Aðventu­hug­leiðing 2018 – Gleði undir­bún­ingsins

Sr. Magnús Björn Björnsson

Góði Guð. Í dag hef ég ekki talað illa um neinn, ég hef ekki misst móðinn. Ég hef ekki verið geðstirður, viðskotaillur eða sjálfs­elskur. En eftir nokkrar mínútur fer ég fram úr rúminu og frá og með þeirri stundu þarf ég talsverða hjálp frá þér. Amen. (Argument)

Kæru vinir. Þetta gæti verið bænin mín og bænin þín í upphafi dags, en ef ég þekki ykkur rétt, þá eruð þið sérstaklega jákvætt fólk og lífsglatt. Þið hafið þjálfað ykkur í því að sjá glasið ykkar hálf fullt í stað þess að sjá það hálf tómt. Það er jú afstaðan til lífsins sem skiptir svo miklu máli.

Páll postuli segir í bréfi sínu til safnað­arins í Filippí: „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. “ Fil. 4.4,5

Já, Drottinn er í nánd. Hann er á næsta leiti í Jesú barninu. Við finnum hvernig spenn­ing­urinn læðist að okkur. Allur desember og jafnvel nóvember hafa borið með sér að jólahá­tíðin er framundan.

Það mikilvægt að halda í gleðina, rækta hana og iðka.

Engum vafa er það undir­orpið að flestir Íslend­ingar eru mikil jólabörn. Við hlökkum flest til jólanna eins og börnin. Það er merkilegt að skoða og hlusta á hvernig fólk undirbýr jólin. Fjölskyldur hafa komið sér upp hefðum, sem ná á milli kynslóða. Þegar við Dóra rugluðum saman reitum, reyndum við að taka það besta úr hefðum hvorrar fjölskyldu fyrir sig. Ég tek einnig eftir því að þau ungu pör sem eru að rugla saman reitum halda jólin gjarna sitt í hvoru lagi, hjá pabba og mömmu framan af. Það er oft ekki fyr en börnin koma til sögunnar, að pörin fara að halda sameig­inleg fjölskyldujól. Jólin eru svo nærri hjartanu og viðkvæmninni, fjölskyldu og vinum.

Afi minn heitinn, Ludvig Kaaber, var mikið jólabarn. Hann keypti snemma jólagjaf­irnar og læsti þær inni í skrif­borðsskáp. Öðru hvoru spurði hann börnin sín hvort þau langaði til að sjá gjafrinar. Síðan leyfði hann þeim að kíkja inn í skápinn. Þau minntust þess hve hann var glaður og spenntur er hann leyfði þeim að líta gjafirnar. Hann undirbjó jólin og jók jólaspenn­inginn á þennan hátt. Gleði hans smitaði þau.

Við kveikjum á aðventukransi og nefnum kertin á kransinum eftir atburðum jólanætur. Spádóma­kertið, minnir á spádómana um krist, sem voru margir í Gamla testa­mentinu. Jesaja geymir e.t.v. þann sem okkur þykir afar vænt um: „Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós… því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingja­dóm­urinn hvíla. Hann skal kallast, undra­ráð­gjafi, guðhetja, eilífð­ar­faðir, friðar­höfðingi.“, en hann er lesinn á aðfanga­dags­kvöld og er í Jesaja ritinu.

Barnið sem fæddist í Betlehem, var öllum þjóðum ljós. Titlarnir, sem spádóm­urinn inniheldur eru einstakir hver um sig. En líf barnsins stóð sannarlega undir þeim. Þess vegna markar koma Jesú svo mikil tímamót.

Hin kertin á kransinum, Betlehemskertið, hirða­kertið og engla­kertið, minna á atburði jólanætur. Það er svo notalegt að íhuga þann atburð við kerta­ljósin.

Aðventan er jólafasta. Fasta merkir að við prófum okkur sjálf, skoðum og íhugum hvað það er sem gefur lífinu gildi í raun og veru – og hvers vegna við þurfum á frels­aranum að halda.

Litur aðvent­unnar er sá sami og litur föstunnar: Fjólublár, litur iðrunar og yfirbótar.

Að fasta er að temja sér hófsemi, láta eitthvað á móti sér, til að geta gefið öðrum. Söfnun­ar­baukar Hjálp­ar­starfs kirkj­unnar og jólasafnanir líknar­félaga eru mikilvæg áminning til okkar í þá veru.

Aðventa er tími vonar. Aðventu­ljósin, vitna um komu ljóssins eilífa, Jesú Krists. Aðventu­ljósin í gluggunum og aðventukr­ans­arnir er í raun bæn: Kom, Drottinn Jesús.

Páll hvetur okkur og segir: „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. “ Fil. 4.4,5

Leyfum Jesúbarninu að móta hug okkar og gefa okkur gleði. Guð blessi ykkur og fjölskyldur ykkar. Megi aðventan og jólin færa ykkur blessun og frið. Amen.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?