máli en nokkru sinni og því er gripið til þess ráðs að í stað þess að safnast saman í Regluheimilinu til jólafundar, tengjumst við tryggðarböndum með aðstoð tækninnar.
Aðventukvöldið gefur bræðrum og þeirra nánustu tækifæri til að halda sambandi og efla tengslin meðan ekki eru tækifæri til hefðbundinna jólafunda og rétt eins og fjölmargar stúkur hafa boðað til rafrænnar samveru á jólahátíð, er öllum bræðrum nú boðið til slíkrar samveru.
Efni aðventukvöldsins verður kunnuglegt. Tónlist, ávarp SMR, lestur jólaguðspjalls, hugvekja og síðast en ekki síst tendrun jólaljóssins sem tengir okkur saman, hvar svo við erum staddir og hvernig sem á stendur. Ljósið færir okkur ekki aðeins birtu og yl, heldur er tendrun þess eilíf áminning um sigur ljóssins yfir myrkrinu.
Við hvetjum bræður til að bjóða sínum nánustu til aðventukvöldsins fyrir framan tölvuna fimmtudagskvöldið 17. desember en nánari upplýsingar um hvernig hægt verður að tengjast fundinum berast bræðrum í tölvupósti fljótlega og á heimasíðu Reglunnar.